Skip to main content

Ávarp formanns

Skýrsla formanns og stjórnar

ÖBÍ réttindasamtök tóku upp sitt nýja nafn með formlegum hætti eftir síðasta aðalfund og hafa áfram barist af einurð fyrir bættum hag fatlaðs fólks á starfsárinu. Umtalsverður árangur hefur náðst, en baráttunni er hvergi nærri lokið.

Mannréttindastofnun hefur verið komið á laggirnar og nýtt lífeyriskerfi tók gildi 1. september 2025. Hins vegar leið enn eitt starfsárið án lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (hér eftir SRFF eða samningurinn) eftir nærri fordæmalausan þingvetur. Öll framboð sem náðu kjöri til Alþingis sögðust í skriflegu svari við spurningum ÖBÍ í kosningabaráttunni fylgjandi lögfestingu og sætir því furðu að ekki hafi tekist að leiða samninginn í lög á starfsárinu. ÖBÍ kallar eftir því að alþingismenn setji réttindi fatlaðs fólks í forgang og klári málið á nýhöfnu þingi.

Viðfangsefni ÖBÍ eru eftir sem áður afar fjölbreytt og starfssviðið víðfeðmt. Leiðarstefið í allri réttindabaráttu er og verður samtal og samráð, enda er það að mati ÖBÍ lykillinn að árangri í þeim málum sem varða fatlað fólk. Á starfsárinu tóku formaður og aðrir fulltrúar ÖBÍ þátt í fjölmörgum fundum með ráðherrum, stofnunum og sveitarfélögum, auk þess sem reglulegt samráð fór fram í gegnum aðrar boðleiðir.

Þá voru meðal annars haldnir fundir með fulltrúum hins opinbera á ýmsum sviðum, til dæmis Tryggingastofnun (TR), Isavia, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjúkratryggingum, og stafrænu Íslandi. Formaður átti reglulega samráðsfundi með TR og velferðarsviði Reykjavíkurborgar þar sem skipst var á upplýsingum og sjónarmiðum.

Formaður og aðrir fulltrúar ÖBÍ sátu einnig í fjölda nefnda og verkefnastjórna, þar á meðal réttindavakt, samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks, verkefnastjórn landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks, framtíðarhópi, velferðarvakt og geðráði. Málefnahópar ÖBÍ héldu áfram virku samstarfi við viðeigandi ráðuneyti og stofnanir, skiluðu fjölda umsagna um lagafrumvörp, reglugerðir og önnur mál og tóku þátt í nefndarfundum á Alþingi. Þá funduðu notendaráðin reglulega eins og tíðkast hefur síðastliðin ár.

Réttindabarátta ÖBÍ er knúin áfram af öflugu starfsfólki og sjálfboðaliðum og færum við öllum þeim sem lögðu hönd á plóg kærar þakkir. Þrjár öflugar baráttukonur fyrir réttindum fatlaðs fólks féllu frá á starfsárinu: Gunnhildur Hlöðversdóttir, fulltrúi í húsnæðishópi, Jóhanna Sigríður Halldórsdóttir, fulltrúi í kjarahópi og Guðrún Hannesdóttir, fyrrverandi forstöðumaður Hringsjár. Þeirra er minnst með hlýhug og þakklæti.

Skref í baráttunni

ÖBÍ er leiðandi afl í íslensku samfélagi og talar máli fatlaðs fólks af staðfestu. Málin eru stór og málaflokkurinn afar fjölbreyttur. Þrátt fyrir mikið umfang og mikilvægi hefur náðst að stíga mörg þýðingarmikil skref á starfsárinu.

Langþráðar kerfisbreytingar

Eitt stærsta samráðsverkefni ársins laut að umfangsmiklum breytingum á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga sem tóku gildi 1. september 2025. Breytingarnar fela í sér langþráða einföldun kerfisins sem er mikill áfangasigur eftir áralanga baráttu ÖBÍ. Fulltrúar ÖBÍ sátu ófáa fundi með TR og félags- og húsnæðismálaráðuneytinu í aðdraganda gildistökunnar til að koma sjónarmiðum fatlaðs fólks á framfæri.

ÖBÍ réttindasamtök höfðu lengi barist fyrir mörgum þeirra breytinga sem gerðar voru. Má þar sérstaklega nefna einföldun kerfisins alls.

Tekjutengingar voru einfaldaðar og reglur skýrðar þannig að fólk hafi betri yfirsýn yfir réttindi sín. Markmiðið er að tryggja öruggari afkomu fyrir fatlað fólk og aðra sem þurfa á lífeyri almannatrygginga að halda, draga úr óvissu og stuðla að auknu jafnrétti. Þá girða breytingarnar fyrir að fólk sem fer á endurhæfingarlífeyri falli milli skips og bryggju hvað framfærslu varðar.

Á starfsárinu hefur ÖBÍ lagt mikla áherslu á að vinnumarkaðurinn sé í stakk búinn til að taka á móti þeim hópi fólks sem tekur hina nýju hlutaörorku, meðal annars með verkefninu UNNDÍS sem fjallað er um aftar í skýrslunni.

Eingreiðsla tryggð í desember

ÖBÍ réttindasamtök þrýstu á að eingreiðsla yrði greidd örorku- og endurhæfingarlífeyristökum í desember 2024 og náðist það í gegn, eins og síðustu ár. Alls var 70.364 kr. eingreiðsla samþykkt, skattfrjáls og skerðingalaus.

Mannréttindastofnun komið á laggirnar

Mannréttindastofnun Íslands tók til starfa á árinu, í kjölfar þess að Alþingi samþykkti lög um stofnun hennar í júní 2024. Með tilkomu stofnunarinnar er 33. gr. samnings SRFF uppfyllt.

Mannréttindastofnun Íslands hefur það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd SRFF, sinna réttindagæslu fyrir fatlað fólk og fylgjast með stöðu mannréttinda á Íslandi almennt, auk þess að veita stjórnvöldum og almenningi faglega ráðgjöf á þessu sviði. Stofnunin er þannig mikilvægur hornsteinn í því að tryggja að mannréttindi séu virt og efld í íslensku samfélagi.

Með stofnun Mannréttindastofnunar Íslands eru allar forsendur til staðar til að Alþingi geti nú lögfest SRFF í heild sinni, sem væri mikið réttindaskref og áratugalöng krafa fatlaðs fólks. ÖBÍ réttindasamtök hafa átt góða fundi með nýjum framkvæmdastjóra og stjórn stofnunarinnar og lagt línurnar fyrir farsælt samstarf.

Áherslur fatlaðs fólks í stjórnarsáttmála

ÖBÍ réttindasamtök unnu markvisst að því að tryggja að hagsmunir fatlaðs fólks væru áberandi í aðdraganda Alþingiskosninganna sem fóru fram 30. nóvember 2024.

ÖBÍ sendi öllum stjórnmálaflokkum sem buðu sig fram á landsvísu þrjár spurningar varðandi stefnu þeirra í málefnum fatlaðs fólks og birtu svörin á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum. Með þessu vildi ÖBÍ stuðla að upplýstri umræðu svo kjósendur, sérstaklega fatlað fólk, gætu metið afstöðu frambjóðenda.

Skömmu fyrir kosningar, þann 5. nóvember 2024, stóð ÖBÍ fyrir opnum fundi með frambjóðendum á Grand hóteli í Reykjavík undir yfirskriftinni „Spurning um réttindi“. Á fundinum svöruðu frambjóðendur úr öllum stjórnmálaflokkum sem buðu fram á landsvísu spurningum um málefni fatlaðs fólks. Fyrir fundinn birti ÖBÍ tíu áherslur og kynnti frambjóðendum sem tóku þátt í fundinum.

Þessar aðgerðir tryggðu að málefni fatlaðs fólks héldust á lofti í kosningabaráttunni og skiluðu sér inn í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Persónuafslættinum bjargað

Alþingi svaraði ákalli ÖBÍ réttindasamtaka og LEB (Landssambands eldri borgara) og féll í nóvember 2024 frá áformum um brottfall persónuafsláttar örorku- og ellilífeyristaka búsettra erlendis.

Frumvarp sem fól í sér tillögu um brottfall persónuafsláttar lífeyristaka búsetta erlendis var lagt fram af fjármálaráðuneytinu á haustþingi 2023. ÖBÍ vakti strax athygli á málinu og benti á að lög þess efnis myndu hafa alvarleg áhrif á framfærslu fjölda lífeyristaka erlendis. Lögin voru samþykkt en vegna athugasemda ÖBÍ var gildistöku þeirra frestað og áskilnaður gerður um að áhrif laganna á lífeyristaka yrðu könnuð nánar.

ÖBÍ og LEB börðust fyrir því að ákvæðið yrði fellt úr lögum snemma á starfsárinu. Samtökin veittu umsagnir um málið og áttu í kjölfar fundi með nefndarmönnum efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem tóku undir sjónarmið og athugasemdir samtakanna.

Réttindaganga 1. maí

ÖBÍ réttindasamtök tóku venju samkvæmt þátt í kröfugöngu á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí. Fatlað fólk fjölmennti í gönguna undir forgönguborða með áletruninni „Sköpum störf við hæfi“.

Fjöldi fatlaðs fólks innan raða ÖBÍ ýmist var eða er á vinnumarkaði. Það er brýnt að fatlað fólk hafi raunverulegt aðgengi að vinnumarkaði og forsendan fyrir því er að í boði séu fjölbreytt hlutastörf. Löggjöfinni um nýtt örorkulífeyriskerfi almannatrygginga er ætlað að auka á atvinnumöguleika fatlaðs fólks en áríðandi er að gera frekari umbætur, fylgja nýju lögunum eftir, og uppræta fordóma í garð fatlaðs fólks á vinnumarkaði. Ekki er síður mikilvægt að tryggja lífsæmandi kjör fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka.

Enn stærri Þjóðfundur ungs fólks

UngÖBÍ efndi öðru sinni, með styrk frá Erasmus+ og í samstarfi við Landssamband ungmennafélaga og Landssamtök íslenskra stúdenta, til Þjóðfundar ungs fólks þann 1. febrúar 2025 í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll í Reykjavík.

