Skip to main content
HúsnæðismálRéttarkerfiUmsögn

Aðför og nauðungarsala (sala á almennum markaði í stað uppboðs)

By 29. október 2025No Comments
Bygging í Keflavík þar sem sýslumaðurinn á Suðurnesjum hefur aðsetur.

„Dæmi um mál fatlaðs manns í Reykjanesbæ frá 2023 þegar gerðarþoli þurfti að una því að fasteign hans, sem var metin á 57 milljónir kr., seldist á nauðungaruppboði fyrir 3 milljónir kr. „

ÖBÍ réttindasamtök taka undir markmið frumvarpsins um að við nauðungarsölu verði almenn sala á markaði meginregla í tilvikum íbúðarhúsnæðis sem er jafnframt lögheimili gerðarþola. Heimilið er griðarstaður fólks og brýnt að stjórnvöld leiti lausna til að lágmarka beitingu íþyngjandi aðgerða í sínu verklagi.

ÖBÍ áréttar að örorkulífeyristakar voru 45% þeirra sem leituðu greiðsluaðlögunnar hjá umboðsmanni skuldara árið 2023, samkvæmt greinargerð í frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Því er brýnt að huga sérstaklega að stöðu fatlaðs fólks og tryggja að fatlaðir greiðsluþolar fái ráðgjöf og leiðbeiningar til að ganga frá sinni skuldastöðu áður en sýslumenn framkvæma nauðungarsölu. ÖBÍ vil koma eftirfarandi ábendingum og tillögu á framfæri.

Fatlað fólk og nauðungarsölur

Ákvarðun um nauðungarsölu fasteigna er íþyngjandi stjórnvaldsaðgerð sem hefur áhrif á líf fólks, sérstaklega þeirra sem eru að missa heimili sín og sjá fram á húsnæðisóöryggi. Því verða stjórnvöld að kanna aðstæður viðkomanda, tryggja að viðkomandi hafi fullan skilning á aðstæðum og að öll bjargráð hafi verið fullreynd.

Í greinargerð frumvarpsins er nefnt dæmi um mál fatlaðs manns í Reykjanesbæ frá 2023 þegar gerðarþoli þurfti að una því að fasteign hans, sem var metin á 57 millj. kr., seldist á nauðungaruppboði fyrir 3 millj. kr. en einungis eitt boð barst í eignina. ÖBÍ bendir á að í þegar málið kom fyrst fram í fjölmiðlum tjáði umboðsmaður skuldara í viðtali að hægt hefði verið að koma veg fyrir þessa niðurstöðu ef stofnunin hefði vitað að málinu.

Viðkomandi höfðaði mál á hendur sýslumanni og fleiri aðilum með stuðningi frá ÖBÍ. Krafist er skaðabóta úr hendi þeirra aðila sem komu að sölunni. Byggt er m.a. á því að sýslumaður hafi ekki gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar, ákvæðum stjórnarskrár, Mannréttindasáttmála Evrópu og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

ÖBÍ áréttar að fötlun einstaklinga getur falið í sér að viðkomandi geri sér ekki grein fyrir umfangi skuldbindinga sinna og standa því ekki í skilum. Þá eru mörg sem hafa ekki heilsu eða getu til þess að hefja samningaviðræður við kröfuhafa og geta ekki brugðist við innheimtuaðgerðum.

Samskiptaleysi opinberra stofnanna má aldrei skerða aðgengi einstaklinga að lögbundinni þjónustu. Huga þarf sérstaklega að frumkvæðisskyldu stjórnvalda í samskiptum við viðkvæmustu hópa samfélagsins og tryggja að öll úrræði hafi verið reynd til þaula.

ÖBÍ leggur til að löggjafarvaldið skerpi á upplýsingarskyldu sýslumanna á þann veg að sýslumanni beri að afla sér upplýsinga um hvort neytandi hafi óskað eftir aðstoð hjá umboðsmanni skuldara strax þegar skuldamál einstaklings berst sýslumannsembættinu. Sýslumaður skal upplýsa og leiðbeina þeim einstaklingum sem ekki hafa óskað eftir aðstoð Umboðsmanns skuldara um úrræðið.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Aðför og nauðungarsala (sala á almennum markaði í stað uppboðs)
150. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 29. október 2025