Að hverju ertu að leita? Veldu þér flokk hér fyrir ofan.

Hér fyrir neðan birtast allar spurningar en svo er hægt að velja filter að ofan og skoða spurningar þess flokks.

Almennt

Almennar spurningar

Húsnæðismál

 • Útvegar ÖBÍ húsnæði?

  BRYNJA hússjóður Öryrkjabandalagsins, er með síma 570 7800

  Hússjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem á og rekur félagslegt leiguhúsnæði fyrir öryrkja um allt land. ÖBÍ rekur sjálft ekki húsnæðismiðlun, en vísar fólki áfram til Brynju eða reynir að aðstoða með því að benda á önnur úrræði.

  Hér eru tenglar sem tengjast þjónustu Brynju Hússjóðs:

  Sími: 570 7800, neyðarsími: 522 2215.

 • Er langur biðlisti hjá Brynju?

  Já. Það eru um 600 manns á biðlista. Staðan er raunar þannig að Brynja er hætt að taka við umsóknum í bili þar sem ekki er fyrirsjáanlegt að hægt sé að vinna niður biðlistann í nánd.

 • Bjóða sveitarfélög upp á félagslegt húsnæði?

  Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun, samkvæmt lögum og skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu. 

  • Listi yfir sveitarfélög landsins og hlekkir á þau eru á vef innanríkisráðuneytisins.
  • Félagsbústaðir hf. í eigu Reykjavíkur eiga og reka yfir 2000 íbúðir í borginni fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eru undir skilgreindum tekju- og eignamörkum. Umsóknir skulu berast til Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

 • Hvað er Samningurinn?

  Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til þess að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Í samningnum segir:

  „Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.“

  Réttindi eru nánar afmörkuð í einstökum greinum samningsins.

  Ítarlega er fjallað um Samninginn hér á vef ÖBÍ.

 • Hvers vegna var gerður sérstakur alþjóðasamningur um réttindi fatlaðs fólks?

  Allir einstaklingar eru jafnir fyrir lögum og eiga sama tilkall til allra mannréttinda. Með samningnum er viðurkennt að fatlað fólk hefur ekki haft sömu tækifæri og aðrir í gegnum tíðina. Aðildarríkin viðurkenna þessa staðreynd og heita því að vinna að bættum hag og bættum rétti fatlaðs fólks.

  Eins og segir í samningnum sjálfum:

  „Aðildarríkin viðurkenna að öll erum við jöfn fyrir lögum og eigum rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar.

  Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.“

  Samningurinn er fyrst og fremst jafnréttissamningur. Með honum er leitast við að ná jöfnum rétti og jöfnum tækifærum allra óháð fötlun. Samningurinn hefur nú þegar haft víðtæk áhrif á rétt fatlaðs fólks í aðildarríkjum samningsins.

 • Hvert er markmiðið með samningnum?

  Í fyrstu grein samningsins segir að markmiðið með SRFF sé:

  „Að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.“

  Orðin efla, verja og tryggja fela í sér skyldur ríkjanna. Þessi orð fela að sama skapi í sér ákveðinn greiningarlykil til þess að meta hvort ríki standi við skuldbindingar sínar.

 • Hver eru grundvallaratriði samningsins?

  Við lestur á ákveðnum greinum samningsins er mikilvægt að hafa í huga ákveðin grundvallaratriði og meginreglur samningsins. Þar er kveðið á um:

  a. virðingu fyrir mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði allra einstaklinga.

  b. bann við mismunun.

  c. fulla samfélagsþátttöku allra í einu samfélagi fyrir alla.

  d. virðingu fyrir fjölbreytileika fólks og mannlegum margbreytileika.

  e. jöfn tækifæri.

  f. aðgengi.

  g. jafnrétti á milli karla og kvenna.

  h. virðingu fyrir getu fatlaðra barna og virðingu fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.

  Þegar reynir á skýringu á samningnum skal litið til þessara grundvallarreglna.

 • Hvað er viðeigandi aðlögun?

  Samningurinn er fyrst og fremst jafnréttissamningur. Allir eru jafnir fyrir lögum og bannað er að mismuna á grundvelli fötlunar. Eitt af grundvallarhugtökum samningsins er „viðeigandi aðlögun“. Í samningnum segir:

  „„Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.“

  Í samningnum segir einnig að það teljist til mismununar að neita fötluðu fólki um viðeigandi aðlögun.

Upplýsingar

Algengar spurningar um upplýsingar

 • Hver er formaður ÖBÍ

  Þuríður Harpa Sigurðardóttir, þá varaformaður Sjálfsbjargar, var kjörin formaður ÖBÍ á aðalfundi bandalagsins haustið 2017. Hún hefur í sinni formennskutíð lagt mikla áherslu á kjaramál örorkulífeyrisþega, náið samstarf við verkalýðshreyfinguna og stjórnvöld. Einnig hefur verið unnið ötullega að heilbrigðismálum, aðgengismálum, málefnum sem tengjast atvinnu- og menntun, málefnum barna og sjálfstæðu lífi. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur verið lagður til grundvallar í starfi bandalagsins undir formennsku Þuríðar Hörpu.Þuríður Harpa Sigurðardóttir

 • Hvað er ÖBÍ?

  Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) er heildarsamtök hagsmuna og mannréttinda fatlaðs fólks á Íslandi stofnað 5. maí 1961. Bandalagið samanstendur af 43 aðildarfélagi fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra. Aðildarfélögin eru hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa sem öll starfa á landsvísu. Hvert og eitt er með sérþekkingu á sínu sviði og veita margskonar fræðslu og stuðning. Samanlagður félagafjöldi þeirra er um 30 þúsund manns.

 • Hvert er hlutverk og hvað gerir ÖBÍ?

  Markmið ÖBÍ er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku.

  Hlutverk ÖBÍ er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt þess. 

 • Hvað eru málefnahópar ÖBÍ?

  Starf málefnahópanna er hryggjarstykkið í málefnavinnu bandalagsins og gerir það mögulegt að berjast á mörgum stöðum á sama tíma. Málefnahópar bandalagsins fjalla um kjaramál, heilbrigðismál, aðgengismál, atvinnu- og menntamál, sjálfstætt líf og málefni barna.