
Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands eru veitt ár hvert á alþjóðadegi fatlaðs fólks, 3. desember. Markmiðið með verðlaununum er að efla frumkvæði til nýrra verkefna og hugmyndavinnu og skapa jákvæða ímynd fyrir fatlað fólk. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er verndari verðlaunanna.
Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum:
- Einstaklingur
- Fyrirtæki eða stofnun
- Umfjöllun eða kynning
- Verkefni innan aðildarfélaga ÖBÍ
Hvatningarverðlaunin eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.
Hvatningarverðlaun 2019 í myndum
Hér eru nokkrar stemmingsmyndir frá verðlaunaafhendinguninni 2018. Sjá má fleiri myndir
hér og umfjöllun um verðlaunaafhendinguna
hér
Ljósmyndari: Silja/Ljósmyndir Rutar og Silju
Tilnefningar til Hvatningarverðlauna ÖBÍ
Undirbúningsnefnd fer yfir allar tilnefningar og velur þrjá úr í hverjum flokki og skilar af sér til dómnefndar sem velur verðlaunahafana. Í dómnefnd sitja fimm manns og er leitast við að nefndin endurspegli samfélagið á sem bestan hátt.
Undirbúningsnefnd Hvatningarverðlauna 2019
- Fríða Rún Þórðardóttir, Astma og ofnæmisfélag Íslands, formaður
- Helga Magnúsdóttir, Sjálfsbjörg
- Hrannar Björn Arnarson, ADHD samtökunum
- Karl Þorsteinsson, Ás styrktarfélagi
- Valur Höskuldsson, MND félaginu á Íslandi
- Vignir Ljósálfur Jónsson, HIV-Íslandi
Starfsmaður nefndarinnar: Kristín Margrét Bjarnadóttir, ÖBÍ
Sagan
Á fundi Evrópusamtaka fatlaðs fólks,
European disability forum (skammstafað EDF) veturinn 2007, kom fram að Írar hefðu til fjölda ára veitt hvatningarverðlaun til þeirra sem hefðu sýnt frumkvæði í að bæta stöðu fatlaðra í samfélaginu. Þáverandi formaður ÖBÍ, Sigursteinn R. Másson sat fundinn og færði þessa hugmynd til síns fólks innan ÖBÍ, með það í huga að koma slíkum verðlaunum á hérlendis. Hugmynd formannsins var vel tekið og var ákveðið að stefnt yrði á að verðlaunin yrðu afhent á alþjóðadegi fatlaðra þann 3. desember.
Haustið 2007 tók undirbúningsnefnd Hvatningarverðlauna ÖBÍ til starfa og var ákveðið að hafa þrískipt verðlaun; í flokki einstaklinga, í flokki fyrirtækis og flokki stofnunar og að tilnefningar í hverjum flokki yrðu sex. Kallað var eftir tilnefningum frá aðildarfélögum ÖBÍ, þá 32 að tölu. Árið 2008 var ákveðið að tilnefningarnar yrðu eingöngu þrjár í hverjum flokki sem dómnefnd ynni úr. Þá var verðlaunaflokkunum breytt lítillega árið 2010. Tveir flokkar sameinaði í einn og þriðja flokknum bætt við og þá voru flokkarnir þessir: einstaklings, fyrirtækis/stofnun og umfjöllun/kynning. Árið 2018 bættist við fjórði flokkurinn: verkefni innan aðildarfélaga ÖBÍ.
Um verðlaunagripinn
Þórunn Árnadóttir vöruhönnuður hannaði verðlaunagripinn og hafði hún samfélagið í huga. Fólkið er byggingaeiningar eða púsl verksins sem er gert úr fjölda skífa. Með verkinu vill Þórunn koma á framfæri að: „...við eigum að opna fyrir alla tengimöguleika, ekki vera svo þröngsýn að við gerum ráð fyrir því að allir séu eins og passi í sama farið. Þetta á við um allt aðgengi að þátttöku í samfélaginu, hvort sem við erum að tala um samgöngur, samskipti eða viðskipti ...”