Skip to main content
FréttSRFF

Ráðherra styður lögfestingu SRFF

By 30. október 2018ágúst 31st, 2022No Comments

Heilbrigðisráðherra segist styðja frumvarp þingmanns Samfylkingarinnar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). „Ég tel að frumkvæði háttvirts þingmanns sé gott og mikilvægt og mun leggja lóð mitt á þær vogarskálar að Alþingi klári málið í þessari lotu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og þingkona stjórnarflokksins VG í svari við fyrirspurn á Alþingi.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á Alþingi nýlega. Meðflutningsmenn hans með frumvarpinu koma úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi, jafnt úr stjórn sem stjórnarandstöðu, nema Framsóknarflokknum. Það var Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar sem spurði heilbrigðisráðherra um stuðning við frumvarpið í fyrirspurnartíma á Alþingi.

Standi jafnfætis öðrum

Íslensk stjórnvöld fullgiltu samninginn árið 2007. Hann hefur hins vegar ekki verið lögfestur. Með samningnum er kveðið á um réttindi fatlaðs fólks þannig að það megi standa jafnfætis öðrum í samfélaginu. Þetta skiptir miklu máli fyrir allt fólk með fötlun eða skerðingar af einhverju tagi. Þannig verði til dæmis komið í veg fyrir mismunun á grundvelli fötlunar. 

Við sáum slíkt mál í verki á dögunum og hversu miklu máli skiptir að samningurinn verði leiddur í lög hérlendis, þegar Hæstiréttur féllst á markvissa mismunum gagnvart fötluðu fólki. En um leið mátti finna í dómi réttarins skýrt ákall um að samningur Sameinuðu þjóðanna yrði lögfestur hér á landi.

Grundvallarplagg

Markmið samningsins eru að „efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess“. 

Mikilvægustu skilaboð samningsins eru að fatlaðir einstaklingar eigi fullan rétt á öllum viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og að þeir eigi að fá að njóta sjálfstæðs lífs og einstaklingsfrelsis til jafns við aðra. Til að svo megi verða er í samningnum lögð sérstök áhersla á tækifæri fatlaðs fólks til fullrar þátttöku á öllum sviðum mannlífs og samfélags og spjótum beint að venjum og siðum, staðlaðri ímynd, fordómum, skaðlegri framkvæmd, einangrun og útilokun sem tengist fötluðu fólki. 

Samningurinn er mjög öflugt tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum fatlaðs fólks. Mikilvægasta verkefnið er þó enn og verður áfram að tryggja öllu fötluðu fólki í verki öll þau réttindi sem mælt er fyrir um í samningnum. 

Skýr vilji kjörinna fulltrúa

Tillagan til þingsályktunar hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Frumvarp, sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2019. 

Sem fyrr segir eru flutningsmenn frumvarpsins úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi, nema Framsóknarflokknum. Um þetta urðu miklar umræður í þinginu. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkona VG, sagði samninginn einn mikilvægasta mannréttindasamning síðari ára.

Þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, beindi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi skömmu síðar, þá sagði ráðherra þetta:

„Varðandi lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks finnst mér mikilvægt í pólitík almennt að við séum þannig innstillt að einu gildi hvaðan góðar hugmyndir koma. Þar að auki er sérstaklega um það fjallað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að tryggja bæði lögfestingu og framkvæmd samningsins. Ég tel að frumkvæði hv. þingmanns sé gott og mikilvægt og mun leggja lóð mitt á þær vogarskálar að Alþingi klári málið í þessari lotu. Ég á ekki sæti í velferðarnefnd en er með opin tengsl þangað inn,“ sagði Svandís Svavarsdóttir.

Traust og virðing fyrir mannréttindum

Ágúst Ólafur sagði í niðurlagi síðari ræðu sinnar í umræðu um þingsályktunartillöguna að mikilvægt yrði að málið fengi forgang og yrði skoðað vel, en yrði ekki sett í einhverja „flýtimeðferð“. Hann vísaði í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um málið, en þar segir:

„Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.“