Skip to main content
Frétt

Reykjavíkurborg útilokar fatlað fólk

By 21. janúar 2019No Comments
Tekjuviðmið eru svo þröng í drögum að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði, að borgin er í reynd að útiloka fatlað fólk, öryrkja og sjúklinga. Þetta gagnrýnir Öryrkjabandalag Íslands harðlega.
 
Fjallað var ítarlega um málið í fréttum RÚV.

Allt of þröng skilyrði

Öryrkjabandalag Íslands gagnrýnir harðlega drög að reglum um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík. Formaður bandalagsins segir skilyrðin það þröng að fólk sem fær bara örorkubætur eigi ekki möguleika á að uppfylla þau. 
Öryrkjabandalagið hefur sent velferðarsviði Reykjavíkurborgar umsögn um drög að reglum um félagslegt húsnæði, þar sem fjallað er um tekjuviðmið og önnur skilyrði. Í bréfi bandalagsins segir meðal annars að ekki verði betur séð en að verulegar breytingar séu gerðar frá gildandi reglum.

Óljós undanþága

Í bréfinu er kvartað undan skorti á upplýsingum og kallað eftir skýringum. ÖBÍ bendir á að samkvæmt reglugerð frá árinu 2016 eigi tekjumörk að vera liðleg 5,1 milljón á ári, sem sé það sem Brynja, hússjóður ÖBÍ noti, en borgin miðaði við reglugerð frá 2013 þar sem viðmiðið er liðlega 4,7 milljónir. Borgin hafi síðan verið með undanþágu frá þeirri reglugerð sem setji mörkin við 77,5% af þeirri fjárhæð, sem eru þá hámarks árstekjur upp á tæpar 3,7 milljónir króna. 

Viðkvæmum hópi úthýst

„Það er orðið eiginlega lífsins ómögulegt fyrir fatlað fólk eða manneskju með 75% örorkumat að komast þarna inn á biðlista til dæmis,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Hún segir þetta eiga við um fólk á strípuðum tekjum frá Tryggingastofnun og segir að þær séu 50-60% lægri en viðmið stjórnvalda um framfærslu. Hún segir að með þessu sé borgin að úthýsa þessum hópi.
„Nákvæmlega það, þetta þýðir það og þetta er mjög alvarlegt og ég veit eiginlega ekki alveg hvar þessum hópi, hvar hann á að geta haft húsaskjól ef það er ekki hjá félagslega kerfinu og þarna er þá Reykjavíkurborg að útiloka fatlað fólk og öryrkja og sjúklinga til dæmis, þetta er það fólk sem sækir helst um félagslegt húsnæði.“

Lögbrot?

Reykjavíkurborg hefur haft undanþágu frá Reglugerð um tekjuviðmið við úthlutun húsnæðis. Ekki hafa fengist skýringar á því hvers vegna borgin telur sig þurfa þessa undanþágu, né hvaða rök eru fyrir henni.

Þuríður Harpa segir það breyta miklu ef borgin styddist við sömu viðmið og Brynja, hússjóður ÖBÍ. Hún býst við að fundað verði með Reykjavíkurborg, því verið sé að brjóta lög að hennar mati. 

Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs sagði í fréttum RÚV að verið væri að einfalda reglur um félagslegt húsnæði þannig að sömu reglur giltu fyrir alla hópa. Hún taldi líklegt að tekjuviðmiðið myndi hækka, en hvert það yrði lægi ekki fyrir. Hún var ekki spurð um hvers vegna Reykjavíkurborg hefur undanþágu frá reglum um tekjuviðmið, né hafði hún frumkvæði að því að ræða það mál.