Skip to main content
Frétt

„Vaxandi samstaða“

By 18. október 2018No Comments

 „Ég fagna því gríðarlega að vaxandi samstaða sé að myndast milli stéttarfélaga og Öryrkjabandalagsins,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags. Stjórn Eflingar samþykkti í dag einróma ályktun þar sem tekið er undir gagnrýni ÖBÍ á starfsgetumat. Stjórn Eflingar tekur undir ályktun stjórnar Öryrkjabandalags Íslands um starfsgetumat, sem samþykkt var á dögunum. 

Fréttatilkynning Eflingar fer hér á eftir:

Stjórn Eflingar – stéttarfélags samþykkti einróma á stjórnarfundi sínum í dag ályktun þar sem tekið er undir gagnrýni Öryrkjabandalags Íslands á starfsgetumat og stuðningi lýst við ályktun stjórnarfundar ÖBÍ frá 10. október síðastliðinum. Ályktun stjórnar Eflingar er svohljóðandi:

„Stjórn Eflingar-stéttarfélags tekur heils hugar undir gagnrýni Öryrkjabandalags Íslands á starfsgetumat sem sett var fram í ályktun stjórnarfundar bandalagsins 10. október síðastliðinn. Stjórn Eflingar tekur undir með ÖBÍ að stjórnvöldum beri að efla núverandi kerfi örorkumats í stað þess að efna til tilraunastarfsemi með líf og kjör öryrkja undir merkjum svokallaðs starfsgetumats sem gefist hefur afar illa í mörgum nágrannalöndum okkar.“

Að fundi loknum sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: „Ég fagna því gríðarlega að vaxandi samstaða sé að myndast milli stéttarfélaga og Öryrkjabandalagsins. Samstaða gegn niðurlægjandi tilraunaverkefnum á borð við starfsgetumat er hluti af því. Ég hafna því að vinnupíning sé nýtt sem svar við vandamálum fólks og ég tek undir með ÖBÍ að það á frekar að styrkja núverandi örorkumatskerfi. Öryrkjar og vinnandi og fólk eru bræður og systur í baráttunni. Við munum standa saman þangað til allt fólk á Íslandi getur lifað mannsæmandi lífi.“

Meira efni um starfsgetumat, þar á meðal nýlegur fyrirlestur Lars Midtiby, er að finna á vef Öryrkjabandalagsins.

Á laugardaginn standa ÖBÍ og Efling að sameiginlegum fundi um málefni tekjulægstu hópanna undir titlinum „Skattbyrði og skerðingar.“ Skráning í barnapössun er hér og Facebook-viðburður hér.