Nærri hundrað þátttakendur á aldrinum 20–35 ára komu saman til að ræða og móta tillögur um inngildingu, jafnrétti og aðgengi í íslensku samfélagi.

Viðburðurinn hófst með ávarpi forsætisráðherra Kristrúnar Frostadóttur, sem lagði áherslu á mikilvægi aðgengis og þátttöku ungs fólks í íslensku samfélagi.

Með þessum fundi gafst ungu fólki tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Þátttaka ungs fólks í samfélagsumræðu skiptir sköpum, enda þarf að tryggja að allar raddir, óháð bakgrunni, fái að hafa áhrif á framtíð samfélagsins.

Umsagnir

Árlega sendir skrifstofa ÖBÍ frá sér fjölda bréfa til opinberra aðila er varða málefni fatlaðs fólks. Teymisstjóri og teymi umsagna fara yfir umsagnarbeiðnir sem berast samtökunum, flokka þær og ákveða hvaða beiðnum rétt er eða þarf að bregðast við. ÖBÍ sendi stjórnvöldum yfir 90 umsagnir á starfsárinu.

Listi yfir umsagnir

Dómsmál

Rekstur dómsmála er mikilvægur þáttur í hagsmunabaráttu ÖBÍ. Dómsmál eru ýmist rekin í eigin nafni samtakanna eða með stuðningi við fatlað fólk sem leita þarf réttar síns fyrir dómstólum. Gert er að skilyrði að um sé að ræða mál sem haft getur fordæmisgildi fyrir hóp fatlaðs fólks. Auk mála sem rekin eru fyrir dómstólum koma sérfræðingar ÖBÍ að fjölmörgum réttindamálum á hverju ári sem ekki fara þá leið. Einstaklingum er þá veitt ráðgjöf og í sumum tilvikum taka sérfræðingar ÖBÍ að sér að senda kærur til ráðuneyta, opinberra kæru- og úrskurðarnefnda eða kvörtun til Umboðsmanns Alþingis.

Haustið 2025 stendur ÖBÍ á bak við rekstur 12 dómsmála. Þar af eru sjö þegar rekin fyrir dómstólum en fimm eru í undirbúningi.

Nýlega voru gerðar breytingar á upplýsingum um rekstur » dómsmála ÖBÍ á heimasíðu samtakanna. Nú má finna ítarlegri umfjöllun um öll þau mál sem rekin eru fyrir dómstólum auk þess að á nýrri undirsíðu hafa verið birtar reifanir allra  » eldri dómsmála allt aftur til ársins 2000.

Vert er að geta þess að hinn 23. október 2024 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem ÖBÍ rak í þágu einstaklings gegn Stapa lífeyrissjóði. Með dómnum fékkst það viðurkennt að lífeyrissjóðnum hafi verið óheimilt að skerða örorkulífeyrisgreiðslur vegna barnalífeyris sem stefnandinn fékk greiddan frá Tryggingastofnun. Um er að ræða mikilvægan sigur sem líklegt er að muni hafa fordæmisgildi fyrir nokkurn fjölda örorkulífeyristaka.

Í öðru máli hafnaði Hæstiréttur hinn 14. október 2024 kröfum ÖBÍ og einstaklings í máli á hendur Tryggingastofnun um 10 ára afturvirka leiðréttingu á ólögmætri búsetuskerðingu á sérstakri framfærsluuppbót. Þannig féllst Hæstiréttur á að Tryggingastofnun væri ekki skylt að framkvæma slíka leiðréttingu lengra en fjögur ár aftur í tímann. ÖBÍ hefur kært málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Einnig er vert að geta þess að Mannréttindadómstóll Evrópu samþykkti í byrjun árs 2025 að taka að hluta fyrir mál sem ÖBÍ rekur og kennt hefur verið við „krónu á móti krónu skerðingu“.

Þá má nefna mál sem rekið er fyrir hönd Jakubs Polkowski gegn íslenska ríkinu, Reykjanesbæ og Sæstjörnunni ehf. vegna útburðar og nauðungaruppboðs fasteignar hans. Félagið Sæstjarnan ehf. keypti heimili Jakubs á 3 milljónir króna en félagið seldi húsnæðið nýlega aftur fyrir 78 milljónir króna. Hæstiréttur hafnaði kæruleyfisumsókn Jakubs í júní 2025 og gerði honum að reiða fram 1,1 milljón króna í málskostnaðartryggingu, sem ÖBÍ greiddi fyrir hans hönd.

1

Króna fyrir krónu skerðing

Mannréttindadómstóll Evrópu
2

Leiðrétting búsetuskerðinga – 10 ár og dráttarvextir

3

Mygla í Félagsbústöðum

Héraðsdómur
4

Nauðungarsala á heimili í Reykjanesbæ

Héraðsdómur
5

Stafrænt aðgengi (brottfall íslykils)

Héraðsdómur
6

Húsnæðismál – biðlistar

Héraðsdómur
7

Gjaldtaka í bílastæðahúsum

Í undirbúningi
8

Hækkanir frítekjumarka [Lög um almannatryggingar]

 Í undirbúningi
9

Hækkanir greiðslna 69. gr. laga um almannatryggingar

 Í undirbúningi
10

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA)

Í undirbúningi
11

Fjármagnstekjur maka

Í undirbúningi
12

Regla lífeyrissjóða um sjálfskaparvíti

Í undirbúningi

Hvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaun ÖBÍ voru veitt á alþjóðadegi fatlaðs fólks, 3. desember 2024, eins og hefð er fyrir. Kallað var eftir tilnefningum frá almenningi og tilnefndi stjórn verðlaunanna fjóra einstaklinga eða verkefni.

Handhafar verðlaunanna í þetta skiptið eru leikverkin „Fúsi, aldur og fyrri störf“ og „Taktu flugið, beibí“. Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson, oftast kallaður Fúsi, veitti verðlaununum viðtöku en hann er annar höfunda leikverksins, ásamt Agnari Jóni Egilssyni. Þá tók Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir á móti verðlaunum, en hún er höfundur Taktu flugið, beibí. Halla Tómasdóttir forseti afhenti verðlaunin.

Auk þeirra voru eftirfarandi tilnefnd:

  • Leikskólinn Múlaborg
  • Dagbjört Andrésdóttir

Áfram er unnið að því að tryggja alþjóðadegi fatlaðs fólks sess í dagatali Íslendinga. Rétt eins og í fyrra var kappkostað að fá fyrirtæki og stofnanir til að baða byggingar sínar fjólubláu ljósi. Það gekk ákaflega vel og mátti meðal annars sjá Háskóla Íslands, Laugardalshöll, Hörpu og stjórnarráðshúsið skarta fjólubláu. Samhliða því voru birtar auglýsingar, með sérstökum stuðningi frá Íslenskri getspá, til að minna á mikilvægi réttindabaráttu fatlaðs fólks.

Samstarfsverkefni

Festa — sjálfbærni í forgangi

ÖBÍ réttindasamtök eru aðili að Festu, miðstöð um sjálfbærni. Tilgangur Festu er að efla vitund um mikilvægi sjálfbærni og að fyrirtæki og stofnanir tileinki sér slíkt í sínum störfum.

Haldinn var sameiginlegur tengslafundur Festu, ÖBÍ og Vinnumálastofnunar í Mannréttindahúsinu í byrjun hausts 2024. Félags- og vinnumarkaðsráðherra hélt opnunarerindi áður en fulltrúar frá ÖBÍ, Vinnumálastofnun, VIRK og IKEA fjölluðu um stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði og mikilvægi fjölbreytni.

Aðgengisfulltrúar í hverju sveitarfélagi

Samvinnuverkefni ÖBÍ, ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk hefur vaxið jafnt og þétt frá því það hófst sumarið 2021. Í dag hefur hvert sveitarfélag skipað sér aðgengisfulltrúa og geta þeir sótt um styrki úr Jöfnunarsjóði til framkvæmda í þágu aðgengis.

Í febrúar 2025 skrifuðu formaður ÖBÍ og innviðaráðherra undir samkomulag um áframhald verkefnisins til loka árs 2026. Samtals verður 464 milljónum króna varið í styrki gegn helmings mótframlagi sveitarfélaga. Með því er tryggt framhald á markvissum aðgerðum til að bæta aðgengi og stuðla að jafnrétti í samfélaginu.

UNNDÍS — sköpum störf við hæfi

Að frumkvæði ÖBÍ hófst á árinu innleiðing á aðferðafræði sem hér hefur fengið heitið Unndís. Hún byggir á UNDIS, mælitæki og stefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefur það að markmiði að auka inngildingu á vinnustöðum og fjölga störfum fyrir fatlað fólk. Með því að aðlaga þessa stefnu að íslenskum aðstæðum hefur verið stigið mikilvægt skref til að tryggja að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt í allri stefnumótun, stjórnsýslu og starfsemi opinberra aðila og einkafyrirtækja. Einkum hefur Unndísarverkefnið tengst nýju örorkulífeyriskerfi almannatrygginga og kappkostað er að fjölga störfum við hæfi fyrir fatlað fólk.

Verkefnið er leitt af félags- og húsnæðismálaráðuneytinu í nánu samstarfi við Vinnumálastofnun, en ÖBÍ hefur gegnt lykilhlutverki í að móta efnið, kynna aðferðafræðina og skapa vettvang fyrir umræðu. ÖBÍ hefur staðið fyrir kynningum á opnum fundum, tekið þátt í fræðslu á vinnustöðum og miðlað reynslu sinni og þekkingu til að tryggja að rödd fatlaðs fólks heyrist í allri ákvarðanatöku.

Nokkur stærri fyrirtæki og stofnanir ráðuneytisins hafa þegar hafið innleiðingu aðferðafræðinnar með stuðningi ÖBÍ og fyrstu niðurstöður gefa tilefni til bjartsýni. Fram undan er að fylgja verkefninu fast eftir, efla fræðslu og hvetja fleiri vinnustaði til þátttöku. ÖBÍ mun áfram beita sér fyrir því að Unndís verði ekki aðeins tímabundið tilraunaverkefni heldur festi sig í sessi sem varanlegur þáttur í vinnustaðamenningu á Íslandi, þar sem fjölbreytileiki og inngilding eru grundvallargildi.

