Skip to main content
HúsnæðismálRéttindabaráttaViðtal

„Öruggt húsnæði sjálfsögð er mannréttindi okkar allra“

By 1. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments

María Pétursdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um húsnæðismál

„Okkar helstu baráttumál innan húsnæðishópsins, auk þess að kortleggja stöðu öryrkja á húsnæðismarkaði, eru að berjast fyrir því að auðveldara verði fyrir okkar hóp að kaupa húsnæði og leigja, að félagsleg úrræði verði bætt og þeim fjölgað svo fólk hafi efni á almennilegri og aðgengilegri búsetu.

Þá viljum við að fólk geti sótt styrki til að bæta aðgengismál sín og koma þannig í veg fyrir að fatlað fólk þurfi að skuldsetja sig meira en aðrir. Þá viljum við sjá gagnsæi í kerfinu, sjá langa biðlista eftir viðrráðanlegu og aðgengilegu húsnæði hverfa og að fólk hafi val um búsetu sína bæði hvað varðar búsetuform og staðsetningu,“ segir María sem einnig er aðalfulltrúi MS félagsins hjá ÖBÍ.

„Sjálf brenn ég helst fyrir því að sjá réttindi fólks og stuðning verða samræmdan milli sveitarfélaga og að sjá aukningu í félagslegu húsnæði en mér finnst galið hvaða augum sveitarfélög virðast líta á sitt húsnæði í dag. Hér ætti auðvitað að rísa mun meira af félagslegu leigu- og kaupleiguhúsnæði í takt við hin Norðurlöndin og á pari við gamla verkamannabústaðakerfið. Það að búa í félagslegu húsnæði á svo sannarlega ekki að vera einhver fátækrastimpill eins og nú loðir við. Sjálf er ég alin upp í gamla Verkó og veit að það kerfi gagnaðist ansi fjölbreyttum hópi á árum áður.“

„Miklu betur má ef duga skal“

Í gegnum tíðina hefur ÖBÍ náð ýmsum árangri í húsnæðismálum en enn eru mörg baráttumál óunnin í húsnæðismálum öryrkja. „Við vitum að Brynja hússjóður hefur haft lokaða biðlista núna í nokkur ár og við vitum að samkvæmt niðurstöðum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS áður Íbúðarlánasjóður) ár eftir ár er verulegur skortur á húsnæði. Ríkisstjórin kom á fót hlutdeildarlánum á síðasta ári en þau eiga að gera efnaminna fólki frekar kleift að fá lán fyrir húsnæði en á sama tíma vitum við um þónokkra alvarlega annmarka á þeim. Þar má nefna að flestar íbúðirnar sem flokkast undir þann lánaflokk eru staðsettar við ytri byggðir eða jafnvel í sveitarfélögum utan höfuðborgarinnar svo þar er ekki verið að huga að blöndun hverfa eftir stétt og stöðu. Við vitum líka að öryrkjar á strípuðum bótum á t.d. leigumarkaði hafa engan möguleika til að kaupa húsnæði á þeim kjörum sem hlutdeildarlánin bjóða upp á. Við viljum að sjálfsögðu sjá mun hagstæðari lán fyrir okkar fólk og möguleika fólks til að velja sér búsetuform enda skiptir það fatlað fólk miklu máli að búa við öruggan húsnæðiskost og þá jafnan til lengri tíma.

Það eru til lög um almennar íbúðir og stofnframlög sem veita skal til óhagnaðardrifinna leigufélaga en miklu betur má ef duga skal því þar er talað um að markmið laganna sé að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Meðalhúsnæðiskostnaður á almennum leigumarkaði í dag er eflaust töluvert hærra hlutfall strípaðra örorkubóta en svo.

Ertu með skilaboð til stjórnvalda að lokum? „Eflið og fjölgið óhagnaðardrifnum og félagslega reknum húsnæðisúrræðum strax því öruggt húsnæði er sjálfsögð mannréttindi okkar allra en ekki bara sumra!“

„Það að búa í félagslegu húsnæði á svo sannarlega ekki að vera einhver fátækrastimpill eins og nú loðir við.“

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Ljósmyndir: Hákon Davíð Björnsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)