Skip to main content
HeilbrigðismálRéttindabaráttaSkoðun

„Allt of margir sækja ekki lyfin sín sökum fjárhags“

By 1. október 2021september 26th, 2022No Comments

Emil Thóroddsen, formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál

„Ég hef áhuga á högum langveikra, er sjálfur af mikilli slitgigtarætt austan af landi. Þegar formaður hópsins frá byrjun, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, hætti á miðju kjörtímabili 2016 ákvað ég að stíga inn. Hafði verið í hópnum frá byrjun og með brennandi áhuga á því sem við vorum að sýsla með og þeim tækifærum sem hópurinn hefur til góðra verka,“ segir Emil sem er framkvæmdastjóri Gigtarfélags Íslands.

Hópurinn vinnur eftir ákveðinni forskrift frá stefnuþingum ÖBÍ og fylgir henni nokkuð eftir. Þar hefur kostnaðarhlutdeild í heilbrigðisþjónustu og lyfjum verið ofarlega á baugi, fyrirkomulag hjálpartækja, geðheilbrigði og þjónusta heilsugæslu. „Hvað mig varðar persónulega hefur efnahagslegt aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu verið ofarlega á mínum tékklista, sem og fyrirkomulag hjálpartækja. Því miður er aðgengi að heilbrigðisþjónustu háð efnahag á Íslandi. Allt of margir seinka för til lækna eða sækja ekki lyfin sín sökum fjárhags. Hámarksgreiðsluþök eru of há og fyrsta þrep í kostnaði á hverju ári mörgum erfitt. Þá fellur ýmis þjónusta utan greiðsluþátttöku sem og lyf. Í ár brennum við fyrir því að sálfræðiþjónusta verði undir þaki kostnaðar við heilbrigðisþjónustu. Samstaða var um það á Alþingi fyrir tæpu ári og það er heimilt en verkefnið hefur vart verið fjármagnað. Fjármögnun verkefnisins verður í mínum huga eitt stærsta framfaraskref í endurhæfingu hér á landi auk annarra áhrifa á andlega líðan fólks. Greiðsluhlutdeild við sálfræðiþjónustu mun auka og bæta skilvirkni núverandi endurhæfingarúrræða, að því gefnu að hún verði í boði á réttum tíma og á réttum stað.“

Hann segir að ekki sé allt í kalda koli varðandi fyrirkomulag hjálpartækja. „Hins vegar er allur rammi um þjónustuna samkvæmt gamalli hugmyndafræði og innan fyrirkomulagsins tíðkast grófleg mismunun í kostnaðarþátttöku eftir vanda og fötlunarhópum. Uppfæra þarf lög og reglugerðir er varða málaflokkinn með sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi. Skilvirkt fyrirkomulag hjálpartækja er undirstaða lífsgæða fólks með hinar ýmsu skerðingar. Ef við meinum eitthvað með sjálfstæðu lífi fatlaðs fólks, sjálfstæðri búsetu, námi, atvinnu, frístundum og lífsgæðum almennt verður fyrirkomulagið að virka.“

„Sjúklingurinn boltinn sem sparkað er í“

Emil segir að heilmikið hafi áunnist á síðustu árum. „Í fyrsta lagi var tekið upp nýtt kostnaðarþátttökukerfi lyfja 2013. Kerfið byggist á þrepaskiptri greiðsluhlutdeild þar sem hver og einn greiðir hlutfallslega minna eftir því sem lyfjakostnaður eykst innan 12 mánaða tímabils. Þak er á hámarksgreiðslu og er mismunandi fyrir almenna sjúkratryggða og lífeyrisþega. Jöfnuður jókst í þessu kerfi og fólk varð mun betur varið fyrir óhóflegum kostnaði við lyfjakaup. Þessi breyting er vissulega fyrir stofnun málefnahóps ÖBÍ, en bandalagið og sjúklingafélögin voru virk í þeirri baráttu. Bæði að koma þessu kerfi á og móta.

Í öðru lagi var tekið upp nýtt greiðsluhlutdeildarkerfi sjúklinga í heilbrigðisþjónustu sem gerir allt einfaldara og jók jöfnuð milli sjúklinga. Greiðsluhlutdeild sjúklinga við sjúkraþjálfun var ein stærsta breytingin í nýja kerfinu, fellur nú undir almenna þakið en var í sérkerfi áður. Þá hefur kostnaðarhlutdeild varðandi tannheilsu lífeyrisþega tekið stakkaskiptum. Hvað varðar nýtt og skilvirkara fyrirkomulag hjálpartækja höfum við náð ýmsu fram. Í kjölfar þess að heilbrigðishópurinn lagði fram vel undirbyggða skýrslu um fyrirkomulag hjálpartækja og lögfræðiálit um þjónustuna setti núverandi heilbrigðisráðherra á laggirnar starfshóp sem tók út stöðuna og lagði til leiðir til úrbóta. Starfshópurinn skilaði sínu áliti í skýrslu í október 2019 sem staðfesti í flestu mat málefnahópsins á stöðunni. Málefnahópurinn fylgdist mjög mikið með framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar og hafði áhrif á framgang hennar. Í þeim efnum hafa verið tekin mikilvæg og stór skref á síðustu fimm árum til framfara. Einkum innan heilsugæslunnar um allt land. Annar árangur hefur falist í valdeflingu okkar fólks í samskiptum við heilsugæslu og heilbrigðiskerfið.“

Hverju er enn verið að berjast fyrir? „Kostnaðarhlutdeildin gefur fyrirheit um áframhaldandi baráttu. Endurskoða þarf bæði kostnaðarþátttökukerfin með tilliti til þess hvaða þjónusta eða lyf falla undir þau. Þökin eru of há og fyrstu kostnaðarþröskuldar á ársgrunni of háir. Varðandi kostnaðarhlutdeildina verður ekki komist hjá því að geta þess að þau aukagjöld sem samningslausar fagstéttir (sérfræðingar, sjúkraþjálfarar) við Sjúkratryggingar leggja á sjúklinga er vaxandi vandi og sjúklingar greiða einir. Álögurnar heita ýmsum nöfnum, eru mismunandi og virðast byggðar á mismunandi huglægu mati og að því er virðist handahófskenndu. Samningsaðilar hafa beinlínis í hótunum hvor við annan. Ef hótanirnar ganga eftir er ljóst að í „leiknum“ er notandinn/sjúklingurinn boltinn sem sparkað er í. Og ekkert annað.“

Einhver skilaboð að lokum til stjórnvalda? „Fjárfesting í þeim verkefnum sem að ofan er lýst er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka. Útrýmum fátækt í landinu.“

Umsjón og texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Ljósmynd: Hallur Karlsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)