Uppskera menningarhátíð

ÖBÍ tók þátt í uppskeru- og menningarhátíð fatlaðs fólks og fötlunarfræða sem haldin var í febrúar 2025. Tilefnið var 20 ára afmæli námsbrautar í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Því tóku samtök fatlaðs fólks, fatlað listafólk og fræðasamfélagið höndum saman og stóðu að fjölbreyttri dagskrá um listir, fræði og vitundarvakningu.

Tveir stórviðburðir voru á dagskrá. Annars vegar fræðilegt málþing með listrænu ívafi í hátíðarsal Háskóla Íslands 21. febrúar og hins vegar uppskeru- og menningarhátíð í Hörpu 22. febrúar. Þá voru haldnir hliðarviðburðir á borð við kvikmyndasýningu í Bíó Paradís, vitundarvakningu í samstarfi við Borgarbókasafn og Borgarsögusafn, skynvænt ljóðakvöld, smiðju í „artivisma“, hlaðvörp og kynningu á fötluðu listafólki á netmiðlum.

Megintilgangur samstarfsverkefnisins var að leiða saman breiðan hóp til að varpa ljósi á mikilvægt og fjölbreytt framlag fatlaðs fólks og fötlunarfræða til menningar og samfélags á Íslandi.

Í tilefni af 20 ára afmæli námsbrautar í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands ákváðu ÖBÍ réttindasamtök að koma á fót verðlaunum fyrir framúrskarandi lokaverkefni til meistara eða doktorsgráðu með áherslu á fatlað fólk og/eða fötlunarfræði. Kallað verður eftir tilnefningum úr öllum háskólum landsins og verða verðlaun veitt árlega.

Litríkt samstarf við Hinsegin daga

ÖBÍ réttindasamtök undirrituðu á starfsárinu þriggja ára samstarfssamning við Hinsegin daga sem miðar að því að auka samstarf og samstöðu þessara réttindahreyfinga. Með samningnum voru tengsl ÖBÍ við Hinsegin daga og Samtökin ’78 styrkt til muna og sameiginleg áhersla lögð á að tryggja aðgengi og mannréttindi allra undir regnboganum.

ÖBÍ tók virkan þátt í skipulagningu og framkvæmd Regnbogaráðstefnunnar sem haldin var í Iðnó í Reykjavík í ágúst 2025. Þar var meðal annars lagður grunnur að samtali um hvernig tryggja megi að fatlað fólk sé sýnilegt og virkt í hinsegin samfélaginu. ÖBÍ stóð einnig að því að gera Gleðigönguna aðgengilegri með því að tryggja skynvænan strætó svo fólk með skynúrvinnsluvanda gæti tekið þátt í gleðinni án óþarfa áreitis.

Góður hópur frá ÖBÍ gekk svo í Gleðigöngunni undir slagorðinu „Aðgengi fyrir öll undir regnboganum”. Þannig var ekki aðeins bent á mikilvægi aðgengis heldur líka dregin fram sú staðreynd að réttindabarátta fatlaðs fólks og hinsegin fólks á sér sameiginlegan grundvöll í kröfunni um mannréttindi, virðingu og jafnan aðgang að samfélaginu.

Skjöldur – öruggt húsnæði fyrir nemendur

ÖBÍ á í samstarfi við Brynju leigufélag og Hringsjá náms- og starfsendurhæfingu um kaup á íbúðum með það að leiðarljósi að koma upp öruggu og aðgengilegu húsnæði fyrir nemendur Hringsjár hjá Brynju leigufélagi. Verkefnið nefnist Skjöldur og lagði ÖBÍ 100 milljónir króna í það. Á starfsárinu voru fest kaup á fjórum íbúðum sem fara í leigu haustið 2025.

Ein stærsta félagslega hindrunin hjá mörgum nemendum Hringsjár er staðan á húsnæðismarkaði, sér í lagi hátt leiguverð. Biðlistar eftir félagslegu húsnæði eru langir og það húsnæði sem í boði er oft óviðunandi. Með þessu móti munu nemendur fá öruggt húsnæði sem gerir þeim kleift að nýta náms- og starfsendurhæfingu og þau úrræði sem í boði eru hjá Hringsjá mun betur en ella. Einnig mun þetta gera einstaklingum, sem eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins, kleift að nýta sér náms- og starfsendurhæfingu hjá Hringsjá.

Römpum upp Ísland á endastöð

Átaksverkefnið Römpum upp Ísland kláraðist á starfsárinu þegar rampur númer 1.756 var vígður við Háskóla Íslands. Haraldur Ingi Þorleifsson forsprakki verkefnisins gaf sér upphaflega innan við ár til að byggja 100 rampa í Reykjavík. ÖBÍ átti aðild að Römpum upp Ísland og styrkti verkefnið en tilgangur þess var að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi. Römpum upp vakti gríðarlega athygli, bæði á Íslandi og utan landsteinanna, og tókst þar með að vekja athygli á aðgengismálum almennt.

Eftir útvíkkun verkefnisins um land allt stóð til að setja upp 1.000 rampa en markmiðið var hækkað í 1.500. Heildarfjöldi rampa fór sem sagt langt fram úr þeim áætlunum, sem er mikið fagnaðarefni. Verkefnið hófst haustið 2021 og lauk 2025, ári á undan áætlun.

RIFF fyrir okkur öll

ÖBÍ réttindasamtök áttu í samstarfi við RIFF, Reykjavík International Film Festival, og styrktu bílabíó þann 21. september. Sýndar voru fjórar myndir og gerði bílabíó RIFF bíóupplifunina aðgengilega fyrir alla. Íslenskur texti var við hverja mynd og sérmerkt stæði fremst við skjáinn fyrir fatlaða bíógesti, sem fengu 20% afslátt.

Málþing um jafnrétti í heilbrigðisþjónustu

ASÍ, BSRB og ÖBÍ réttindasamtök stóðu fyrir málþingi um jafnrétti í heilbrigðisþjónustu; hætturnar við arðvæðingu og einkavæðingu í heilbrigðisrekstri og leiðir að bættu rekstrarumhverfi í þágu samfélagsins.

Málþingið var haldið í september 2024 í tilefni útgáfu bókarinnar Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu, sem er þýðing á riti Göran Dahlgren um málaflokkinn, og hvernig reynslan hefur verið í Svíþjóð undanfarna áratugi.

Ásamt Göran Dahlgren fór Lisa Pelling yfir aðgerðir stéttarfélaga og félagasamtaka til að taka á vandanum og Rúnar Vilhjálmsson fór yfir stöðuna eins og hún birtist á Íslandi samtímans.

Stórbætt stafrænt aðgengi á dagskrá

ÖBÍ réttindasamtök, menningar- og viðskiptaráðherra, Almannarómur – miðstöð máltækni og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) undirrituðu viljayfirlýsingu í október 2024 um að vinna saman að stórbættu stafrænu aðgengi fatlaðs fólks, með hjálp íslenskra máltæknilausna. Á meðal þeirra verkefna sem unnið er að er upplýsingagátt um helstu lausnir sem geta gagnast ýmsum hópum, stuðningur við stofnun raddbanka og aukinn kraftur í þróun á talgervilslausnum sem styðja við íslensku.

Í viljayfirlýsingunni voru settar fram fimm afmarkaðar aðgerðir sem byggja á niðurstöðum greiningarinnar. Ábyrgðaraðili hverrar aðgerðar er tilgreindur í viljayfirlýsingunni og var samþykkt að vinna að framgangi þeirra næsta árið. Nú í haust verða hagsmunaaðilar kallaðir saman á ný til að fara yfir árangur við framkvæmd aðgerðanna.

Notendaráð

Fulltrúar frá ÖBÍ funda reglulega með fötluðu fólki sem situr í notendaráðum sveitarfélaga landsins til að stuðla að því að ráðin skili sem bestum árangri. Stefnt er að því að halda fundi á sex vikna fresti. Þess á milli fer fram skipulagning og undirbúningur. Á tímabilinu fékk ráðið aðgengis- og heilbrigðismálahóp ÖBÍ til að kynna starfsemi sína, að ósk fulltrúa notendaráða. Einnig var Samband íslenskra sveitarfélaga fengið til að halda kynningu.

Farið var í vettvangsferðir á starfsárinu þar sem heimsótt voru eftirfarandi sveitarfélög og notendaráð þeirra; Múlaþing, Fjarðabyggð, Hveragerði, Selfoss, Seltjarnarnes, Reykjanesbær og Suðurnesjabær.

Kvennaárið 2025

ÖBÍ réttindasamtök taka þátt í skipulagningu Kvennaárs, sem markar 50 ár frá því íslenskar konur lögðu niður störf og stöðvuðu þannig samfélagið á Kvennafrídeginum. Kvennaárið er samstarfsverkefni fjölmargra félaga og hreyfinga og er ætlað að halda áfram þeirri hefð sem Kvennafrí og Kvennaverkföll fyrri ára hafa skapað. Verkefnið hefur vakið mikla athygli með fjölbreyttum viðburðum þar sem konur og kvár koma saman til að efla samstöðu og setja fram kröfur um raunverulegar aðgerðir í þágu jafnréttis.

ÖBÍ hefur tekið þátt í skipulagningu viðburða, lagt sitt af mörkum í undirbúningshópum og tekið virkan þátt í umræðunni. Má þar nefna viðburðinn Konur, friður og öryggi í breyttum heimi sem ÖBÍ og UN Women á Íslandi stóðu fyrir í Mannréttindahúsinu, í samstarfi við sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi. Fullt hús var á fundinum sem haldinn var í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna 8. mars.

