Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands

Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað aðeinu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.

Verðlaunin eiga að efla frumkvæði til nýrra verkefna og hugmyndavinnu í málaflokknum og skapa jákvæða ímynd fyrir fatlað fólk. Þau eiga að vera hvatning til að gera enn betur til innleiðingar á samfélagi sem endurspeglar einkunnarorð ÖBÍ, eitt samfélag fyrir alla. Verðlaunin eru veitt ár hvert á alþjóðadegi fatlaðra 3. desember og voru fyrst veitt árið 2007. Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, er verndari verðlaunanna.

Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum; einstaklings, fyrirtækis eða stofnunar, umfjöllunar eða kynningu og verkefni innan aðildarfélaga ÖBÍ. 

Í dómnefnd sitja fimm manns og er leitast við að hún endurspegli samfélagið á sem bestan hátt. 

Öllum er heimilt að senda inn tilnefningar og er leyfilegt að tilnefna í einn, tvo, þrjá eða alla fjóra flokkana.

Lokadagur tilnefninga er 15. september ár hvert.

Vilt þú senda inn tilnefningu? 

Sagan

Á fundi European disability forum (skammstafað EDF) veturinn 2007, kom fram að Írar hefðu til fjölda ára veitt hvatningarverðlaun til þeirra sem hefðu sýnt frumkvæði í að bæta stöðu fatlaðra í samfélaginu. Formaður ÖBÍ sat fundinn og færði þessa hugmynd til síns fólks innan ÖBÍ, með það í huga að koma slíkum verðlaunum á hérlendis. Hugmynd formannsins var vel tekið og var ákveðið að stefnt yrði á að verðlaunin yrðu afhent á alþjóðadegi fatlaðra þann 3. desember.

Haustið 2007 tók undirbúningsnefnd Hvatningarverðlauna ÖBÍ til starfa og var ákveðið að hafa þrískipt verðlaun; í flokki einstaklinga, í flokki fyrirtækis og flokki stofnunar og að tilnefningar í hverjum flokki yrðu sex. Kallað var eftir tilnefningum frá aðildarfélögum ÖBÍ, þá 32 að tölu. Árið 2008 var ákveðið að tilnefningarnar yrðu eingöngu þrjár í hverjum flokki sem dómnefnd ynni úr.  Þá var verðlaunaflokkunum breytt lítillega árið 2010. Tveir  flokkar sameinaði í einn og þriðja flokknum bætt við og eru flokkarnir nú þessir: einstaklings, fyrirtækis/stofnun og umfjöllun/kynning. 

Ákveðið var að þekktir einstaklingar yrðu valdir í dómnefnd og hana skipuðu 5 manns, á mismunandi aldri, af báðum kynjum og lögð var áhersla á að dómefndin endurspeglaði samfélagið. Í fyrstu dómnefnd voru skipuð Ólöf Ríkarðsdóttir fyrrverandi formaður ÖBÍ, Kristín Rós Hákonardóttir afrekskona í sundi, Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ, Styrmir Gunnarsson ritstjóri og Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs HR.

Um verðlaunagripinn

Þórunn Árnadóttir vöruhönnuður hannaði verðlaunagripinn og hafði hún samfélagið í huga. Fólkið er byggingaeiningar eða púsl verksins sem er gert úr fjölda skífa úr marglitu plexígleri, nema ein sem er stálskífa. Skífurnar úr plexíglerinu eru allar jafn þykkar að undanskilinni einni sem er öðruvísi, sem gerir henni erfitt að falla inn í púslið. Stálskífan er eina skífan sem hefur tengingu við þá skífu en einnig hinar skífurnar. Hún er áletruð nafni verðlaunahafans og er tákn hans sem buðrarpúsls, tenging á milli þeirra sem á einhvern hátt eru öðruvísi og hinna sem eru eins.

Með verkinu vill Þórunn koma á framfæri að: „...við eigum að opna fyrir alla tengimöguleika, ekki vera svo þröngsýn að við gerum ráð fyrir því að allir séu eins og passi í sama farið. Þetta á við um allt aðgengi að þátttöku í samfélaginu, hvort sem við erum að tala um samgöngur, samskipti eða viðskipti ...”