Fundargerð aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í Reykjavík, 5. október 2018, kl. 16:00-20:00, og 6. október 2018, kl. 10:00-17:00.
Ávarp formanns, fundarsetning
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:09 og bauð fundarmenn velkomna. Formaður lagði til að Sigríður Jónsdóttir og Hafsteinn Pálsson yrðu fundarstjórar og var það samþykkt samhljóða. Formaður lagði til að Aðalheiður Rúnarsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundinn og var það samþykkt samhljóða. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.
Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1).
Þá leitaði fundarstjóri samþykkis fundarins fyrir setu fulltrúa aðildarfélaga sem skiluðu upplýsingum utan tilskilins tíma. Þessi félög voru: ADHD samtökin, Alzheimarsamtökin á Íslandi, Ás styrktarfélag, Geðverndarfélag Íslands, Hugarfar, ME félag Íslands, Ný rödd, Parkinsonsamtökin á Íslandi, SEM samtökin, Sjálfsbjörg lsh, Stómasamtök Íslands og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. Var seta þeirra samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri leitaði þá samþykkis fundarins fyrir setu fólks úr málefnahópum ÖBÍ. Þau voru Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir og Stefanía Kristinsdóttir úr málefnahópi um heilbrigðismál, og Guðmundur Magnússon úr málefnahópi um sjálfstætt líf. Var seta þeirra samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri bar að endingu undir fundinn að Salóme Mist Kristjánsdóttir frá Kvennahreyfingu ÖBÍ og Steinar Svan Birgisson frá Ungliðahreyfingu ÖBÍ sætu fundinn sem áheyrnarfulltrúar og var það samþykkt samhljóða.
Almenn fundarstörf
Skýrsla stjórnar (1)
Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2017-2018. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-31) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:
Samstaða, samtal og samráð voru þau orð sem lýstu hvað best starfi ársins. Lögð var mikil áhersla á að kynna bandalagið og baráttu þess fyrir stjórnvöldum. Alþingiskosningar voru haldnar síðustu helgina í október 2017 og í aðdraganda þeirra voru forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna spurðir út í málefni fatlaðs fólks og réttindi þeirra. Málefni öryrkja fengu talsvert rými í kosningabaráttunni þökk sé frambjóðendum sem sjálfir voru öryrkjar.
Vorið 2018 voru haldnar sveitarstjórnarkosningar og í aðdraganda þeirra stóð ÖBÍ fyrir fundaherferð þar sem 14 sveitarfélög um allt land voru heimsótt. Fundaherferðin fékk yfirskriftina „Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum“ en á þessum fundum var farið yfir starfsemi ÖBÍ sem og helstu áherslur bandalagsins. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) var einnig kynntur og helstu niðurstöður Gallup könnunar sem ÖBÍ stóð fyrir. Tilgangur könnunarinnar meðal almennings var þríþættur: Að ná fram viðhorfum almennings til ýmissa mála, fá samanburð við viðhorf almennings við eldri kannanir og nýta niðurstöður könnunarinnar í fundaherferðinni fyrir sveitarstjórnarkosningar. Málefnahópar ÖBÍ komu með tillögur að spurningum til að leggja fyrir í könnuninni auk þess sem spurningar úr eldri könnunum voru notaðar. Niðurstöður könnunarinnar sýndu meðal annars að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hugðist greiða atkvæði sitt til framboða sem vildu bæta þjónustu við fatlað fólk í sínu sveitarfélagi. Frekari niðurstöður könnunarinnar voru birtar á vefsíðu og fésbókarsíðu ÖBÍ, sendar fjölmiðlum og miðlað í fundaherferðinni.