Framundan er stórviðburður þann 24. október þar sem áhersla verður lögð á að knýja stjórnvöld til ábyrgðar og krefjast aðgerða gegn ofbeldi gagnvart fötluðum konum. Þetta er sérlega brýnt í ljósi nýlegra mála þar sem réttarkerfið hefur brugðist þolendum. Þar mun ÖBÍ beita sér fyrir því að rödd fatlaðs fólks heyrist skýrt.

Málstofa um réttaröryggi fatlaðs fólks

ÖBÍ hélt í samstarfi við Dómstólasýsluna lokaða málstofu fyrir dómara og aðstoðarmenn dómara um réttaröryggi fatlaðs fólks. Fyrirlesarar voru lögfræðingur á skrifstofu ÖBÍ og einnig lögmaður samtakanna. Erindin fjölluðu um hugmyndafræði SRFF og hverju þarf að huga að við rekstur mála, mismunandi tjáskiptaleiðir og viðeigandi aðlögun ásamt því að skyggnst var á bakvið tjöldin og reynslusögur sagðar um ólíkt ferðalag fatlaðs fólks í réttar- og dómskerfinu. Markmið málstofunnar var að fjalla um réttindi fatlaðs fólks þegar kemur að dómskerfinu og hverju dómstólar þurfa að huga að þegar fatlað fólk er annars vegar.

Ný námslína fyrir einhverft ungt fólk

Námslínan Forritun fyrir einhverft ungt fólk er kennd í fyrsta sinn við Opna Háskólann í Háskólanum í Reykjavík haustið 2025. Þetta nýja og sérhannaða menntunarúrræði HR er hluti af verkefni sem nýtur stuðnings ÖBÍ, Einhverfusamtakanna, Vinnumálastofnunar og VIRK. Markmiðið er að að veita einhverfu fólki jöfn tækifæri til náms, starfsþjálfunar og þátttöku í samfélaginu.

Námsleiðin er hugsuð fyrir 18 ára og eldri og sameinar tæknilega og gagnaúrvinnslu við markvissan félagslegan og persónulegan stuðning. Nemendur fá fræðilega og verklega þjálfun í litlum hópi þar sem áhersla er lögð á einstaklingsmiðað nám, sveigjanlega nálgun og að nýta styrkleika hvers og eins. Verkefnin eru áhugasviðstengd og hagnýt og má þar meðal annars nefna þróun leikja eða greiningu gagna.

Stórbætt stafrænt aðgengi á dagskrá

ÖBÍ réttindasamtök, menningar- og viðskiptaráðherra, Almannarómur – miðstöð máltækni og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) undirrituðu viljayfirlýsingu í október 2024 um að vinna saman að stórbættu stafrænu aðgengi fatlaðs fólks, með hjálp íslenskra máltæknilausna. Á meðal þeirra verkefna sem unnið er að er upplýsingagátt um helstu lausnir sem geta gagnast ýmsum hópum, stuðningur við stofnun raddbanka og aukinn kraftur í þróun á talgervilslausnum sem styðja við íslensku.

Í viljayfirlýsingunni voru settar fram fimm afmarkaðar aðgerðir sem byggja á niðurstöðum greiningarinnar. Ábyrgðaraðili hverrar aðgerðar er tilgreindur í viljayfirlýsingunni og var samþykkt að vinna að framgangi þeirra næsta árið. Nú í haust verða hagsmunaaðilar kallaðir saman á ný til að fara yfir árangur við framkvæmd aðgerðanna.

Mannréttindahúsið

— heimili mannréttindabaráttu á Íslandi

ÖBÍ rekur Mannréttindahúsið í Sigtúni 42, en þar sameinast fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendum. Mannréttindahúsið opnaði formlega í nóvember 2023 og er 2024 því fyrsta heila starfsárið. Samspil innan hússins og fjölbreytt viðburðahald hefur skapað tækifæri til tengsla, stuðnings, vitundarvakningar og þess að koma málum á dagskrá eða veita nýjum hugmyndum og lausnum kraft og brautargengi. Á þessum skamma tíma hefur Mannréttindahúsið orðið einstakur vettvangur fyrir samstarf um mannréttindi og umræðu á breiðum grunni sem aftur gefur tækifæri til að efla enn frekar hagsmunagæslu og réttindabaráttu fyrir fatlað fólk. Þá sýna kannanir almenna ánægju leigjenda í húsinu.

Samtökin í húsinu eru nú 26 talsins og fjöldi viðburða hefur verið haldinn á starfsárinu. Haldnir voru sex viðburðir undir merkjum Mannréttindadaga undir lok árs 2024 og má þar til dæmis nefna Mannréttindabíó og Jólabókamarkað. Þá voru haldnir fjórir Mannréttindamorgnar á starfsárinu þar sem fjallað var um fjölbreytt málefni út frá mannréttindavinklinum, má þar nefna sjálfbærni, tónlist, kvenréttindi, frið og öryggi svo eitthvað sé nefnt. Morgunkaffi á fimmtudögum er fastur liður og eru jafnan stutt og áhugaverð innlegg frá eða tengd aðilum í húsinu.

Öflug upplýsingagjöf og markviss miðlun

ÖBÍ réttindasamtök leggja mikla áherslu á að koma sínum áherslum og sjónarmiðum á framfæri við almenning. Þetta er gert með því að nýta fjölmiðla, samfélagsmiðla, innsendar greinar, auglýsingar og eigin vefsíðu.

Hvað varðar auglýsingar vöktu mesta athygli auglýsingaherferðirnar um Verðbólgudrauginn annars vegar og Spurning um réttindi hins vegar. Fyrri herferðin var unnin í samstarfi við BIEN, en síðarnefnda herferðin var sett fram í formi spurningaleiks og unnin í samstarfi við ENNEMM. Einnig var birtur nokkur fjöldi auglýsinga í samstarfi við ENNEMM, þá einna helst í tengslum við viðburði. Má þar til dæmis nefna alþjóðadag fatlaðs fólks 3. desember.

ÖBÍ er áfram mjög sýnilegt á samfélagsmiðlum og hefur mikil áhersla verið lögð á stöðugt flæði efnis inn á miðla ÖBÍ á starfsárinu. Þar birtast fréttatilkynningar, hlekkir á fréttir, skýringarefni, mannlífsefni, ljósmyndir, myndbönd og margt fleira.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á gerð stuttra myndbanda fyrir samfélagsmiðla á starfsárinu og hafa þau vakið umtalsverða athygli. Umfjöllunarefnið er mismunandi, allt frá kjarnamálefnum ÖBÍ yfir í staka viðburði.

Alls höfðu þessi myndbönd safnað ríflega 72.600 áhorfum í ágúst. Þar af 49.900 á Facebook, 8.000 á Instagram og 14.700 á TikTok. Öll myndböndin eru textuð. Til stendur að auka framleiðslu myndbanda sem þessara á næsta starfsári.

Sjónlýsing á myndbandi: Takan er fyrir utan Sky Lagoon í Kópavogi. Bergur Þorri hjá Sjálfsbjörgu talar við tvær konur.

Facebook, sá miðill sem er sennilega mest notaður á Íslandi, er hryggjarstykkið í samfélagsmiðlabirtingum ÖBÍ. Birtingar á Facebook náðu til fleiri en 240.000 notenda á tímabilinu og 136.000 á Instagram. Til samanburðar náðu birtingar til 102.000 notenda á Facebook á starfsárinu á undan og 16.000 á Instagram. Aukningin skýrist af auknu og bættu efni, fjölgun fylgjenda og kostuðum færslum.

Fylgjendum heldur ótt áfram að fjölga á samfélagsmiðlum ÖBÍ. Í fyrsta sinn eru fylgjendur á Facebook orðnir fleiri en 10.000 og er það fagnaðarefni. Fylgjendum á Instagram fjölgaði um ríflega 30% og á TikTok var fjölgunin meira en tíföld.

Ráðgjöf og þjónusta

Lögfræðingar og ráðgjafar ÖBÍ réttindasamtaka veita fötluðu fólki ráðgjöf því að kostnaðarlausu. Mikil þörf er á þessari þjónustu sem var vel nýtt á starfsárinu. Vikuleg símaráðgjöf á fimmtudögum hefur verið starfrækt frá áramótum 2023 og gefist mjög vel. Auk þess geta einstaklingar pantað viðtal við ráðgjafa.

Ástæður að baki málanna eru í grunninn þær sömu og fyrri ár: Réttindi fólks til framfærslu eru brotin sem og önnur mannréttindi eða þá ekki virt af stjórnsýslunni: ríki, sveitarfélögum og stofnunum.

 

Lífeyrisréttindi og synjanir

Helstu brotalamirnar varða lífeyrisréttindi frá TR og þá helst synjanir um örorkumat og endurhæfingarlífeyri. Skortur er á viðeigandi endurhæfingarúrræðum og fjöldi fólks leitar til ráðgjafa ÖBÍ vegna synjana um örorkumat hjá TR á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki fullreynd. Í mörgum þeirra mála sem koma inn á borð ráðgjafa hefur TR ekki sinnt leiðbeiningarskyldu stjórnsýsluréttar sem skyldi.

 

Kröfur frá TR vegna eingreiðslna

Fjöldi einstaklinga hefur leitað eftir ráðgjöf vegna krafna frá TR sem eru tilkomnar vegna eingreiðslna frá lífeyrissjóðum. Um er að ræða afturvirkar greiðslur og geta kröfurnar verið mjög íþyngjandi. Einungis lítill hluti eingreiðslunnar stendur eftir þegar búið er að draga frá staðgreiðslu og kröfur vegna tekjuskerðinga.

Það sem einkenndi tímabilið eins og árin tvö á undan var meðal annars mikil verðbólga og háir vextir. Það hefur þau áhrif að vextir og verðbætur verða umfram áætlanir greiðslutaka hjá TR og aukning verður á endurgreiðslukröfum. Einnig hefur aukist að leitað sé ráðgjafar vegna bréfa frá TR þar sem stofnunin telur að grunur sé um búsetu erlendis.

