Skip to main content
Frétt

Ögurstund ríkisstjórnarinnar

By 4. apríl 2018No Comments

Ríkisstjórnarflokkarnir þrír vilja allir afnema krónu-á-móti-krónu skerðinga og tryggja mannsæmandi framfærslu örorkulífeyrisþega. Í dag skýrist hvort athafnir fylgja orðum, þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður kynnt. Því var lofað að þar komi fram „skýr langtímasýn ríkisstjórnarinnar“ í öllum málaflokkum.

Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn héldu landsfund og flokksþing í síðasta mánuði. Þar kemur fram stefna flokkanna í þeim ályktunum sem samþykktar voru. Það vekur athygli hversu afdráttarlausar og skýrar ályktanir beggja flokka eru í málefnum öryrkja.

Þannig segir í ályktun velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins að endurskoða þurfi bætur almannatrygginga í heild „út frá þeirri grunnforsendu að öllum séu tryggðar lágmarkstekjur til lífsviðurværis“. Þá er skýrt kveðið á um að frítekjumörk vegna tekna verði að hækka. Þá segir:

Króna á móti krónu skerðing viðgengs[t] enn þá hjá þeim sem eru á örorkulífeyri. Þá skerðingu ber að afnema.“

Framsóknarmenn eru jafn afdráttarlausir í samþykkt síðasta flokksþings:

„Tryggja þarf áfram að örorkulífeyrir fylgi lágmarkslaunum. Einfalda þarf lífeyriskerfi öryrkja, afnema skerðingar og hvetja til starfsendurhæfingar.“

Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, voru sömuleiðis fullkomlega skýr um skerðingarnar í áherslum sínum fyrir síðustu Alþingiskosningar:

„Umtalsverð hækkun lægstu launa á að vera forgangsverkefni í kjarasamningagerð næstu ára og hækkun bóta elli- og örorkulífeyris á að fylgja slíkum hækkunum. … Horfið verði frá krónu á móti krónu skerðingu á sérstakri framfærsluuppbót öryrkja og tekið upp sanngjarnt frítekjumark.“

Það er sannkallað gleðiefni að allir ríkisstjórnarflokkarnir þrír skuli með jafn skýrum hætti taka undir það markmið Öryrkjabandalags Íslands að þessum óréttlátu skerðingum verði komið fyrir kattarnef auk þess sem stefna allra flokka er að bæta kjör örorkulífeyrisþega til muna. Jafnframt er ljóst að á Alþingi er víðtækur stuðningur við þau réttlætismál sem ÖBÍ hefur sett á oddinn. Velferðarnefnd þingsins frumvarp um afnám krónu-á-móti-krónu skerðingar til umfjöllunar.

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar um samþykkt fjárlagafrumvarps þessa árs var skýrt kveðið á um að stefna stjórnarinnar myndi koma betur fram í fjármálaáætlun til næstu fimm ára. „Skýr langtímasýn í öllum málaflokkum ríkisstjórnarinnar mun síðan birtast í fjármálaáætlun sem lögð verður fram í vor.“ Sú áætlun liggur nú fyrir og verður kynnt síðdegis.

Nú bíðum við spennt eftir því að sjá hvort athafnir fylgi orðum stjórnarflokkanna þriggja, bæði þau sem koma fram í þeirra eigin samþykktum sem og í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar.