Skip to main content
Umsögn

Könnun á aðgengi strætisvagna og biðstöðva – lokaskýrsla (mars, 2019)

By 14. maí 2019No Comments

Formáli

Á vormánuðum 2017 áttu fulltrúar málefnahóps Öryrkjabandalags Íslands og Strætó bs. fund um aðgengi fyrir fatlað fólk að strætisvögnum. Kom þá fram hugmynd um að vinna saman útttekt á strætisvögnum og biðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Ákveðið var að finna þátttakendur úr hópi fatlaðs fólks til að taka strætó á þriggja mánaða tímabili og skila af sér niðurstöðum um ástand strætisvagna og biðstöðva.

Fjárframlag fékkst frá Velferðarráðuneytinu undir aðgerð A.6. í Stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017-2021 til að greiða tveimur þátttakendum laun fyrir úttektina.

Samið var við Alexander Magnússon og Hauk Hákon Loftsson um að nota strætó í allt að 15 skipti á tímabilinu 1. júní til 30. ágúst 2018 og fylla út gátlista um strætisvagna og biðstöðvar sem farið var með og um. Báðir eru hreyfihamlaðir og nota hjólastól. Gert var ráð fyrir úttektum báðar leiðir, á allt að 30 vögnum og biðstöðvum. Voru þátttakendurnir hvattir til að ferðast sem víðast og á ýmsum tímum.
Könnunin dróst fram á haustið og ekki reyndist mögulegt að ljúka úttekt á 60 strætisvögnum og biðstöðvum, en niðurstöður úttektarinnar eru þó afdráttarlausar.

Yfirumsjón með könnuninni höfðu Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri hjá Öryrkjabandalagi Íslands og Bergný Jóna Sævarsdóttir, gæða- og verkefnastjóri hjá Strætó bs., sem auk þess sömdu eyðublöð og rituðu lokaskýrslu.

Inngangur

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks staðfestir að fatlað fólks eigi að hafa sama rétt til sjálfstæðs lífs og aðrir þjóðfélagsþegnar og skyldu stjórnvalda að gera viðeigandi ráðstafanir til að innleiða þau réttindi.

Í a-lið, 20. gr. samningsins segir að aðildarríkin eigi að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og gegn viðráðanlegu gjaldi.

Um málefni almenningssamgangna er m.a. fjallað um í lögum um farþegaflutninga og farmflutninga í landi, nr. 28/2017, en þar segir að þjónustan eigi að vera öllum aðgengileg (Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28 /2017). 

Aðgengi að biðstöðvum og aðgengi í sumum almenningsfarartækjum hentar ekki öllu fötluðu fólki og þá sér í lagi þeim sem notast við stoð- og hjálpartæki, s.s. hjólastóla og er ein ástæða þess að aðrir fararkostir verða frekar fyrir valinu.
Þegar litið er á niðurstöður úttektarinnar sem gerð var kemur í ljós að ýmislegt gott er til staðar, en margt sem þarf að laga og huga betur að þegar kemur að aðgengi fatlaðs fólks að almenningssamgöngum. Tekið skal fram að úttektin er gerð á stórhöfuðborgarsvæðinu þar sem einna helst hefur verið hugað að aðgenginu, en í flestum tilfellum henta almenningssamgöngur á landsbyggðinni t.d. ekki fólki sem styðst við hjólastóla.

Helstu niðurstöður úr vettvangsferðum

Aðgengi að og á biðstöð

Þegar á heildina er litið er aðgengi að biðstöðvum ábótavant en gott aðgengi að og við biðstöðvar er mikilvæg forsenda þess að öryrkjar og fatlað fólk nýti almenningssamgöngur. Báðir þátttakendurnir í verkefninu voru með aðstoðarmenn sem voru þeim innanhandar þegar hindrun var til staðar.

Þegar á heildina er litið er aðgengi að biðstöðvum ábótavant en gott aðgengi að og við biðstöðvar er mikilvæg forsenda þess að öryrkjar og fatlað fólk nýti almenningssamgöngur. Báðir þátttakendurnir í verkefninu voru með aðstoðarmenn sem voru þeim innanhandar þegar hindrun var til staðar.

Af 47 svörum þar sem spurt er um gangbrautir eða gönguþverun er upplifun þátttakenda í 33 tilvikum sú að slíkt sé til staðar, í tveimur tilvikum er um undirgöng að ræða en í 11 skiptum er ekkert til staðar. Í 26 tilvikum af 46 svörum er niðurtekt fyrir biðstöðvarsvæðið frá götu ekki til staðar.

Leiðarlínur við biðstöðvar eru einungis til staðar á fjórum stöðum af 46 og áherslusvæði fyrir blinda og sjónskerta á 12 biðstöðvum.
Báðir þátttakendur í verkefninu fara um í hjólastól og því skiptir miklu máli að nægilegt rými sé til staðar á og við biðstöðvar. Notast var við 1,5 metra viðmið þegar spurt var hvort biðsvæði væru nægilega stór. Í 39 tilvikum af 47 var rýmið talið nægiilega stórt. Ákveðnar biðstöðvar voru ekki malbikaðar og mikið um grjót og möl sem gerir aðgengi enn erfiðara. Í 22 tilvikum af 45 var biðsvæðið talið hallalaust sem er kostur fyrir fólk sem ferðast um í hjólastól.

Biðskýli var ekki til staðar í 36 tilvikum af 45.