Mikil vinna var lögð í að fá stjórnvöld til þess að afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Aðgerðarleysi stjórnvalda voru mikil vonbrigði en þessi skerðing er enn við lýði. Þó vannst áfangasigur í baráttunni fyrir hækkun á örorkulífeyri þegar Alþingi samþykkti breytingu á fjárlagafrumvarpi sem gerði það að verkum að tæp 30% örorkulífeyrisþega fá 300.000 kr. á mánuði fyrir skatt í stað 14% áður. Nýja kostnaðarþátttökukerfið í heilbrigðiskerfinu og kostnaðarþátttaka ríkisins í tannlæknakostnaði lífeyrisþega var einnig mikið baráttumál ÖBÍ á síðastastarfsári. Reynslan af nýja kostnaðarþátttökukerfinu sýndi að lífeyrisþegar greiða hlutfallslega meira en áður og kostnaðarþátttaka ríkisins í tannlæknakostnaði lækkaði að raungildi undanfarin ár. ÖBÍ þrýsti mikið á heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands að leiðrétta þetta fyrir lífeyrisþega og baráttan skilaði árangri í ágúst 2018 þegar gjaldskrá var hækkuð og samið um nýja aðgerðaskrá við Tannlæknafélag Íslands.
Í desember 2017 náðist það í gegn að fá 100 NPA samninga samþykkta í stað 83 áður. Ennfremur samþykkti Alþingi í apríl 2018 ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Lögin sem voru endurskoðuð og uppfærð eru mikil réttarbót fyrir fatlað fólk. Lögfesting NPA var sérstakt fagnaðarefni og stór áfangi í réttindabaráttu fatlaðs fólks.
Tveir formannafundir voru haldnir á starfsárinu, annar 20. september 2017 og hinn 22. mars 2018. Í apríl 2018 var þriðja stefnuþing bandalagins haldið og tókst vel til. Á þinginu kynntu málefnahópar ÖBÍ þau verkefni sem lagt var til að unnið væri að og þátttakendur þingsins forgangsröðuðu þeim. Málefnahópar bandalagsins voru mjög virkir á tímabilinu og stóðu m.a. fyrir málþingi, ýmsum uppákomum, skrifuðu fjölda greina og umsagnir um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. ÖBÍ tók einnig virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi, bæði norrænu og evrópsku á starfsárinu.
Ársreikningur ÖBÍ (2)
Guðmundur Snorrason, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2017 (fskj. nr. 3 – Ársreikningur 2017). Það var álit endurskoðanda að reikningurinn gæfi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu, efnahag og breytingum á haldbæru fé í árslok 2017. Þá hefði ársreikningur ÖBÍ að geyma nauðsynlegar upplýsingar í samræmi við lög um ársreikninga og gaf skoðunin ekki tilefni til athugasemda. Ársreikningurinn var áritaður án fyrirvara af endurskoðanda og skoðunarmönnum.
Heildartekjur ársins 2017 voru lægri en árið 2016. Skýrðist það af því að tekjur frá Íslenskri getspá lækkuðu úr því að vera tæplega 560 milljónir árið 2016 í tæpar 521 milljón 2017.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða 581,5 milljónir 2017 en 636 milljónir 2016. Munurinn skýrist að hluta af því að styrkir og framlög voru lægri, meðal annars vegna þess að tekjur frá Íslenskri getspá voru lægri.
Laun og tengd gjöld hækkuðu á milli ára því lífeyrissjóðsframlag hækkaði, m.a. vegna stjórnarskipta og biðlauna fráfarandi formanns.
Lífeyrisskuldbindingar hækkuðu minna árið 2017 en árið áður vegna minni launabreytinga.
Fundir, ráðstefnur, auglýsingar og kynningar var um 20 milljónum lægri 2017, aðallega vegna kostnaðar við myndbandagerð sem féll til árið 2016 og svo var ekki stefnuþing 2017.
Rekstrarkostnaður hækkaði um rúmar tvær milljónir vegna hækkunar á fasteignagjöldum og viðhalds sem féll til á árinu 2017. Rekstur skrifstofu var nánast óbreyttur á milli ára en ýmiss rekstrarkostnaður hækkaði.
Fjármunatekjur ársins 2017 voru tæpar 10 milljónir, í stað rúmlega 11 árið áður.