 

Vöntun á búsetuúrræðum og vanræktar skyldur

Ráðgjafar hafa veitt aðstoð í mörgum málum sem snúa að vöntun á búsetuúrræðum, auknu húsnæðisleysi og stuðningi frá sveitarfélögum. Einnig er vert að nefna önnur mál er varða lögbundna þjónustu ríkis og sveitarfélaga sem ekki er virt, til að mynda skort á heilbrigðisþjónustu, aðgengi að hjálpartækjum, heimaþjónustu, stuðningsþjónustu, heimahjúkrun, NPA, akstursþjónustu og aðstoð við fötluð börn í grunnskólum.

Einstaklingar sem leita til ÖBÍ vegna langrar viðveru á biðlista eftir húsnæði og/eða búsetuúrræðum á vegum sveitarfélaga fá ekki upplýsingar um stöðu sína á biðlista. Staðan er á skjön við dómafordæmi um að sveitarfélögum beri að upplýsa umsækjendur um stöðu á biðlista sé þess óskað.

Í apríl 2024 voru samþykktar á Alþingi breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga og tóku þær gildi 1. september 2025. Fjölmargir hafa haft samband við ráðgjafa ÖBÍ með spurningar er tengjast breyttu kerfi.

 

Hagsmunagæsla fatlaðs fólks af erlendum uppruna

ÖBÍ veitir fötluðu fólki á Íslandi þjónustu óháð uppruna og óháð því á hvaða grundvelli það dvelur á landinu. Við veitingu einstaklingsráðgjafar ÖBÍ hefur verið lögð áhersla á að hún sé aðgengileg öllu fötluðu fólki óháð uppruna. Gerður hefur verið samningur um aðgang að símatúlkun á flestum tungumálum. Þá hefur þekking á málefnum og réttindum fólks af erlendum uppruna verið bætt til muna.

Líkt og fyrri ár beitti ÖBÍ sér fyrir réttindum fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd. Tvö mál sem ÖBÍ lét sig varða voru áberandi í fjölmiðlum, annars vegar mál Yazans Tamimi, ellefu ára drengs með Duchenne vöðvarýrnunarsjúkdóm sem endursenda átti frá Íslandi til Spánar. Hins vegar mál þriggja ára gamallar stúlku frá Venesúela að nafni Emma Alessandra Reyes Portillo sem senda átti til baka þrátt fyrir að hafa ekki gengist undir fyrirhugaða aðgerð sem læknar töldu henni nauðsynlega. Gögn sem lágu fyrir í málunum tveimur bentu sterklega til þess að flutningur þeirra frá landinu myndi hafa slæm áhrif á heilsu þeirra og lífslíkur. Í báðum tilvikum fór svo að ekki varð af flutningi þeirra af landi brott.

Undanfarið hefur neikvæð umræða í garð fólks af erlendum uppruna færst í aukana á Íslandi. Mikilvægt er að ÖBÍ haldi því á lofti að allt fatlað fólk óháð uppruna nýtur til jafns verndar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Umræða sem etur saman viðkvæmum hópum vegna ólíks uppruna einstaklinga á ekki rétt á sér.

Styrkir

ÖBÍ leggur árlega fjölmörgum samtökum, verkefnum og einstaklingum lið með fjárframlagi. Samtökin styðja þannig meðal annars rannsóknir, réttindabaráttu, framfarir á málefnasviðinu, nám og velferð fatlaðs fólks. Á árinu 2024 námu styrkirnir alls um 537 milljónum króna.

 

Námsstyrkir

Markmiðið með námsstyrkjum ÖBÍ réttindasamtaka er að styrkja örorkulífeyristaka og einstaklinga á endurhæfingarlífeyri til formlegs náms sem greitt getur götu þess til atvinnu, sjálfstæðis og þátttöku.

Nýjar úthlutunarreglur tóku gildi á árinu, en námsstyrkir ÖBÍ byggja á þeim grunni sem lagður var með Námssjóði Sigríðar Jónsdóttur. Auglýst er eftir umsóknum um námsstyrki á heimasíðu ÖBÍ og á samfélagsmiðlum og fer úthlutun fram að hausti. Er styrkjunum ætlað að koma til móts við námskostnað, svo sem skráningar- og þátttökugjöld. Aðeins er styrkt til eins námskeiðs, annar eða námsárs í senn. Umsækjendum er frjálst að sækja um oftar en einu sinni haldi þeir námi áfram, að því tilskyldu að um framvindu sé að ræða.  Styrkupphæðir eru ákvarðaðar í hvert sinn í samræmi við umsóknir og fjárheimildir.

 

Verkefnastyrkir

ÖBÍ réttindasamtök veita árlega styrki í verkefni sem tengjast hagsmunum fatlaðs fólks og eru í samræmi við markmið og stefnu samtakanna. ÖBÍ hefur úthlutað 65,5 milljónum króna í styrki til samtals 49 verkefna á starfsárinu. Alls sóttu 73 um verkefnastyrk og var því meiri en helmingur umsækjenda styrktur.

 

Styrkir til aðildarfélaga

ÖBÍ veitir aðildarfélögum sínum rekstrarstyrki árlega að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Styrkirnir eru ætlaðir til stuðnings við reglulega starfsemi og rekstur félaganna. Alls sóttu 36 félög um styrki árið 2025 og nam heildarúthlutun 148.884.619 kr.

Innra starf

Innra starf ÖBÍ er sterkt og blómlegt. Skipulag innra starfs skiptir verulegu máli í jafnstórum samtökum og ÖBÍ þannig að raddir ólíkra hópa og einstaklinga fái hljómgrunn. Þar leika málefnahópar samtakanna og UngÖBÍ stórt hlutverk.

Stjórn fer með æðsta vald í málefnum ÖBÍ á milli aðalfunda og hefur það meginhlutverk að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Framkvæmdaráð afgreiðir mál milli stjórnarfunda og leggur meiriháttar mál í hendur stjórnar. Á starfsárinu voru haldnir 12 stjórnarfundir og 11 fundir framkvæmdaráðs.

Öflugur hópur leggur baráttunni lið með þátttöku í fjölbreyttum nefndum og ráðum fyrir hönd ÖBÍ. Innan ÖBÍ eru starfræktar kjörnefnd, laganefnd og siðanefnd auk skoðunarmanna reikninga, dómnefnd Hvatningarverðlauna ÖBÍ og úthlutunarnefnd námssjóðs. Sömuleiðis á ÖBÍ fulltrúa í fjölda ráða og nefnda á vegum ríkis og sveitarfélaga og í stjórnum fyrirtækja. Sjá: Fulltrúar í stjórn og nefndum – ÖBI

 

Vinnustaðurinn ÖBÍ

Öflugt fólk í innra og ytra starfi ÖBÍ er og verður lykillinn að árangri og er markvisst unnið að því að viðhalda kraftmiklu og faglegu samfélagi innan samtakanna.

Skrifstofa ÖBÍ réttindasamtaka er í Mannréttindahúsinu og er það miðpunktur daglegrar starfsemi samtakanna. ÖBÍ leggur ríka áherslu á að vera vinnustaður þar sem allir njóta virðingar, jafnréttis og viðeigandi aðlögunar. Jafnframt að samskipti séu opin og uppbyggileg og sameiginlega vinni fjölbreyttur hópur starfsfólks að því að skapa sterka liðsheild og góðan starfsanda þar sem áskorunum er mætt af hugrekki og ábyrgð, en ekki síður samheldni og gleði.

Áhersla er lögð á að fá til starfa hæft fólk sem tilbúið er að vinna sem hluti af liðsheild og í anda jafnræðis – jafnframt að því sé búið jákvætt, öruggt og hvetjandi vinnuumhverfi. Teymisfyrirkomulag er við lýði og hefur gefið góða raun. Teymin vinna að stefnu ÖBÍ á tilteknum sviðum; dómsmála, málefnastarfs, ráðgjafar, umsagna og stoðþjónustu. Teymisstjórar heyra undir framkvæmdastjóra, en hafa málefnatengt samráð við forystu samtakanna eftir því sem við á. Vikulegir starfsmannafundir leggja grunn að góðu upplýsingaflæði, ásamt markvissri endurgjöf í gegnum starfsmannasamtöl og stöðufundi. Boðið er upp á hlutastörf og sveigjanlegan vinnutíma, þá var og tekinn upp svokallaður betri vinnutími á árinu og hefur sú ráðstöfun gefið góða raun. Hugað er að fræðslu og heilsueflingu þar sem stutt er við andlega og líkamlega heilsu.

Lögð hefur verið áhersla á að bjóða starfsnema velkomna – og nú úr náminu Færni á vinnumarkaði, um 11 vikna skeið var að ræða á vormánuðum. Þá fór starfsmannahópurinn í heimsóknir til samstarfsaðila og kynnti sér starfsemi þeirra. Er þetta hluti af því að styrkja samstarf og samtal milli aðila.

Eftirtaldir starfsmenn störfuðu á skrifstofu bandalagsins í ágúst 2025: Andrea Valgeirsdóttir, Ágústa Dröfn Guðmundsdóttir, Guðjón Sigurðsson, Gunnar Alexander Ólafsson, Jóhanna Gunnarsdóttir, Kjartan Þór Ingason, Kristín Margrét Bjarnadóttir, Margrét Ögn Rafnsdóttir, Rósa María Hjörvar, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, Sigurður Árnason, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, Stefán Vilbergsson, Sunna Elvira Þorkelsdóttir, Þórgnýr Einar Albertsson og Þórný Björk Jakobsdóttir. Alma Ýr Ingólfsdóttir er formaður ÖBÍ, Vilhjálmur Hjálmarsson varaformaður og Eva Þengilsdóttir framkvæmdastjóri.

 

Formannafundir

Haldnir voru tveir formannafundir á starfsárinu. Sá fyrri þann 13. september 2024 þar sem fulltrúi frá utanríkisráðuneytinu hélt fróðlegan fyrirlestur um þróunarsamvinnu. Var meðal annars farið yfir möguleika á styrkjum til félagasamtaka vegna verkefna í þróunarsamvinnu. Sömuleiðis fór lögfræðingur á skrifstofu ÖBÍ yfir ráðgjöf og hagsmunagæslu í þágu fatlaðs fólks af erlendum uppruna og fulltrúi frá Vinnumálastofnun kom inn á fundinn með erindi um það sem stofnunin er með í pípunum varðandi atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk.

