Skip to main content
Frétt

Lögbrot lagt fyrir Alþingi?

By 19. nóvember 2018No Comments

Fjármálaráðherra og meirihluti fjárlaganefndar leggja til við Alþingi að lög um almannatryggingar verði brotin við afgreiðslu fjárlaga.

Í fjárlagafrumvarpi 2019 leggur fjármálaráðuneytið fram nýja túlkun á ákvæði 69. gr. almannatryggingalaga. Í frumvarpinu segir um bætur almannatrygginga: „Hækkun bótanna tekur mið af spá Hagstofu Íslands um þróun vísitölu neysluverðs að viðbættri 0,5% kaupmáttaraukningu. Það er sama forsenda og gildir um launahækkanir í frumvarpinu …“ Það er rangt að það sé sama forsenda og gildir um launahækkanir í frumvarpinu. Frumvarpið byggir eins og fjárlagafrumvörp hingað til á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands en samkvæmt henni er áætluð hækkun launavísitölu 6% og má sjá þá forsendu fjárlagafrumvarpsins í frumvarpinu þar sem kemur skýrt fram að gert er ráð fyrir 6% nafnhækkun launa: „Þá er gert ráð fyrir að nafnlaun hækki um 6% á næsta ári…“ Þá kemur einnig fram að gert er ráð fyrir því að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann vaxi um 2,7%. Þrátt fyrir þetta leggur fjármálaráðherra til við Alþingi að það samþykki 0,5% kaupmáttaraukningu lífeyrisþega, að því gefnu að verðbólga fari ekki yfir 2,9%.

Vænlegri kosturinn

Ákvæði 69. gr. laga um almannatryggingar var lögfest með 10. gr. laga nr. 130/1997. Í greinargerð með frumvarpinu segir í skýringum við ákvæðið: „Jafnframt er eðlilegt að fjárhæð bótanna verði ákveðin á fjárlögum hverju sinni, enda byggist viðmiðun þeirra á sömu forsendum og fjárlög um almenna þróun launa og verðlags á fjárlagaárinu.“

Í ræðu Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, þann 9. desember 1997 sagði hann við innleiðingu ákvæðisins: „Lásinn er tvöfaldur. […] Það á ekki að láta nægja að miða við neysluvísitöluna. Það á jafnframt að gæta þess að huga sérstaklega að og hafa viðmiðun á launaþróuninni og þá auðvitað er bara hægt að gera það þegar launaþróunin er vænlegri kostur en vísitala neysluverðs.“

Við fjárlög 2019 er launaþróunin vænlegri kostur en vísitala neysluverðs, en samt er ætlunin ríkisstjórnarinnar og meirihluta fjárlaganefndar að miða einungis við neysluverðsvísitöluna við ákvörðun um hækkun lífeyris almannatrygginga. Í áliti meirihlutans er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækki um 3,6% í stað 3,4% sem er í takt við verðbólguspá næsta árs.

Verðbólguspáin hefur hækkað í 3,6% og á hækkun lífeyris almannatrygginga einungis að vera í samræmi við verðbólguspá, sem hækkaði úr 2,9% í 3,6% frá júní til nóvember.

Hvers vegna er gengið fram hjá áætlaðri 6% hækkun launavísitölu?

Hvað varð um 0,5% kaupmáttaraukningu og hvað gerist ef verðbólga verður enn meiri?

Þróun hækkunar atvinnuleysisbóta

Þegar litið er til þess að líkt og venja hefur verið hækka atvinnuleysisbætur um sömu prósentutölu og lífeyri almannatrygginga vakna ennfremur upp spurningar um það hvenær sú 19% hækkun sem varð á atvinnuleysisbótum 1. maí 2018 eigi að rata til lífeyrisþega. Fram til 1. maí sl. voru atvinnuleysisbætur u.þ.b. 10.000 kr. lægri en lífeyrir almanntrygginga eða 227.417. Þann 1. maí hækkuðu lágmarks atvinnuleysisbætur hins vegar í 270.000 kr. án þess að lífeyrir almannatrygginga hækkaði. Þykir það skjóta skökku við að lágmarksatvinnuleysisbætur, sem hugsaðar eru sem skammtímaúrræði, séu umtalsvert hærri en lífeyrir almannatrygginga sem hugsaður er sem langtímaúrræði fyrir einstaklinga sem margir hverjir eiga ekki nokkurn kost á bæta hag sinn.

Ítarlega er fjallað um málið í umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til fjárlaga næsta árs. Hér má einnig finna ítarlega umfjöllun um krónu á móti krónu skerðinguna.