Rekstrarafkoma ársins 2017 var því 21.629.377 kr. í plús í stað tæplega 6 milljóna í mínus árið á undan.
Fastafjármunir lækkuðu um tvær milljónir á milli ára, að stærstum hluta vegna fasteignar. Veltufjármunir lækkuðu um sem nemur rúmum 80 milljónum á milli ára, aðallega því framlög frá Íslenskri getspá skiluðu sér ekki fyrr en eftir áramótin, og haldbært fé var sem nemur 55 milljónum minna en árið á undan.
Eigið fé hækkaði á milli ára, fór úr 552 milljónum árið 2016 í tæplega 574 milljónir árið 2017. Munurinn skýrist af jákvæðri rekstrarafkomu ársins 2017.
Lífeyrisskuldbindingar lækkuðu um tæplega milljón á milli ára og skammtímaskuldir fóru úr rúmum 143 milljónum árið 2016 í tæpar 50 milljónir 2017. Lækkun skýrist helst vegna aukaframlaga til aðildarfélaga 2016 sem voru ógreidd um áramót.
Heildarniðurstaða efnahagsreiknings var 664 milljónir 2017, í stað 737 milljóna 2016. Þá lækkaði handbært fé úr 144 milljónum í lok árs 2016 í 88 milljónir 2017.
Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um skýrslu stjórnar og fyrirspurnir um reikninga ÖBÍ. Til svara voru formaður, framkvæmdastjóri og gjaldkeri ÖBÍ.
Gjaldkeri ÖBÍ þakkaði endurskoðanda yfirferðina og sagði ÖBÍ standa vel og eiga góðan varasjóð.
Framkvæmdastjóri þakkaði endurskoðanda og sagði að þrátt fyrir minni tekjur en árið 2016 voru tekjur ársins 2017 þær næsthæstu í sögunni. Einnig minnti framkvæmdastjóri á að helstu tekjur ÖBÍ koma frá Íslenskri getspá, en erfitt sé að áætla um þær og því hefur oft verið farið varlega í fjárhagsáætlunargerð og ef rekstrarafgangur verður í lok árs er styrkjum úthlutað til aðildarfélaga eða fyrirtæki sem ÖBÍ er aðili að.
Fundarmenn lýstu ánægju með ársreikninga ÖBÍ.
Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Var ársreikningur ÖBÍ 2017 samþykktur samhljóða. Skýrsla stjórnar var sömuleiðis samþykkt samhljóða.
Skýrslur fastra málefnahópa (3)
Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2016-2017 sem var dreift á fundinum, (fskj. nr. 2, bls. 34-38).
Málefnahópur um aðgengismál (a)
Ingveldur Jónsdóttir frá MS félagi Íslands, formaður málefnahóps um aðgengi, sagði frá starfi hópsins og niðurstöðum af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5a). Í hópnum sátu, auk formanns: Birna Einarsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Grétar Pétur Geirsson frá Sjálfsbjörg, Ingólfur Már Magnússon frá Heyrnarhjálp, Jón Heiðar Jónsson frá Sjálfsbjörg lsh., Lilja Sveinsdóttir frá Blindrafélaginu og Sara Birgisdóttir frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Sigurjón Einarsson frá Fjólu var varamaður hópsins og Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.
Ingveldur þakkaði gott samstarf við þá sem sátu í hópnum og starfsmanni hópsins.
Málefnahópur um atvinnu- og menntamál (b)
Guðrún Sæmundsdóttir frá ME félaginu, formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál, kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5b). Í hópnum voru, auk formanns: María Hauksdóttir frá Blindrafélaginu, Hrönn Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Elín Hoe Hinriksdóttir frá ADHD samtökunum, Sylviane Pétursson Lecoultre frá Geðhjálp, Sigríður Fossberg Thorlacius frá Málbjörg og Sigurður Jón Ólafsson frá Stómasamtökum Íslands. Brandur Bjarnason Karlsson frá Sjálfsbjörg lsh. og Brynhildur Arthúrsdóttir frá Laufi voru varamenn hópsins og Þórdís Viborg var starfsmaður hópsins.
