
Google maps / ja.is
Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna er kveðið á um breytingu á styrkjakerfi námslána er varðar kröfur um námsframvindu fyrir niðurfellingu höfuðstóls námslána. Mikilvægt er að þessari breytingu fylgi ákvæði sem veitir námsmönnum sem sökum fötlunar, námserfiðleika eða alvarlegra veikinda sé veitt aukið svigrúm til að uppfylla kröfur um námsframvindu og að ljúka námi innan tilskilinna tímamarka.
ÖBÍ réttindasamtök leggja áherslu á að nauðsyn þess að setja í lög heimild til niðurfellingu námslána vegna verulegra fjárhagserfiðleika lántaka, alvarlegra og varanlegra veikinda lántaka, eða annarra sérstakra ástæðna verði að lögum.
Öll geta veikst alvarlega eða orðið fyrir slysi hvenær sem er á lífsleiðinni. Slíkt áfall hefur oft á tíðum miklar breytingar í för með sér, meðal annars fjárhagslegar. Það getur m.a. leitt til þess að viðkomandi geti ekki nýtt sér menntunina til að afla tekna. Það sama á við um þá sem sökum alvarlegra og varanlegra veikinda eða afleiðinga slysa hafa ekki náð að ljúka námi en sitja uppi með námslán og afborganir af þeim. Í skýrslu Vörðu rannsóknaseturs vinnumarkaðarins um stöðu fatlaðs fólks frá desember 2023 kemur skýrt fram að stór hluti fatlaðs fólks á Íslandi býr við sárafátækt og lífsskilyrði þeirra eru töluvert verri en launaólks. Staða fatlaðs fólks hefur ekki vænkast á þeim tíma sem liðinn er frá því skýrslan var birt.
Á sama tíma er menntun mjög mikilvæg fyrir fatlað fólk þar sem hún gefur fólki frekari möguleika á vinnumarkaði og meiri möguleika á sveigjanlegum störfum. Þó eru atvinnu- tækifæri fatlaðs fólks almennt mun takmarkaðri en annarra.
Þá er enn fremur lögð áhersla á að undanþága námslána frá áhrifum gjaldþrotaskipta skv. 26. gr. laga um Menntasjóð námsmanna verði felld brott.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Menntasjóður námsmanna (námsstyrkir og endurgreiðslur)
254. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, Reykjavík, 22. maí 2025