Skip to main content
Skoðun

Réttlæti og seigla

By 28. september 2021ágúst 31st, 2022No Comments
Kveðja frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni 
Til hamingju með afmælið, ágætu liðsmenn Öryrkjabandalags Íslands! Sextugsafmæli er hátíðarstund.

Saga Öryrkjabandalagsins er saga sigra og framfara en fyrir þeim þurfti að berjast. Og vissulega er sagan líka blandin vonbrigðum þegar hægt miðar í réttlætisátt. Þá þarf seiglu og þrjósku. Þetta þekkið þið öryrkjar vel og eins mikilvægt er að ykkar rödd heyrist í samfélaginu og annarra. „Ekkert um okkur án okkar!“, það eru kröftug kjörorð.

Þrátt fyrir allt má fagna fjölmörgum umbótum sem náðst hafa í áranna rás. Árið 1961 voru stofnfélög Öryrkjabandalagsins sex talsins, nú tilheyra því yfir 40 félög eða samtök. Hvert þeirra hefur sérstakt hlutverk, sérstakan bakgrunn, en öll finna þau styrk í samtakamætti bandalagsins. Í árdaga þess voru aðstæður öryrkja aðrar og bágari en nú um stundir. Fólk var ekki verra að innræti þá en velferðarkerfi okkar var ekki eins öflugt. Í tímans rás hafa lög og reglur auk þess breyst til batnaðar, að ekki sé minnst á alþjóðasáttmála og ber þá hæst Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, undirritaðan af íslenskum stjórnvöldum árið 2007, fullgiltan níu árum síðar og nú er beðið lögfestingar í samræmi við ályktun Alþingis vorið 2019.

Lög ráða miklu um hagi fólks en fráleitt öllu. Í fallegum söng Bergþóru Árnadóttur við ljóð Laufeyjar Jakobsdóttur segir sömuleiðis að „gull og metorð gagna ekki, gangir þú með sálarhlekki“. Nýlega nefndi Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, í líkum anda að hamingjan býr ekki í ríkidæminu heldur í því að líða vel í eigin skinni, lifa í sátt við sig sjálfa og annað fólk. Þetta var vel mælt en einnig hitt sem fylgdi að þótt efnisleg gæði séu ekki lykill að hamingju eigum við öll að geta búið við fjárhagslegt öryggi, fæði, klæði og húsnæði.

Fyrir því þarf Öryrkjabandalag Íslands áfram að berjast, og reyndar samfélagið allt. Ég þakka ljúf kynni á liðnum árum við forystusveit Öryrkjabandalagsins og annað fólk innan vébanda þess og ítreka heillaóskir mínar til þessara merku samtaka.

 „… þótt efnisleg gæði séu ekki lykill að hamingju eigum við öll að geta búið við fjárhagslegt öryggi, fæði, klæði og húsnæði.“

Guðni Th. Jóhannesson.  


Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)