Guðrún þakkaði öllum í hópnum og starfsmanni fyrir vel unnin störf. Einnig óskaði hún viðtakandi formanni málefnahópsins velfarnaðar og þakkaði stjórn og starfsfólki ÖBÍ fyrir gott samstarf.
Málefnahópur um heilbrigðismál (c)
Emil Thóroddsen frá Gigtarfélagi Íslands var formaður málefnahóps um heilbrigðismál og kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5c). Í hópnum störfuðu, auk formanns, Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir frá Sjálfsbjörg lsh., Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Sigríður Jóhannsdóttir frá Samtökum sykursjúkra, Stefanía G. Kristinsdóttir frá SÍBS, Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum. Varamenn hópsins voru Fríða Björk Arnardóttir frá Hjartaheill og Hannes Þórisson frá Félagi nýrnasjúkra. Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.
Emil þakkaði þeim sem sátu í hópnum frábært starf og hópurinn þakkaði starfmanni fyrir gott samstarf.
Umræður
Fundarstjóri bauð umræður um skýrslur málefnahópa um aðgengismál, atvinnu- og menntamál og heilbrigðismál. Tíu fundarmenn tóku til máls. Kom meðal annars fram hvatning til málefnahóps um aðgengi að skoða aðgengi að náttúru Íslands, ferðamannastöðum og almennt um samgöngumál á landsbyggðinni, t.d. eiga hreyfihamlaðir erfitt með að komast til og frá Keflavíkurflugvelli því flugrútan er óaðgengileg og ferðaþjónusta fatlaðra fer ekki á milli sveitarfélaga. Einnig var spurt hver séu næstu skref til að koma á aðgengiseftirliti. Lagt var til að hópurinn kanni möguleika á að koma á slíku eftirliti. Bent var á að sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru af mjög skornum skammti við sjúkrastofnanir, sérstaklega Landsspítala. Vakin var athygli á rafrænu aðgengi sem er mikilvægt fyrir sjónskerta.
Málefnahópur um heilbrigðismál var spurður hvort hann sé að skoða öll hjálpartæki og hvort ekki eigi að hvetja til greiðsluþátttöku í sálfræðiþjónustu. Fram kom að mikilvægt sé að berjast fyrir því að hjálpartæki fylgi einstaklingi, ekki að atvinnurekendur þurfi að skaffa það. Nefnt var að lagabreytingu þurfi til svo að fólk með geðraskanir þurfi ekki að búa við ótta, nauðung og ofbeldi.
Spurt var hvað er gott við núverandi örorkumat og hvort ÖBÍ geti tekið saman lista yfir hvað er gott og hvað er slæmt við núverandi matskerfi.
Emil Thóroddsen formaður málefnahóps um heilbrigðismál sagði heilbrigðishópinn taka öllum ábendingum. Hann sagði hópinn ávallt nefna mikilvægi niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu í hvert sinn sem farið sé á fund ráðamanna. Hann ítrekaði að málefnahóparnir séu ekki til að beita þrýstingi, heldur styðja og styrkja einstaka félög og hagsmunahópa til þess í samráði við þá.
Guðrún Sæmundsdóttir formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál hvatti ungliða til að senda hugmyndir um hvað þurfi að gera og hvað hægt sé að gera í málefnum ungs fólks sem getur ekki sótt vinnu eða skóla sökum aðgengis. Guðrún sagði reynslu nágrannaþjóða af starfsgetumati vera ömurlega og umræða um það sé eldfim og viðkvæm. Guðrún sagðist telja að ÖBÍ verði að móta stefnu í tengslum við starfsgetumat.
Ingveldur Jónsdóttir formaður málefnahóps um aðgengismál sagði að aðgengi úti á landi sé í ólestri, sérstaklega er mikið um malarstíga. Sagði hún skýrt í lögum að fólksflutningabifreiðar eigi að vera aðgengilegar öllum.
