Öryrkjabandalag Íslands gerir margháttaðar tillögur um breytingar á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017, sem nú er til meðferðar á Alþingi, í umsögn um málið sem hefur verið send til nefndarsviðs Alþingis. Við gerð umsagnar um frumvarpið var unnið út frá Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), sem fullgiltur var í september síðastliðnum.
ÖBÍ leggur til að fjármagni verið sérstaklega veitt til að innleiða SRFF í íslensk lög þannig að hann verði lögfestur. Þá verði fjármagn tryggt til að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Útgjöld til heilbrigðismála verði stóraukin og unnið að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls. Einnig eru lagðar til breytingar á fjárlögum í tengslum við almannatryggingar, framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks og skatta- og menntamálum.
Helstu tillögur ÖBÍ um breytingar á fjárlagafrumvarpi:
- 11% af vergri landsframleiðslu verði varið í félagslegt heilbrigðiskerfi. Þá verði heilbrigðisþjónusta á Íslandi gerð gjaldfrjáls í áföngum. Þá verði sú heilbrigðisþjónusta, sem lög um greiðsluþátttöku taka til, gjaldfrjáls.
- Öldruðum og örorkulífeyrisþegum verði tryggð full endurgreiðsla á tannlækningum og fjármagn tryggt til að fella tannlækningar undir greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu.
- Virðisaukaskattur af lyfjum verði afnuminn.
- Virðisaukaskattur af hjálpartækjum fyrir fatlað fólk og aldraða verði afnuminn.
- Sjúkratryggingum Íslands verði tryggt fjármagn svo fólk geti látið gera við hjálpartæki hvenær sem er sólarhringsins og um allt land.
- Bótaflokkar almannatrygginga hækki um 32,2% þannig að óskertur lífeyrir almannatrygginga verði sama upphæð og lágmarkslaun á árinu 2017, eða kr. 280.000 á mánuði. Sérstök framfærsluuppbót, sem skerðist krónu á móti krónu við skattskyldar tekjur, hækki minna eða um 7,5%, til að draga úr vægi hennar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 7,5% hækkun en til samanburðar má nefna að hækkun þingfararkaups á árinu 2016 er rúmlega 70% hærri upphæð en óskertur lífeyrir almannatrygginga eftir fyrirhugaða hækkun hans.
- Sérstök framfærsluuppbót verði felld inn í tekjutryggingu í tveimur áföngum.
- Verði það áfram stefna stjórnvalda að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats er lagt til að farin verði sú leið sem útlistuð er í skýrslu ÖBÍ Virkt samfélag: Tillögur ÖBÍ að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess.
- Alþingi samþykki án tafar lagalegan rétt til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Bætt verði við 300 milljónum í fjárlög til þess að hægt sé að tryggja það.
- Auknum fjármunum verði varið til menntunar fatlaðra barna og ungmenna og einnig barna og ungmenna með sérþarfir til að þau fái sömu tækifæri til menntunar og aðrir.
- Unnið verði með markvissum hætti að innleiðingu og lögfestingu SRFF – ráðnir verði 3 sérfræðingar til innanríkisráðuneytisins til að vinna greiningu á dómum, álitum, skýrslum og framkvæmd annarra ríkja í tengslum við samninginn.
- Fjármagn verði lagt til fullgildingar á valfrjálsri bókun við SRFF – ekki kom fram í fjárlögum hvaða fjárútlát fylgi nauðsynlegri vinnu til fullgildingar bókunarinnar.
- Sérstök greining fari fram á aðgengismálum á öllum stofnunum ríkisvaldsins sem byggt verði á mati á hvort grípa þurfi til sérstakra ráðstafana í ljósi fullgildingar SRFF. Fé verði veitt til að tryggja aðgengi fyrir fatlað fólk að Bessastöðum og Stjórnarráðinu. Þá verði útgáfa efnis dómstóla endurskoðuð með hliðsjón af fullgildingu SRFF.
- Gerð verði raunhæf kostnaðaráætlun samfara samþykktri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þannig að verkefni hennar séu fjármögnuð með skynsamlegum hætti.
Í umsögn sinni um frumvarp um forsendur fjárlaga sem einnig hefur verið sent nefndarsviði Alþingis gerir Öryrkjabandalagið ýmsar athugasemdir, meða annars um fyrirkomulag barnabóta, vaxtabóta og frítekjumarks vegna atvinnutekna.
ÖBÍ leggur meðal annars til að:
- Fjárhæðir barnabóta hækki um 4,7%, sem er í samræmi við forsendur frumvarpsins um hækkanir krónutölugjalda og skatta. Þá hækki viðmiðunarfjárhæð fyrir einstæða foreldra í kr. 3.360.000. Sambærileg hækkun verði fyrir hjón/sambýlisfólk.
- Reiknað verði út hversu mikið fasteignamat hefur hækkað frá árinu 2010 og eignamörk vaxtabóta verði uppfærð í samræmi við þá hækkun, en þau hafa verið óbreytt frá árinu 2010.
- Uppbætur og styrkir til hreyfihamlaðs fólks hækki í fjárlögum 2017 um 50% til að vega upp á móti verðlagsbreytingum fyrri ára.
- Frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyris verði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá 2009.
- Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyrisþega með hliðsjón af tekjum frá Tryggingastofnun ríkisins.
ÖBÍ gagnrýnir að of stuttur frestur hafi verið gefinn til umsagnar um fjárlagafrumvarpið. Frumvarpið sé viðamikið og því nauðsynlegt að veita lengri tíma til að skoða það og veita umsögn. Meðfylgjandi umsögn sé því fyrstu viðbrögð bandalagsins við fjárlagafrumvarpinu.
Vonast er til að tekið verði tilliti til tillagna ÖBÍ við gerð fjárlaga og/eða fjáraukalaga. Þá eru þingmenn hvattir til að horfa á þau mál sem eru til umfjöllunar á Alþingi, er varða fjárlög sem og önnur lög, með fötlunargleraugum. Vakin er athygli á því að samfélagið allt, gerð þess, hin ýmsu opinberu kerfi sem og einkageirinn eiga við um fatlað fólk en ekki einvörðungu velferðar- og félagskerfi. Því er mikilvægt að heildarsamtök fatlaðs fólks eigi aðkomu að nefndum og ráðum á vegum allra ráðuneyta. Þannig verður að horfa til jafnréttis fatlaðs fólks við skipanir í slíkar nefndir ásamt kynjahlutföllum sem er almennt orðið að venju.