Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálUmsögn

Grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál

By 1. mars 2023mars 3rd, 2023No Comments

„Það þarf að bæta eftirlit og herða viðurlög til að tryggja að mannvirki sem byggð eru og falla undir ákvæði algildrar hönnunar séu í raun aðgengileg fötluðu fólki.“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál

ÖBÍ bendir á að fatlað fólk er viðkvæmasti þjóðfélagshópurinn þegar kemur að húsnæðis- og mannvirkjamálum og því ættu allar áætlanir að taka sérstaklega mið af stöðu og þörfum fatlaðs fólks. Því hefði verið rétt og eðlilegt að ÖBÍ hefði verið boðin aðild að starfshópi um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði.

Hér á eftir fara nokkrar af helstu áherslum ÖBÍ um húsnæðis- og mannvirkjamál:

  • Íbúðir í gegnum sérúrræði eins og hlutdeildarlán séu ekki aðeins í boði í ákveðnum hverfum eða landshlutum.
  • Sveitarfélög geti ekki fríað sig frá uppbyggingu á félagslegu húsnæði.
  • Þróun leiguverð þarf að vera gagnsærra.
  • Setja þarf upp nýjan lánaflokk sem hentar fötluðu fólki betur en hlutdeildarlán.
  • Úrræði þurfa að vera til staðar fyrir fólk sem býr í heilsuspillandi húsnæði vegna myglu.
  • Það þarf að koma upp sjóði sem hægt er að sækja í til að breyta húsnæði og aðlaga að þörfum fatlaðra og aldraðra íbúa.
  • Það þarf að efla og samræma eftirlit með mannvirkjum og því er sjálfsagt að innleiða stafræna stjórnsýslu í auknum mæli.
  • Það þarf að bæta eftirlit og herða viðurlög til að tryggja að mannvirki sem byggð eru og falla undir ákvæði algildrar hönnunar séu í raun aðgengileg fötluðu fólki.
  • Einfaldað regluverk á ekki að fela í sér minni kröfur og styttri löggjöf, en það vantar sérákvæði í byggingarreglugerð fyrir mannvirki á borð við samkomuhús, skólabyggingar, íþróttamiðstöðvar, sundlaugar og bensínstöðvar.
  • Auka þarf þekkingu á inntaki algildrar hönnunar með fræðslu. Það verður því að skapa umræðu- og þekkingarvettvang hönnuða, eftirlitsaðila, iðnaðarins, neytenda og annarra hagsmunaaðila sem má byggja á grunni samstarfs um upplýsingagjöf um algilda hönnun. Sjá: Samstarf um upplýsingagjöf um algilda hönnun [Frétt ÖBÍ 5. maí 2022]

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ

María Pétursdóttir
formaður húsnæðishóps ÖBÍ


Grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál.
Mál nr. 33/2023. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 1. mars 2023