Seinni fundurinn fór fram 3. apríl 2025 þar sem Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra hélt erindi um helstu verkefni ráðuneytisins þessa dagana. Sömuleiðis voru til umræðu UNNDÍSarverkefnið og vinna við gerð umsagnar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Öflugt fræðslustarf

Markmiðið með fræðslustarfi ÖBÍ er að styrkja starf bandalagsins og styðja við aðildarfélögin og mikilvæga starfsemi þeirra í þágu fatlaðs fólks. Í fræðslustefnu ÖBÍ sem sett var haustið 2021 segir meðal annars: „ÖBÍ stendur fyrir fræðslu og þjálfun fyrir aðildarfélögin, einnig fyrir eigin stjórn, nefndir og starfsfólk. Jafnframt vinnur ÖBÍ með háskóla- og rannsóknasamfélaginu að því að skapa og auka þekkingu á réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks.“

Námsstefna ÖBÍ var haldin á haustmánuðum 2024. Markmiðið með henni er að stilla saman strengi og undirbúa fólk, í innra starfi bandalagsins sem og starfsfólk, undir vetrarstarfið. Þátttakendur fengu kynningu á stefnu, skipulagi og rekstri ÖBÍ, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hlutverki stjórnarfólks, miðlun, siðareglum og EKKO viðbragðsáætlun bandalagsins. Þá var fjallað um samskipti og samstarf, ábyrgð stjórnarmanna og tækifæri á sviði gervigreindar.

Fimm námskeið voru haldin í Fræðsluröð ÖBÍ fyrir aðildarfélögin, þau voru:

Fjárlagafrumvarpið krufið – 24. september 2024

Leiðbeinandi: Ágúst Ólafur Ágústsson

Sáttamiðlun og árangur félaga – 13. nóvember 2024

Leiðbeinandi: Lilja Bjarnadóttir

Af hverju sveitarfélögin? Þjónusta í nærumhverfi – 22. janúar 2025

Leiðbeinendur voru sérfræðingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Verkefnastjórnun – 12. mars 2025

Leiðbeinandi: Haukur Ingi Jónasson

Hvernig geta öryrkjar verið sjálfstætt starfandi? 19. mars 2025

Opið námskeið í samstarfi við Kjarahóp ÖBÍ. Leiðbeinandi: Jóna Arnar Baldurs

Erlent samstarf

Alþjóðasamstarf er mjög mikilvægt í réttindabaráttu fatlaðs fólks og er ein skýrasta birtingarmynd þess vinna við og gerð samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Erlent samstarf felur í sér samtal og samvinnu þvert á þjóðir þar sem aðgerðir og áætlanir eru samræmdar, heildræn stefna verður til og speglun í reynslu og þekkingu. Reynt er eftir fremsta megni að taka þátt í hvers konar viðburðum, bæði í gegnum fjarfundarbúnað og með því mæta á staðinn, til þess að dýpka þekkingu og efla tengslanet. Þátttaka í erlendu samstarfi eflir ÖBÍ og þannig tökum við þátt í að bæta stöðu fatlaðs fólks um allan heim.

Norrænt samstarf

ÖBÍ tekur þátt í Rådet för nordiskt samarbete om funktionshinder (RNSF), sem er ráðgefandi og stefnumarkandi ráð varðandi málefni fatlaðs fólks fyrir Norrænu ráðherranefndina og samstarfsaðila hennar. Í ráðinu sitja fulltrúar fötlunarsamtaka frá öllum Norðurlöndunum ásamt starfsfólki ráðuneyta. Fundirnir eru haldnir tvisvar sinnum á ári og er ætlað að upplýsa hvað ber hæst í hverju landi.

ÖBÍ réttindasamtök taka þátt í fundum heildarsamtaka fatlaðs fólks á Norðurlöndum, Handikapporganisationernas nordiska råd (HNR) sem haldnir eru tvisvar sinnum ári. Tíðkast hefur að halda fyrri fundinn í aðdraganda eða kjölfar fundar RNSF og seinni fundurinn er rafrænn. Fundirnir eru bæði upplýsandi og gefandi og gott að geta speglað þau mál sem ÖBÍ vinnur að hverju sinni. Þá er mikilvægt að tengjast fólki og félögum sem vinna að sömu hagsmunum.

 

Evrópu- og alþjóðasamstarf

ÖBÍ er aðili að Evrópusamtökum fatlaðs fólks (EDF) og sóttu formaður, lögfræðingur skrifstofu ÖBÍ auk Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, stjórnarmanni í EDF, aðalfund samtakanna í Vilnius í apríl 2025. Þema fundarins var meðal annars sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks og löghæfi sem er lykilhugtak 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Fulltrúar frá ÖBÍ sóttu sömuleiðis viðburði á vegum Sameinuðu þjóðanna er tengdust fötluðu fólki á starfsárinu. Voru fulltrúar viðstaddir Kvennaþing SÞ í mars 2025 og þing Sameinuðu þjóðanna um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks, COSP-18, í júní 2025.

Fjármál

Rekstur ÖBÍ réttindasamtaka gengur vel og styrktist fjárhagsleg staða samtakanna enn frekar á árinu. Óvæntar kosningar síðla árs 2024 kölluðu á endurskoðun áætlana og skjót viðbrögð. Áhersla er lögð á að viðhalda hagkvæmni í rekstri og ábyrgri meðferð fjármuna, á sama tíma og starfsemin hefur markvisst verið efld. Efnhagsreikningurinn sýnir trausta eiginfjárstöðu, skuldahlutfall er lágt og lausafjárstaðan góð.

Tekjur ÖBÍ koma sem fyrr að langstærstum hluta frá Íslenskri getspá og er erfitt að áætla þær fyrirfram. Tekjuflæði jókst milli ára og í lok árs barst veglegt viðbótarframlag frá Íslenskri getspá og var rekstrarafkoma ársins jákvæð um kr. 263 milljónir. Bókfært verð eigna nam í árslok 2024 kr. 528 milljónum og eigið fé samtakanna kr. 1.498 milljónum. Staðan tryggir svigrúm til áframhaldandi öflugrar starfsemi, á sama tíma og ÖBÍ er vel í stakk búið til að bregðast við erfiðum ytri aðstæðum án þess að það hafi áhrif á rekstrarhæfi samtakanna.

Á árinu 2024 veitti ÖBÍ, auk eigin fyrirtækja og aðildarfélaga, fjölmörgum samtökum, verkefnum og einstaklingum styrki að upphæð alls kr. 620 milljónir. Samtökin studdu þannig húsnæðis- og þjónustulausnir í þágu fatlaðs fólks, rannsóknir, réttindabaráttu, framfarir á málefnasviðinu, nám og velferð fatlaðs fólks. Við ráðstöfun rekstrarafgangs ársins var meðal annars samþykkt að leggja kr. 100 milljónir í verkefnið Skjöld, samstarfsverkefni Hringsjár, Brynju og ÖBÍ um húsnæði fyrir nemendur Hringsjár og hins vegar 50 milljónir til annarra samstarfsverkefna sem stuðla að bættri stöðu fatlaðs fólks. Þess má geta að þegar hefur verið fjárfest í fjórum tveggja herbergja íbúðum í næsta nágrenni við Hringsjá.

Skýrslur málefnahópa

Innan ÖBÍ starfa málefnahópar sem fjalla um aðgengismál, atvinnu- og menntamál, heilbrigðismál, húsnæðismál, kjaramál og málefni barna auk ungliðahreyfingarinnar UngÖBÍ.

Málefnahóparnir koma að ritun umsagna ásamt starfsmönnum ÖBÍ og annast fjölbreytt verkefni, hver á sínu sviði. Hóparnir héldu nokkurn fjölda viðburða á starfsárinu og sinntu samhliða því öðrum mikilvægum verkum sem lesa má nánar um aftar í skýrslunni.

Á árinu 2024 veitti ÖBÍ, auk eigin fyrirtækja og aðildarfélaga, fjölmörgum samtökum, verkefnum og einstaklingum styrki að upphæð alls kr. 620 milljónir. Samtökin studdu þannig húsnæðis- og þjónustulausnir í þágu fatlaðs fólks, rannsóknir, réttindabaráttu, framfarir á málefnasviðinu, nám og velferð fatlaðs fólks.

Við ráðstöfun rekstrarafgangs ársins var meðal annars samþykkt að leggja kr. 100 milljónir í verkefnið Skjöld, samstarfsverkefni Hringsjár, Brynju og ÖBÍ um húsnæði fyrir nemendur Hringsjár og hins vegar 50 milljónir til annarra samstarfsverkefna sem stuðla að bættri stöðu fatlaðs fólks. Þess má geta að þegar hefur verið fjárfest í fjórum tveggja herbergja íbúðum í næsta nágrenni við Hringsjá.

Aðgengishópur

Á tímabilinu lagði aðgengishópur megináherslu á samgöngur, en einnig á aðgengi að mannvirkjum og viðbragðsáætlanir.

Þrátt fyrir að stæðiskorthafar séu undanskyldir gjaldtöku lögum samkvæmt hafa þeir verið rukkaðir um stöðugjöld í gegnum sjálfvirkt myndavélaeftirlit. Hópurinn hefur lengi krafist lagfæringar þar á og nú stefnir í stafræna lausn í gegnum Sýslumann.

Almenningssamgöngur eiga að vera fyrir öll en oft eru farartæki og biðstöðvar því miður óaðgengilegar. Sérstaklega var þrýst á úrbætur á flugrútunni og aðstöðu tengdri henni og tókst að fá inn sérstaka áherslu á aðgengi í stefnu stjórnvalda um bættar samgöngur milli höfuðborgar og Keflavíkurflugvallar.

