Skip to main content
Frétt

Raddirnar verða að heyrast

By 16. febrúar 2019mars 6th, 2024No Comments

Ungmennaþing ÖBÍ, Hvað finnst þér? verður haldið 9. mars. Fjallað var um málið í Fréttablaðinu og fer sú umfjöllun hér á eftir.

 

„Það eru skólamálin sem brenna á mér og þar er tvennt sem ég vil sjá ná fram að ganga. Annars vegar stóraukin fræðsla um hinar ýmsu fatlanir og fjölbreytileika nemenda í skólakerfinu, og svo aukið eftirlit með framkvæmd eineltisáætlunar í skólum landsins,“ segir Eiður Axelsson Welding, nemandi í 9. bekk í Sæmundarskóla.

Eiður fæddist með CP (cerebral palsy).

„CP er algengasta orsök hreyfihömlunar hjá börnum og ungmennum en samt veit fólk nánast ekkert um hana,“ segir Eiður sem fékk strax í upphafi skólagöngu sinnar að kenna á því vegna þess að hann haltrar af völdum CP.

„Daglegt einelti er veruleiki fatlaðra barna á öllu grunnskólastiginu og sjálfur lenti ég í hryllilegu einelti vegna fötlunar minnar og mikils stjórnmálaáhuga. Í skólanum var þeirri sögu komið á kreik að CP væri smitandi og eitthvað hræðilegt gerðist hjá þeim sem vinguðust við mig. Því vildi enginn verða vinur minn fyrstu skólaárin en sem betur fer blésu aðrir krakkar á þessa skröksögu og ég hef síðan eignast góða og dýrmæta vini sem reynst hafa mér vel,“ segir Eiður.

Í tilviki hans var ekkert að gert í skólanum gagnvart eineltinu.

„Það var enginn sem stappaði niður fótum við þessari skemmandi sögu né öðru einelti fyrr en svo miklu seinna og þá var það orðið of seint. Það var aldrei neitt útskýrt fyrir nemendum en fræðsla hefði breytt öllu ,“ segir Eiður sem á sæti í ungliðahreyfingu ÖBÍ og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

„Það er brýnt að auka eftirlit með framkvæmd eineltisáætlana í grunnskólum. Það má heldur ekki mismuna nemendum. Þegar ófötluð börn lenda í einelti er öllu tjaldað til en þegar minnihlutahópur fatlaðra barna á í hlut er minna gert. Því miður erum við ekki komin lengra en þetta og því er einlægur ásetningur minn að breyta þessu til hins betra áður en það verður um seinan og ég lýk grunnskólagöngunni á næsta ári,“ segir Eiður og vonar hið besta.

„Það er mikilvægt að raddir okkar fái að heyrast og ráðamenn meðtaki það sem við höfum fram að færa. Ég mun gera mitt allra besta til að koma í veg fyrir að aðrir í minni stöðu lendi í því sama og ég og nota reynslu mína til að breyta þessu. Sjálfur er ég alltaf að reyna að díla við sársaukann sem fylgdi eineltinu en næ mér aldrei að fullu.“

Mikilvægt að sem flestir taki þátt

Elín Hinriksdóttir er formaður málefnahóps ÖBÍ um málefni barna. Hún segir alltof lítið hlustað á börnin sjálf.

„Ungmennaþingið er virkilega þarft og löngu tímabært,“ segir Elín um þingið sem er opið ungu fólki með fatlanir, raskanir og langvinna sjúkdóma en líka systkin þeirra og ungmenni sem eiga fatlaða eða langveika foreldra.

„Það er mikilvægt að heyra raddir barna og ungmenna, hvað þeim finnst sjálfum og hvaða breytingar þau vilja sjá. Þau eru uppfull af hugmyndum og í kjölfar Ungmennaþingsins er stefnt að stofnun ungmennaráðs innan ÖBÍ,“ upplýsir Elín.

Ekki er ætlast til að fólk komi sjálft í pontu og tjái sig heldur verður borðstjóri við hvert borð og í loks dags verða niðurstöður kynntar.

„Með Ungmennaþinginu sköpum við vettvang þar sem börn og ungmenni geta rætt sín mál án aðkomu foreldra því það er alltaf hætta á ákveðinni forræðishyggju af hálfu foreldra og fagfólks. Því þykir okkur mikilvægt að hafa þingið foreldralaust,“ segir Elín.

„Í kjölfar þingsins mun málefnahópurinn vinna úr niðurstöðum og kynna þær meðal annars fyrir fulltrúum félagsmálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins sem sýnt hafa þinginu mikinn áhuga,“ upplýsir Elín.

„Þetta verður léttur og skemmtilegur viðburður með góðum mat og frábærum skemmtiatriðum. Við hvetjum sem flesta til að koma og segja skoðanir sínar því ef maður vill ná fram breytingum verður maður að taka þátt,“ segir Elín.

Aðgangur að Ungmennaþingi ÖBÍ er ókeypis. Táknmálstúlkur verður á staðnum og komið er til móts við ferðakostnað ungmenna af landsbyggðinni.

Skráning er hér á vef ÖBÍ, eða hjá thordis@obi.is. Upplýsingar veitir Þórdís Viborg, starfsmaður ÖBÍ um málefni barna, í síma 530 6700.