Útdraganlegir rampar eru til staðar í öllum nýjum vögnum Strætó en til þess að nýta þá þarf hinn fatlaði aðstoð. Af 34 svörum af 42 var yfirborð talið slétt þannig að hægt var að draga rampinn út til að koma hjólastól í vagninn.

Þó svo þátttakendur í verkefninu hafi notast við hjólastól var lagt upp með að horfa til aðgengismála í víðu samhengi. Af 45 svörum þar sem spurt var hvort bekkur væri til staðar í biðskýlum og hvort handstoðir væru til staðar var bekkur til staðar í 35 tilvikum en bekkur og handstoðir í aðeins níu tilvika. Í einu tilviki var bekkurinn ónothæfur.

Í 12 tilvikum af 45 var tímataflan í þægilegri hæð. Í mörgum tilfellum eru margar tímatöflur á hverjum staur og því í misþægilegri hæð. Í fjórum tilfellum var tímataflan þannig staðsett að hjólastólar komust ekki að henni.

Spurt var um áherslusvæði við inngöngu og frágengi í vagna og voru slík svæði augljós í 4 skiptum af 42.

Könnunin leiddi í ljós að ástand biðstöðva er almennt slæm og mikil þörf á að bæta og samræma aðgengi. Þó svo að aðgengi sé mögulega gott á brottfararstað er óvíst hvort hægt sé að yfirgefa vagninn á áfangastað.

Aðgengi og útbúnaður í strætisvögnum

Allir vagnarnir sem þátttakendur ferðuðust með voru merktir með aðgengi fyrir fatlað fólk og voru með útfellanlegum rampi. Í flestum tilfellum kom aðstoðarmaður viðkomandi til hjálpar við að leggja rampinn út. Í einu tilfelli koma annar farþegi til aðstoðar og í sjö tilvikum aðstoðaði vagnstjóri.

Í öllum tilvikum gat viðkomandi nýtt plássið sem merkt er fyrir fatlað fólk. Í tveimur tilfellum var svæðið nýtt af ófötluðum farþegum, annars vegar sat farþegi á svæðinu og í hinu tilfellinu var farþegi með hjól, en báðir færðu sig.

Ein festing fyrir hjólastóla var til staðar í öllum þeim vögnum sem ferðast var með fyrir utan einn. Því getur aðeins einn hjólastólanotandi notað hvern vagn. Í fjórum tilfellum var beltið of stutt og í tveimur tilfellum of stíft. Í 11 tilvikum af 39 gat viðkomandi fest sig sjálfur. Í tveimur tilvikum var þess getið að vagnstjóri hefði lagt of fljótt af stað þannig að viðkomandi náði ekki að festa sig.

Hátalarakerfi og upplýsingar á skjá nýtast farþegum ekki alltaf. Í 30 svörum af 39 virðist hátalarakerfið nýtast þannig að viðkomandi bæði heyrir í kerfinu og fær upplýsingar um næstu stoppistöð. Í einhverjum tilvikum komast ekki allar upplýsingar til skila. Þá nýtist upplýsingaskjárinn í vögnunum þeim sem sitja á svæði fyrir fatlað fólk þar sem þeir snúa baki í upplýsingarnar.

Viðmót vagnstjóra er almennt talið gott. Í fimm tilvikum er vagnstjóri talinn áhugalaus og í einu tilviki var upplifunin sú að vagnstjóri væri pirraður og tillitslaus.

Þegar kemur að aksturslagi vagnstjóra er það talið gott eða til fyrirmyndar í 29 tilvikum af 39 og í fjórum tilvikum full harkalegt og vagnstjóri talinn aka of hratt.

Ástand strætisvagnanna var almennt betra en biðstöðvanna. Vagnarnir mættu vera útbúnir rafdrifnum römpum svo að notendur geti ferðast sjálfir um og þurfi ekki að fara um með aðstoðarmanni. Einungis er gert ráð fyrir einum hjólastólanotanda í hverjum vagn. Festingar þarf að yfirfara og þá mætti bæta við handfangi til að styðja sig við. Upplýsingar eru yfirleitt fullnægjandi.

Samantekt

Eftir að úttektum var lokið funduðu umsjónarmenn verkefnisins með þátttakendum og aðstoðarfólki þeirra. Almenn ánægja var með verkefnið og báðir aðilar voru sammála um að það myndi auka lífsgæði þeirra ef þeir gætu nýtt almenningssamgöngur meira. Þátttakendum fannst verkefnið skemmtilegt og vona að reynsla þeirra nýtist bæði við skipulag biðstöðva og til að bæta aðbúnað öryrkja og fatlaðra í strærisvögnunum. Samantektir frá þáttakendunum má finna í viðaukum.

Þátttakendur voru sammála um að bæta þurfi aðstöðu við og á biðstöðvum og gott væri að vita fyrirfram hvaða biðstöðvar eru með aðgengi fyrir fatlað fólk en það myndi auka líkur á því að þeir notuðu Strætó. Í flestum tilfellum eru vagnar með aðgengi fyrir fatlað fólk en stækka mætti svæðið og auka öryggi þeirra sem eru í hjólastólum. Þau öryggisbelti sem eru til staðar í vögnum í dag eru ekki nægilega góð og veita ekki öryggi. Annar þátttakenda nefndi t.d. að í fleiri en einu tilviki þurfti hann að nota eigið handafl til þess að halda sér í á meðan vagninn var á ferð þar sem öryggisbeltin nýttust honum ekki. Þá væri strax til bóta að hafa fleiri en eina festingu.


Könnun á aðgengi strætisvagna og biðstöðva – lokaskýrsla (mars, 2019) PDF