Umferðarmerki fyrir bílastæði hreyfihamlaðra, sem hópurinn fékk samþykkt í reglugerð, hafa nú verið afhent Reykjavíkurborg og Sky Lagoon. Fleiri merki verða afhent á næstunni til að vekja athygli á mikilvægi bílastæðanna og merkingar þeirra.

Þegar kom í ljós að ákvæði um 25 metra fjarlægð frá bílastæði hreyfihamlaðra að inngangi hafði fallið úr byggingarreglugerð hófst barátta hópsins fyrir því að fá ákvæðið inn í reglugerðina að nýju. Það er óhætt að segja að baráttan hafi borið árangur í vor þegar ráðherra setti ákvæðið inn að nýju.

Í samstarfi við Vinnumálastofnun hefur verið stofnaður sérstakur ráðgjafarhópur sem falið hefur verið að leiðbeina atvinnurekendum um aðlögun húsnæðis. Hópurinn, sem skipaður er fulltrúum úr aðildarfélögum ÖBÍ, tekur til starfa í kjölfar breytinga á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga sem tóku gildi 1. september 2025.

Samstarf við Brynju leigufélag um leiðbeiningar fyrir fyrirmyndaríbúðir er langt komið og má vænta útgáfu leiðbeininganna innan tíðar.

Hópurinn hefur jafnframt fundað reglulega með Almannavörnum með það að markmiði að bæta viðbragðsáætlanir svo tryggt sé að fötluðu fólki verði bjargað í neyð. Starfsmaður tók þátt í alþjóðlegu samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um sama málefni.

Frá ágúst 2024 til júní 2025 hélt hópurinn 11 fundi. Þá voru fjölmargir fundir haldnir með haghöfum, umsagnir skrifaðar um frumvörp og reglugerðir og unnin minnisblöð og greinar um stöðu mála.

  • Formaður, Bergur Þorri Benjamínsson
  • Starfsmaður, Stefán Vilbergsson

Atvinnu – og menntahópur

Atvinnu- og menntahópurinn vinnur að því að efla réttindi, tækifæri og sýnileika fatlaðs fólks á vinnumarkaði og í menntakerfinu. Hópurinn beindi sjónum sér í lagi að áhrifum á gildistöku breytinga á örorklífeyriskerfi almannatrygginga, hlutastörfum og vitundarvakningu meðal atvinnurekenda.

Breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatryggingalaga tóku gildi 1. september 2025 og fela í sér grundvallar kerfisbreytingar. Hópurinn skoðaði sérstaklega áhrif nýrrar skilgreiningar á starfsgetu og frítekjumörk, á vilja fólks til að vinna hlutastörf, öryggi í starfi og áhættu atvinnurekenda. Hópurinn greindi framboð á hlutastörfum og lagði áherslu á að störf sem í boði eru henti fjölbreyttum hópi fatlaðs fólks með mismunandi menntun og reynslu. Markmiðið er að tryggja raunverulegt val og sveigjanleika fyrir alla sem vilja og geta tekið þátt á vinnumarkaði. Nauðsynlegt er að safna gögnum og reynslusögum til að meta áhrif laganna eftir gildistökuna.

Menntun er forsenda atvinnuþátttöku og sjálfstæðis en tækifæri til náms eru enn of takmörkuð vegna hindrana í kerfinu og skorts á viðeigandi aðlögun. Vinna við ný lög um fullorðinsfræðslu var stöðvuð, sem olli vonbrigðum og skapar biðstöðu. Enn er lítið framboð á námi fyrir fólk með miklar stuðningsþarfir og er mikilvægt að auka fjölbreytni þess sem er í boði.

Hópurinn undirbjó málþing um fullorðinsfræðslu, sem var frestað, og stóð einnig að námskeiði um sjálfstæðan atvinnurekstur öryrkja í samstarfi við kjarahóp ÖBÍ. Þátttakan var gríðarlega góð og er námskeið af þessum toga eitthvað sem mætti endurtaka.

Þrátt fyrir áskoranir hafa orðið jákvæðar breytingar á viðhorfum. Skilningur á því að fatlað fólk hafi fjölbreyttan bakgrunn og getu hefur aukist og sýnileiki málefnanna stóraukist, meðal annars með greinaskrifum, vitundarvakningu og verkefninu Unndísi.

Málefnahópurinn leggur áherslu á að halda áfram baráttunni: að tryggja viðeigandi aðlögun í námi, fjölbreytt störf við hæfi og raunverulega möguleika fatlaðs fólks til þátttöku í samfélaginu.

  • Formaður, Hrönn Stefánsdóttir
  • Starfsmaður, Sunna Elvira Þorkelsdóttir

Barnamálahópur

Barnamálahópur ÖBÍ hefur unnið að því að tryggja réttindi fatlaðra barna í námi, íþróttum og daglegu lífi og undirbúið af krafti útgáfu kennslubókar sem fer í grunnskóla haustið 2025.

Hópurinn fékk styrk frá barna- og menntamálaráðuneytinu til að gefa út kennslubók og kennsluleiðbeiningar í samstarfi við Menntamálastofnun. Bókin sem ber heitið Pógó verður kynnt í skólum af hópnum ásamt höfundi hennar, Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, og einnig verður gefin út hljóðbók lesin af höfundi. Hjalti Halldórsson er höfundur kennsluleiðbeininganna ásamt Bergrúnu Írisi.

Einnig hefur hópurinn átt samtal við Ross Ashcroft, hjá Australian Sporting Alliance for People with a Disability, um þátttöku fatlaðra barna í íþróttum. Þá er unnið að sameiginlegu ungmennaþingi með Umboðsmanni barna haustið eða veturinn 2025-26. Starfsmaður barnamálahópsins situr í Barnaréttindavaktinni sem kemur meðal annars að því að skipa árlega talsmenn barna á Alþingi og fjalla um réttindi barna á flótta.

Starfsmaður hefur ásamt meðlimum hópsins sótt ýmsar ráðstefnur og fundi og má þar nefna fund um áfengis- og vímuvarnarstefnu, málþing um kynferðisofbeldi gegn börnum með notkun gervigreindar, fjarnámskeiðið Forvarnir og fræðsla um kynferðisofbeldi gegn börnum, Reykjavík fyrir ungmenni – opinn fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkurborgar, velferðarkaffi hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, málþingið Er farsæld tryggð í fósturmálum?, vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar. Meðlimir hópsins hafa svo átt fundi með velferðarsviði Reykjavíkurborgar meðal annars um skólann í skýjunum.

  • Formaður, Sif Hauksdóttir
  • Starfsmaður, Andrea Valgeirsdóttir

Heilbrigðishópur

Lyfjaöryggi, geðheilbrigði, heyrnarþjónusta, hjálpartæki og rannsókn á greiðsluþátttökukerfinu voru stóru verkefnin sem heilbrigðishópurinn vann að á tímabilinu.

Í október 2024 tók hópurinn þátt í verkefninu „Lyf án skaða“ í samstarfi við embætti landlæknis og heilsugæsluna. Þar var haldið málþing um sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga og lyfjaöryggi og í kjölfarið hófust fræðsluherferðir um réttindi sjúklinga til upplýsinga og öryggis.

Eftir áramót færðist áherslan yfir á geðheilbrigðismál. Í apríl stóð hópurinn fyrir málþingi undir yfirskriftinni „Geðheilbrigði fyrir öll“, þar sem fjallað var sérstaklega um aðgengi fatlaðs fólks að fyrsta stigs geðheilbrigðisþjónustu. Málþingið var vel sótt og vakti mikla athygli.

Hópurinn studdi jafnframt við starfshópa á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Annars vegar starfshóp um heyrnarþjónustu þar sem framundan eru verulegar breytingar og hins vegar starfshóp um úthlutun hjálpartækja sem skilaði skýrslu til ráðherra í maí. Skýrslan var í samræmi við áherslur ÖBÍ og var kynnt ráðherra á fundi sem formaður hópsins og formaður ÖBÍ sóttu saman.

Þá fékk hópurinn stuðning frá stjórn ÖBÍ til að hefja umfangsmikla rannsókn í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands á stöðu fatlaðs fólks innan greiðsluþátttökukerfisins. Rannsóknin mun standa yfir næstu ár og gefa mikilvægt tilefni til umræðu. Fyrstu niðurstöður eru væntanlegar fyrir áramót 2026.

Auk þess skrifaði hópurinn greinar í fjölmiðla, samdi umsagnir um frumvörp, reglugerðir og stefnur og hélt reglulega fundi og samráð við notendaráð um hjálpartækjalöggjöf.

  • Formaður, Telma Sigtryggsdóttir
  • Starfsmaður, Rósa María Hjörvar

Húsnæðishópur

Húsnæðishópurinn setti fram kröfur um raunverulegar lausnir, beitti stjórnvöld þrýstingi og stóð fyrir umræðu um stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði á starfsárinu.

Í september 2024 sendi hópurinn áskorun til Seðlabanka Íslands um að lækka stýrivexti og í aðdraganda alþingiskosninga í nóvember 2024 tók hópurinn þátt í að móta áherslur ÖBÍ í húsnæðismálum. Lengi vel hefur hópurinn talað fyrir stofnun aðgengis- og aðlögunarsjóðs undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun(HMS), að norskri fyrirmynd, og fagnaði hópurinn því að áform eru um slíkan sjóð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Í maí 2025 stóð hópurinn fyrir málþinginu „Þetta er allt í vinnslu… húsnæðistækifæri ungs fatlaðs fólks“. Þar kom fram að ungt fatlað fólk fær ekki tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi til jafns við jafnaldra sína þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda um lausnir. Málþingið var fjölmennt og vakti mikla athygli, þar á meðal kjörinna fulltrúa og áhrifafólks. Í kjölfarið fóru starfsmaður og formaður hópsins í viðtal á Samstöðinni þar sem farið var yfir niðurstöður og tillögur til úrbóta.

Á lokaspretti tímabilsins samþykkti hópurinn að hefja undirbúning að nýrri rannsókn á húsnæðismálum fatlaðs fólks. Fyrri rannsókn var birt árið 2022 og markmiðið er nú að safna nýjum upplýsingum og fá betri yfirsýn yfir þróun búsetu fatlaðs fólks.

