Skip to main content
Frétt

„Hænuskrefsfrumvarpið“ örlítið skref í rétta átt!

By 7. júní 2019No Comments
Öryrkjabandalag Íslands sendi velferðarnefnd Alþingis í gær umsögn um frumvarp félags- og barnamálaráðherra sem varðar 954. mál, Félagsleg aðstoð og almannatryggingar (framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna). 
Í umsögninni lagði ÖBÍ mikla áherslu á að ákvæði c og d liða í 1 gr. frumvarpsins, sem tengjast búsetuskerðingum og slysabótum yrðu tekin út úr frumvarpinu enda hefðu þessi ákvæði ekki verið kynnt fyrir fulltrúum ÖBÍ og enginn tími gefinn til að skoða hvaða áhrif þessi ákvæði hafa. Ásmundur Friðriksson staðfesti í dag að tekið hefði verið tillit til óska ÖBÍ og ákvæði c og d liða verið tekin út úr frumvarpinu.
 
Þó við verðum að brosa örlítið út í annað, vegna þess hænuskrefs sem hér er tekið í átt að því afnema margumtalaða krónu á móti krónu skerðingu sem fer úr 100% í 0,65% getum við ekki annað en spurt hvers vegna svo treglega gengur að fá ríkisstjórnina til að afnema skerðinguna alveg og opna þar með fötluðu fólki leið inn á atvinnumarkað án þess að það verði að byrja á að kaupa sig inn á hann. 
Kjör örorku- og enduræfingalífeyrisþega hafa dregist mjög aftur úr kjörum meginþorra landsmanna og atvinnleysisbætur eru nú tugum þúsunda hærri en örorkulífeyrir. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að hækka örorkulífeyri sem í dag er kr. 247.183 en upphæð hans ætti aldrei að vera lægri en lágmarkslaun sem í dag eru kr. 317.000.
 
Skerðingin verður áfram til staðar þó svo að hún sé örlítið minni, ÖBÍ brýnir stjórnvöld til að stíga stærra skref næst og afnema þessa umræddu skerðingu alveg.