Skip to main content
Frétt

Ráðherra hundsar réttmætar kröfur

By 17. október 2018No Comments

Þótt meira en mánuður sé liðinn frá því að stjórn ÖBÍ skoraði á ráðherra félags- og jafnréttismála að leiðrétta krónu-á-móti-krónu skerðinguna, hefur það mál ekkert verið skoðað í ráðuneytinu. Þetta upplýsti Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, í umræðum um málefni öryrkja á Alþingi fyrir helgi. Hann segir að stefnt sé að afnámi krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar, en ekki verður annað lesið úr orðum hans en að það hangi saman við endurskoðun almannatryggingakerfisins í heild og upptöku svonefnds starfsgetumats, enda þótt um algjörlega óskyld mál sé að ræða.

Lögbundin fátæktargildra

Sérstök umræða var um málefni öryrkja á Alþingi fyrir helgi. Málshefjandi var Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. Hann fór yfir stöðuna og benti meðal annars á þá staðreynd að öryrkjar hafa verið sviknir um 24 milljarða króna á undanförnum misserum með hinni óréttlátu krónu-á-móti-krónu skerðingu. 

ÖBÍ 1. maí 2018Öryrkjabandalag Íslands hefur árum saman háð harða baráttu fyrir afnámi þessara skerðinga. Fjárlög eftir fjárlög hefur verið verið þrýst á stjórnvöld að afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna, sem ekki aðeins heldur fólki í fátæktargildru, heldur hefur slæm áhrif á allt líf fólks sem býr yfir getu til og vill sækja út á vinnumarkaðinn, þrátt fyrir skerta starfsorku. Það var svo 11. september síðast liðinn að stjórn Öryrkjabandalags Íslands samþykkti að ganga til aðgerða  til að fá  „krónu á móti krónu“ skerðinguna afnumda og ná aftur fjármunum sem teknir hafa verið af fólki vegna hennar. 

Í samþykkt stjórnar ÖBÍ felst að lögmanni bandalagsins er falið að hefja innheimtuaðgerðir gegn Tryggingastofnun ríkisins/íslenska ríkinu, vegna bótaflokksins sérstök framfærsluuppbót. Í þessu felst að lögmanni ÖBÍ er heimilt að beita þeim innheimtuaðgerðum  sem nauðsynlegar eru til árangurs, þ.m.t. að höfða mál fyrir dómstólum ef þörf krefur.

Boðið að leggja grunn að trausti

Stjórn Öryrkjabandalagsins skoraði um leið á Alþingi að bregðast strax við og setja sérstaka framfærsluuppbót inn í bótaflokkinn tekjutryggingu og leiðrétta þá mismunun sem örorkulífeyrisþegar hafa orðið fyrir frá 1. janúar 2017.

Guðmundur Ingi Kristinsson„Það yrði mikilvægt skref stjórnvalda til að sýna almenningi í landinu að þau vilji vinna að því að útrýma fátækt í samfélaginu. Slík viðleitni yrði jákvæð fyrir lífskjarabaráttu fjölda fólks og til þess fallið að leggja grunn að trausti,“ sagði í áskorun stjórnar ÖBÍ.

Guðmundur Ingi spurði Ásmund Daða Einarsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, í umræðunni í þinginu, hvort hann myndi sjá til þess að krónu-á-móti-krónu skerðingin yrði afnumin um næstu áramót. Einnig hvort ráðherrann myndi sjá til þess að öryrkjar fái afturvirkar leiðréttingar á krónu á móti krónu skerðingu frá 1. janúar 2017. Svo spurði hann hvort ráðherrann teldi krónu-á-móti-krónu skerðingin væri brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar sem bannar mismunun?

Áhugaleysi stjórnvalda

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, kom í pontu á eftir Guðmundi. Hann fullyrti að til stæði að afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna. En um leið tengir hann þá löngu tímabæru aðgerð við almennar breytingar á almannatryggingakerfinu og þann vilja stjórnvalda að taka upp svonefnt starfsgetumat.

Í þessu samhengi má benda á að stjórn ÖBÍ leggst gegn hugmyndum um starfsgetumat og vísar meðal annars til reynslu annarra þjóða af slíkri framkvæmd. Þá hefur Öryrkjabandalagið ítrekað bent á að afnám krónu-á-móti-krónu skerðingar er sjálfstætt réttlætismál sem þolir enga bið, og er með öllu ótengt hugmyndum um nýtt almannatryggingakerfi eða upptöku starfsgetumats.

En Ásmundur Einar var hins vegar skýr þegar að kom að því að svara annarri spurningu Guðmundar Inga:

„Önnur spurning hv. þingmanns var hvort öryrkjar fengju afturvirka leiðréttingu á krónu á móti krónu skerðingu frá 1. janúar 2017. Við þessu vil ég segja að það hefur ekki verið til skoðunar innan ráðuneytisins að framkvæma slíka afturvirka leiðréttingu.“

Því má svo bæta við að þriðju spurningu Guðmundar Inga lét ráðherra ósvarað, jafnt í fyrri sem seinni ræðu sinni í umræðunni á Alþingi.