Sjónarmið hópsins og ÖBÍ í húsnæðismálum komu jafnframt sterkt fram í opinberri umræðu með fjórum skoðanagreinum í Vísi, sjónvarpsviðtölum á Samstöðinni og útvarpsviðtali á Bylgjunni.

  • Formaður, María Pétursdóttir
  • Starfsmaður, Kjartan Þór Ingason

Kjarahópur

Verkefni kjarahópsins snérust á tímabilinu einkum um breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatryggingalaga, öfluga þátttöku í kosningaumræðum og vitundarvakningu með viðburðum og herferðum.

Í aðdraganda alþjóðlega baráttudagsins gegn fátækt, 17. október, framleiddi hópurinn „Vissir þú?“ myndbönd í samstarfi við upplýsingafulltrúa ÖBÍ, með staðreyndum úr skýrslu Vörðu rannsóknastofnunar og niðurstöðum Gallup könnunar. Myndböndin voru birt á samfélagsmiðlum og grein frá meðlimum hópsins birtist í tilefni dagsins.

Óvænt stjórnarslit og alþingiskosningar 30. nóvember 2024 höfðu mikil áhrif á starf hópsins. Uppfærðar voru áherslur í kjaramálum og samdi kjarahópurinn spurningar til frambjóðenda fyrir kosningafund ÖBÍ 5. nóvember. Í kjölfar þess ræddi hópurinn einnig fjárlög, fjármálaáætlun og frumvörp um aldursviðbót, tengingu við launavísitölu og nýtt greiðslu- og matskerfi sem tók gildi 1. september 2025.

Í mars 2025 stóð hópurinn, í samstarfi við atvinnu- og menntahópinn, fyrir vinsælu námskeiði um sjálfstæðan atvinnurekstur öryrkja. Aðsókn var svo mikil að loka varð fyrir skráningu og í skoðun er að endurtaka námskeiðið. Hópurinn tók jafnframt virkan þátt í undirbúningi 1. maí þar sem yfirskriftin var „Sköpum störf við hæfi“ og kröfuspjöld með fjölbreyttum slagorðum voru borin í göngunni.

Kjarahópurinn hafði einnig samskipti við Landssamtök eldri borgara (LEB) vegna mögulegs samstarfs í sameiginlegum baráttumálum, sendi bréf til félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á reglugerð um heimilisuppbót vegna ungmenna öryrkja og átti í samtali um frumvarp um kílómetragjald. Þá er í undirbúningi kortlagning á aðgengi örorku- og endurhæfingarlífeyristaka að stéttarfélögum.

Á tímabilinu skrifuðu meðlimir hópsins fjölmargar greinar í fjölmiðla, sömdu drög að kjaramálstexta fyrir ályktun aðalfundar ÖBÍ og tóku þátt í fjölmörgum viðburðum til að vekja athygli á stöðu fatlaðs fólks í kjaramálum.

  • Formaður, Geirdís Hanna Kristjánsdóttir
  • Starfsmaður, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir

UngÖBÍ

UngÖBÍ beitti sér fyrir valdeflingu ungs fatlaðs fólks og inngildingu þess og tók þátt í alþjóðlegu samstarfi á starfsárinu.

Stærsti viðburður ársins var Þjóðfundur ungs fólks sem haldinn var 1. febrúar 2025 í samstarfi við Landssamband ungmennafélaga (LUF) og Landssamband íslenskra stúdenta (LÍS). Fundurinn snerist um inngildingu, jafnrétti og aðgengi að menntun. Þar tóku 63 ungmenni virkan þátt, deildu reynslu sinni og lærðu hvert af öðru. Kastljósinu var beint að hindrunum í menntakerfinu og leiðum til úrbóta. Fundurinn vakti mikla athygli og fékk umfjöllun í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Í nóvember 2024 var haldið námskeiðið „Framkoma á eigin forsendum“ í samstarfi við KVAN. Þar fengu ungir þátttakendur verkfæri til að efla sjálfstraust, bæta framkomu og styrkja samskiptahæfni sína.

UngÖBÍ skilaði jafnframt inn umsögn um fjárlagafrumvarp 2025 með tillögum sem styrkja stöðu ungs fatlaðs fólks í samfélaginu, birti tvær skoðanagreinar í Vísi og hélt tvo viðburði til viðbótar.

Á alþjóðavettvangi var UngÖBÍ virkt, sérstaklega í norrænu samstarfi. Í júní 2025 sóttu formaður og starfsmaður hreyfingarinnar 18. þing aðildarríkja um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar var formaður meðal ræðumanna á hliðarviðburði Norræna ráðherraráðsins, Finnlands og UN Women um aðgengilega og inngildandi gervigreind.

Í ræðu sinni fjallaði formaðurinn um eigin reynslu og lagði áherslu á að ef ekkert verði að gert muni gervigreind endurvekja misgóð samfélagsleg viðhorf. Nauðsynlegt sé að vakta fordóma í forritunum og tryggja að þau séu þjálfuð með efni sem endurspegli mannlegan fjölbreytileika.

  • Formaður, Eiður Welding
  • Starfsmaður, Kjartan Þór Ingason

Fyrirtæki

ÖBÍ er einn eignaraðila Íslenskrar getspár, en samtökin eiga 40% í fyrirtækinu. Þá er ÖBÍ eigandi Örtækni ehf., stofnandi Brynju leigufélags ses. og Hringsjár, náms- og starfsendurhæfingar. Einnig eru samtökin aðili að Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð og TMF Tölvumiðstöð. ÖBÍ skipar stjórnir fyrrnefndra aðila að hluta eða öllu leyti.

ÖBÍ er stolt af fyrirtækjum sínum sem hvert um sig er í fararbroddi á sínu sviði. Starfsemi fyrirtækjanna spannar afar vítt svið, allt frá atvinnu- og húsnæðislausnum til náms- og starfsendurhæfingar. Í fjórum af fimm fyrirtækjum urðu stjórnendaskipti á árinu – í öllum tilvikum eftir farsælt starf. ÖBÍ þakkar fráfarandi stjórnendum fyrir þeirra mikilvæga framlag og óskar nýjum velfarnaðar.

BRYNJA

Brynja, leigufélag sem á og rekur íbúðir fyrir fatlað fólk. Tilgangi sínum nær félagið með því að kaupa og byggja leiguíbúðir.

Tengill á brynjaleigufelag.is

Fjölmennt

Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð sinnir námskeiðahaldi fyrir fatlað fólk og veitir ráðgjöf um nám við aðrar menntastofnanir.

Tengill á fjolmennt.is

Hringsjá

Náms- og starfsendurhæfing, er fyrir fólk sem hafa verið frá vinnumarkaði eða námi eftir veikindi, slys, félagslega erfiðleika eða önnur áföll.

Tengill á hringsja.is

ÖBÍ á 40% hlut í Íslenskr getspá sem skilað hefur samtökunum öruggum tekjum á undanförnum áratugum og skipt sköpum í rekstri þeirra.

Tengill á games.lotto.is/

TMF

TMF, tölvumiðstöð, sinnir ráðgjöf og námskeiðahaldi til einstaklinga og faghópa um tölvuforrit og sérhannaðan hugbúnað.

Tengill á tmf.is

Örtækni

Örtækni, tæknivinnustofa – ræsting veitir fötluðu fólki tímabundna starfsþjálfun og/eða vinnu til frambúðar.

ÖBÍ er stolt af fyrirtækjum sínum sem hvert um sig er í fararbroddi á sínu sviði. Starfsemi fyrirtækjanna spannar afar vítt svið, allt frá atvinnu- og húsnæðislausnum til náms- og starfsendurhæfingar. Í fjórum af fimm fyrirtækjum urðu stjórnendaskipti á árinu – í öllum tilvikum eftir farsælt starf. ÖBÍ þakkar fráfarandi stjórnendum fyrir þeirra mikilvæga framlag og óskar nýjum velfarnaðar.

Rekstarreikningur

Rekstrarreikningur

2024

2023

Rekstrartekjur

Framlag frá Íslenskri getspá 1.234.350.819 1.128.310.505
Leigutekjur 29.074.928 23.408.307
Aðrar tekjur 25.784.769 15.095.371
Tekjur samtals 1.289.210.516 1.166.814.183

Rekstrargjöld

Styrkir og framlög 621.726.727 537.155.860
Laun og launatengd gjöld 286.684.654  260.265.952
Hækkun lífeyrisskuldbindinga 9.027.504  10.861.423
Annar rekstrarkostnaður 166.277.436  242.509.618
Afskriftir 11.023.753 12.772.929
Gjöld samtals 1.094.740.074 1.063.565.782
Rekstrarafkoma (-tap) fyrir skatta 194.470.442 103.248.401

Fjármunatekjur og (-gjöld)

Vaxtatekjur og verðbætur 60.881.394 44.048.879
Vaxtagjöld, gengistap og verðbætur (569.179) (275.117)
254.782.657 147.022.163

Efnahagsreikningur

2024

2023

Fastafjármunir

Fasteign 526.384.769 537.127.315
Áhöld, búnaður og innréttingar 1.836.269 2.117.476
Stofnframlag 2.065.000 2.065.000
Bundnar innistæður – Arfur ÓGB 106.141.092 100.528.095
Bundnar innistæður – Varasjóður ÖBÍ 164.334.921  155.649.963
Fastafjármunir samtals 800.762.051  797.487.849

Veltufjármunir

Markaðsverðbréf 52.269.123 0
Aðrar skammtímakröfur 80.614.682 134.023.594
Eignarhlutur í öðrum félögum 500.000 0
Handbært fé 656.883.025 475.227.279
Veltufjármunir samtals 790.266.830  609.250.873
Eignir samtals 1.591.028.881 1.406.738.722

Eigið fé í árslok

Eigið fé 1.489.552.523 1.234.769.866
Skuldir 101.476.358 171.968.856
Eigið fé og skuldir 1.591.028.881 1.406.738.722

Aðalfundur ÖBÍ 2024 í myndum