Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er 10 ára í dag. Samningurinn var samþykktur 13. desember 2006 með ályktun allsherjarþings SÞ. Hann var lagður fram til undirritunar í New York 30. mars 2007 og undirritaður fyrir Íslands hönd sama dag. Samningurinn tók gildi 3. maí 2008 þegar 20 ríki höfðu fullgilt hann.
Nú hafa um 160 ríki fullgilt SRFF, þar á meðal Ísland. Það var gert þegar Alþingi samþykkti þingsályktun þess efnis 20. september síðastliðinn. Þá var einnig samþykkt að fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn. Enn er þó eftir að lögfesta SRFF á Íslandi.
Tímamótanna er minnst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Nefnd SÞ sem hefur eftirlit með framkvæmd samningsins segir að þó margt hafi áunnist sé enn margvíslegar áskoranir uppi sem þurfi að yfirstíga til að tryggja að allt fatlað fólk njóti réttinda sinna.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er mannréttindasamningur. Markmiðið með honum er að efla, verja og tryggja full mannréttindi fyrir allt fatlað fólk. Jafnframt að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.
Með fullgildingu samningsins í september er íslenska ríkið orðinn aðili að SRFF á alþjóðavettvangi og hefur lýst sig bundið af þeim skuldbindingum sem felast í honum. Skuldbindingar samningsins eru m.a. að tryggja jafnræði og bann við mismunun, sjálfstætt líf, aðgengi, sjálfsákvörðunarrétt, tjáningar- og skoðunarfrelsi, heilsu, atvinnu, menntun og viðunandi lífsafkomu alls fatlaðs fólks, svo eitthvað sé nefnt. Fullgilding felur í sér skýra skyldu ríkisins til þess að innleiða samninginn í öll lög og stefnumótun. Þar er margt eftir óunnið.
Þegar SRFF var fullgiltur í haust sagði Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, að það væri eitt stærsta skref í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks á Íslandi og því bæri að fagna. „Ég fagna sérstaklega því að valfrjálsa bókunin var tekin með og hvet nú stjórnvöld til að vinna hratt og markvisst að lögfestingu samningsins,“ sagði Ellen.
Frekari upplýsingar um samninginn og áhrif hans má finna hér.