Skip to main content
Skoðun

For-réttindi – Við eigum öll jafnan rétt til sjálfstæðs lífs

By 3. nóvember 2022nóvember 7th, 2022No Comments
Forrest Gump

SKOÐUN Höfundur: Unnur H. Jóhannsdóttir.

Réttindi eru mikilvæg fötluðu fólki og þegar forskeytinu for er skeytt fyrir framan orðið réttindi breytist orðið skemmtilega og getur virkað bæði jákvætt og neikvætt en þá er það skýrt sem réttur umfram aðra. Í orðabók er réttur skilgreindur sem eitthvað sem einhverjum ber með réttu (að lögum, samningi eða hefð) og fær í kjölfarið til þess réttindi. Orðið forréttindi er hins vegar skýrt sem réttindi umfram aðra.

Í aldanna og áranna rás hafa réttindi ólíkra hópa í samfélaginu verið mismunandi, þetta á til dæmis við um fólk með mismunandi litaraft, mismunandi trúarbrögð, fatlað fólk og ófatlað.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er alþjóðlegur mannréttindasamningur sem ætlað er að verja og efla réttindi og virðingu fatlaðs fólks. Aðildarríki viðurkenna að fatlað fólk hefur ekki hlotið sömu tækifæri og réttindi til jafns við aðra, og ber að vinna að þeim.

Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn árið 2007, fullgiltu hann 2016 en hafa enn ekki lögfest hann. Alþingi samþykkti vorið 2019 þingsályktunartillögu sextán þingmanna um að ríkisstjórninni yrði falið að undirbúa lögfestingu SRFF og að frumvarpið skuli lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020. Það varð hins vegar ekki að veruleika en lögfesting samningsins myndi tryggja að fatlað fólk á Íslandi gæti byggt rétt sinn á samningnum með beinum hætti. Það yrði mikil réttarbót.

Í örfáum tilvikum eru birtingarmyndir í menningunni jákvæðar og kallast á við forréttindi. Í goðafræði, en það voru trúarbrögð norrænna og germanskra manna, fórnaði Óðinn, sem var æðsti guðinn, öðru auga til að njóta þeirra forréttinda að fá visku í staðinn. Nafn hans samanstendur af liðunum óð og inn, þar sem fyrri hlutinn táknar vit og sál, jafnvel orku og lífskraft.

Annað dæmi, sem þó er tvíbent að taka fyrir, þar sem fötlun er álitin forréttindi, er hin geysivinsæla kvikmynd Forrest Gump. Þar virðist samnefnd aðalsöguhetja vera heppin með eindæmum. Á það að öllu jöfnu við um fatlað fólk? Langflestir myndu svara því neitandi. Gump virðist vera seinfær og það er tilviljunum háð hvernig ævi hans þróast þó gæfurík sé. Höfundar láta þó söguhetjuna sýna tilfinningar, gleði og sorg – auk þess sem þetta er þroskasaga. Sem dæmi um staðal­ímyndir af fólki með þroskahömlun er að það sé alltaf glaðlynt, sem er vitaskuld rangt.

Tom Hanks fór með hlutverk Gump en aðeins 3% fatlaðra leikara fá hlutverk í sjónvarpi og kvikmyndum, jafnvel þótt hlutverkið eigi að túlka veruleika fatlaðs fólks. Ófatlað fólk fær frekar hlutverkin og það þó fatlað fólk sé um 15% mannkyns. Sem dæmi um jákvæða þróun má þó nefna þættina Með okkar augum, sem fólk með þroskahömlun stýrir.

Enn er þó langt í land og í samningi Sameinuðu þjóðanna er áréttað að fatlað fólk sé eftir sem áður „hindrað í að taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra og stendur frammi fyrir því að mannréttindi þess eru brotin alls staðar í heiminum.“ Með lögfestingu samningsins öðlast fatlað fólk sjálfsögð réttindi – ekki forréttindi heldur réttindi til jafns við aðra.