Skip to main content
AðgengiFréttUngÖBÍ

Opnað fyrir tilnefningar

Opnað hefur fyrir tilnefningar til Fjólubláss ljóss við barinn, aðgengisviðurkenningar UngÖBÍ. Tilnefningarfresturinn rennur út þann 9. júní og hvetja ÖBÍ réttindasamtök öll til þess að senda inn.

Fjólubláa ljósið er veitt þeim sem hafa stuðlað að bættu aðgengi fatlaðs fólks að skemmtanalífi á Íslandi. Markmiðið með viðurkenningunni er að hvetja fólk og fyrirtæki á Íslandi til að hafa aðgengismál í forgangi og stuðla að samfélagi fyrir alla.

Senda má inn tilnefningar á hlekknum hér að neðan:

Fjólublátt ljós við barinn

Viðurkenningin var fyrst veitt í fyrra og varð Bíó Paradís fyrir valinu. Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, sagðist við afhendinguna ákaflega ánægð með viðurkenninguna. „Ég er komin með harðsperrur í munnvikin því við erum svo glöð yfir þessu.“

Í ávarpi sagði Hrönn frá því að það geti verið fjarskalega erfitt að breyta húsum, kaupa lyftur og gera þau aðgengileg fyrir sem allra flesta. Starfslið Bíó Paradísar hafi fengið aðgengi á heilann og haft sig fram við að gera bíóhúsið sem aðgengilegast fyrir alla hópa. Unnið hafi verið að því að gera sýningar aðgengilega fyrir t.d. einhverft fólk og fólk með ADHD, settir hafi verið upp tónmöskvar og gerðar sjónlýsingar á myndum.