Skip to main content
FréttSRFF

Reglur að mörgu leyti í ósamræmi við SRFF

By 6. október 2017ágúst 31st, 2022No Comments
Reglur um hjálpartæki á Íslandi eru að mörgu leyti í ósamræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) að mati hæstaréttarlögmanns sem hefur farið yfir lög og reglur um málaflokkinn hér á landi. Niðurstöður hans voru kynntar á málþingi um hjálpartæki daglegs lífs sem málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál bauð til 27. september 2017.

Málþingið var haldið á Hilton Reykjavík Nordica og var vel sótt. Þar kynnti Daníel Ísebarn Ágústsson hæstaréttarlögmaður niðurstöður sínar eftir að hann hafði kannað lagareglur um hjálpartæki í íslenskri löggjöf með hliðsjón af SRFF. Í erindi hans og meðfylgjandi glærum kemur m.a. fram að samkvæmt gildandi reglum um réttindi til hjálpartækja sé hann takmarkaður af atriðum á borð við þrönga skilgreiningu á orðalagi, ónógu einstaklingsbundnu mati og mikilli áherslu á „nauðsyn“. Þá séu fjárveitingar til málaflokksins takmarkaðar.

Á málþinginu gerði Emil Thóroddsen, formaður málefnahópsins, að umtalsefni skilgreininguna á nauðsyn þegar kemur að hjálpartækjum. Hjörtur Heiðar Jónsson, formaður Heyrnarhjálpar, ræddi margþættan vanda heyrnarskerts fólks, Björk Pálsdóttir, sviðsstjóri Sjúkratrygginga Íslands, ræddi stöðu og stefnu í hjálpartækjamálum hjá SÍ, og Guðrún Sonja Kristinsdóttir iðjuþjálfi ræddi aðstöðumun eftir búsetu og sjúkdómum.

Þá gerði Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir grein fyrir reynslu notenda hjálpartækja og Elfa Dögg S. Leifsdóttir, móðir notanda hjálpartækja, ræddi upplifun hennar af þjónustu vegna hjálpartækja fyrir ungan mann á Íslandi og í Danmörku. Í lok málþingsins tók Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar Alþingi, saman umræður á málþinginu.

Hér má nálgast upptöku af fyrri hluta málþingsins.

Hér má nálgast upptöku af seinni hluta málþingsins.