Skip to main content
AðgengiUmsögn

Aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026

By 9. maí 2023júní 19th, 2024No Comments

„Hugmyndafræði algildrar hönnunar felur í sér að ávallt skuli frá fyrstu drögum hönnunar horfa til þess að hún nýtist því fólki sem helst á í hættu að verða útundan“

Umsögn ÖBÍ um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að lögð sé fram aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs. Mikil þörf er á að auka þekkingu á inntaki og framkvæmd algildrar hönnunar meðal arkitekta og hönnuða, meðal annars með aukinni áherslu í námi og endurmenntun.

ÖBÍ leggur áherslu á að í áætluninni sé aðgerð um að efla kennslu algildrar hönnunar í námi hönnuða, arkitekta, iðnaðarfólks, byggingafræðinga og verkfræðinga. ÖBÍ leggur enn fremur áherslu á að í áætluninni sé aðgerð um að útbúa kennsluefni og leiðarvísa um útfærslu hönnunar og framkvæmdar til að uppfylla sem best skilyrði algildrar hönnunar.

Hugmyndafræði algildrar hönnunar felur í sér að ávallt skuli frá fyrstu drögum hönnunar horfa til þess að hún nýtist því fólki sem helst á í hættu að verða útundan og þannig nýtist hún öllum betur en ella. Það er alltaf flókið og kostnaðarsamt að laga það sem miður fer, ef það yfirhöfuð er mögulegt. Algild hönnun á ekki að þurfa aðlögunar við.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verður lögfestur á yfirstandandi kjörtímabili samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en samkæmt 2. gr. SRFF merkir algild hönnun „hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu, sem allt fólk getur nýtt sér, að því marki sem mögulegt er, án þess að koma þurfi til umbreyting eða sérstök hönnun. Algild hönnun“ á ekki að útiloka hjálpartæki fyrir tiltekna hópa fatlaðs fólks, þar sem þeirra er þörf.“

Algild hönnun er góð hönnun sem fellur undir viðeigandi ráðstafanir sem þarf að gera til að „gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.“

Samstarfsyfirlýsing um bætta upplýsingagjöf um algilda hönnun var undirrituð þann 5. maí 2022 var undirrituð þann 5. maí 2022 af forsvarsmönnum ÖBÍ, Arkitektafélags Íslands (AÍ), Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA), Félags húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI), Byggingafræðingafélags Íslands (BFÍ) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Við það tilefni sagði Sigríður Maack formaður AÍ að gæði í arkitektúr samanstandi af þremur þáttum, hinu haldbæra, hinu nothæfa og hinu fagra. Ef einhvern þessara þátta vantar, þá væru gæði ekki til staðar.

Ef hönnun er ekki algild þá er hún vart haldbær, illa nothæf og hugsanlega ekki fögur. Algild hönnun er góð, og góð hönnun er algild.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri


Aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026. 978. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 9. maí 2023