Málefnahópur um kjaramál (d)
Rósa María Hjörvar frá Blindrafélaginu, formaður málefnahóps um kjaramál, kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5d). Í hópnum voru, auk formanns, Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Einar Björnsson frá Geðhjálp, Frímann Sigurnýasson og Helga Elínborg Auðunsdóttir frá SÍBS, og Sævar Pálsson og Valgerður Hermannsdóttir frá Hjartaheill. Sigríður Hanna Ingólfsdóttir var starfsmaður hópsins.
Formaður hópsins þakkaði hópnum og formanni ÖBÍ fyrir ánægjulegt samstarf.
Fundarstjóri bauð umræður en engar fyrirspurnir bárust.
Málefnahópur um sjálfstætt líf (e)
Rúnar Björn Herrera frá SEM samtökunum, formaður málefnahóps um sjálfstætt líf, kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5e). Í hópnum sátu ásamt formanni, Arna Sigríður Albertsdóttir frá SEM samtökunum, Bergþór G. Böðvarsson frá Geðhjálp, Elma Finnbogadóttir frá Blindrafélaginu, Freyja Haraldsdóttir frá Tabú, Guðmundur Magnússon frá SEM samtökunum og Snædís Rán Hjartardóttir frá Heyrnarhjálp. Andri Valgeirsson frá Sjálfsbjörg lsh. var varamaður og Katrín Oddsdóttir var starfsmaður hópsins.
Rúnar Björn þakkaði málefnahópnum góða vinnu og starfmanni hópsins fyrir gott samstarf. Án þeirra væri þetta ekki hægt.
Fundarstjóri bauð umræður um skýrsluna. Tveir fundarmenn tóku til máls og þökkuðu hópnum gott starf. Spurt var hvað skilgreini sjálfstætt líf, er það NPA, hjálpartæki, túlkaþjónusta eða eitthvað annað, því mikið sé rætt um NPA.
Rúnar Björn, formaður hópsins, sagði málefnahópinn hafa valið að einbeita sér að NPA þetta árið þó að verkefnin séu auðvitað ærin.
Málefnahópur um málefni barna (f)
Elín Hoe Hinríksdóttir frá ADHD samtökunum formaður málefnahóps um málefni barna kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5f). Í hópnum, auk formanns, voru Auðbjörg Sigurðardóttir frá Tourette samtökunum, Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra og Laufi, Halldóra Inga Ingileifsdóttir frá Ás styrktarfélagi, Ólöf Birna Björnsdóttir frá Geðhjálp, Sunna Brá Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands og Ýr Þórðardóttir frá ADHD samtökunum. Varamenn voru Ragnar Vignir frá ADHD samtökunum og Sigrún Birgisdóttir frá Einhverfusamtökunum og Þórdís Viborg var starfsmaður hópsins.
Formaður hópsins þakkaði starfmanni og nefndarmönnum fyrir mjög gott starf.
Fundarstjóri bauð umræður um skýrsluna. Fjórir fundarmenn tóku til máls og þökkuðu hópnum gott starf. Spurt var hvort verið væri að skoða réttindi ófatlaðra barna, það er barna fatlaðra foreldra. Til dæmis eru ný atriði í lögum um réttindi fatlaðra foreldra við umönnun barna sinna. Spurt var af hverju tímatakmörk væru á starfi hópsins, fjögur ár.
Elín Hoe, formaður hópsins, þakkaði ábendingarnar. Sagði hún hópinn hafa rætt réttindi barna sem eiga fatlaða foreldra og taldi það góða hugmynd að koma því fram á málþingi. Upphaflega var málefnahópurinn skipaður til fjögurra ára til reynslu en starfið hefur sýnt fram á þörf á því að þetta verði fastur málefnahópur.
Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður ÖBÍ hrósaði málefnahópunum fyrir gott starf og sagði stjórn stolta af hópunum. Þakkaði formönnum sérstaklega fyrir skýrslur sínar og fundargestum fyrir góðar umræður og þátttöku. Þakkaði hann Guðrúnu Sæmundsdóttur, fráfarandi formanni málefnahóps um atvinnu- og menntamál, fyrir góð störf. Halldór minnti á vefstreymi frá málþingum og opnum fundum á vegum ÖBÍ og hve margir á landsbyggðinni hafa tækifæri til að fylgjast með á þann hátt og nýta sér það.
Skýrslur fyrirtækja (4)
Skýrslur fyrirtækja lágu frammi. (fskj. nr. 2, bls. 30-35). Ársreikningar fyrirtækja eru í fylgiskjölum 4a-4d. Fundarstjóri bauð umræður um hverja skýrslu fyrir sig.
BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins (a)
Garðar Sverrisson, formaður Brynju, var til svara. Þrír fundarmenn tóku til máls. Spurt var um hlutfall sérhæfðs húsnæðis hjá Brynju og hví það lækki á milli ára. Spurt var um fjölda íbúða í Reykjavík og hvort hægt væri að auka hann og efla byggingu íbúða í Reykjavík. Lagt var til að stjórn íhugi að halda málþing um húsnæðismál.
Garðar sagði að um væri að ræða sambýli sem Brynja tók að sér að byggja og leigði svo til ríkisins. Sumum þessara sambýla hefur verið lokað því þau eru ekki í takt við tímann. Stofnframlög voru engin af hálfu stjórnvalda á árinu 2017. Brynja fékk styrki til kaupa á um 20 íbúðum. Mun dýrara er að byggja, kaupa og eiga húsnæði í Reykjavík en nágrannasveitarfélögunum sem leiðir af sér hærra leiguverð.
Örtækni (b)
Þorsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.
Hringsjá (c)
Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.
TMF- Tölvumiðstöð (d)
Sigrún Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.
Fjölmennt (e)
Ásgerður Hauksdóttir, verkefnastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.
Íslensk getspá (f)
Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár, sagði rekstur getspár ganga mjög vel. Bergur Þorri sagði það valda sér hugarangri að á málaskrá dómsmálaráðherra sé frumvarp um að leyfa netspilun. Það geti dregið úr tekjum Íslenskrar getspár. Engar fyrirspurnir bárust.
Kl. 19:39 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 6. október 2018.
Laugardagur 6. október 2018 – fundi framhaldið
Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:07.
Stefnuþing: Stefna og starfsáætlun (5)
Varaformaður sagði frá Stefnuþingi ÖBÍ sem haldið var 20. og 21. apríl 2018. Þetta var þriðja stefnuþing ÖBÍ og sagði varaformaður að enn væri að komast mynd á framkvæmd þess.
Formaður kynnti tillögur um þau málefni sem verða efst á baugi sex málefnahópa ÖBÍ næstu tvö ár eftir vinnu á Stefnuþingi 2018 (fylgiskjöl 5a-f).
Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um tillögur frá stefnuþingi. Tveir tóku til máls og ræddu aðgengi að umhverfi og náttúru og kjaramál.
Fundarstjóri bar tillögurnar upp til atkvæða og voru þær samþykktar samhljóða.
Aðildargjöld, ákvörðun (6)
Fundarstjóri lagði til að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt, 0 kr., og opnaði fyrir umræður. (sjá fskj. nr. 6)
Arnar Haukur Lárusson frá SEM samtökunum lagði fram breytingartillögu og lagði til að aðildargjöld yrðu hækkuð í kr. 5000 á ári (sjá fylgiskjal nr. 6a).
Fundarstjóri bauð umræður um breytingartillöguna. Sigþór U. Hallfreðsson frá Blindrafélaginu lagði til að vísa breytingatillögunni frá og Halldór Sævar Guðbergsson studdi þá tillögu.
Fundarstjóri bar frávísunartillöguna upp til atkvæða. Var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn fjórum.
Fundarstjóri bar þá upphaflega tillögu um óbreytt aðildargjöld upp til atkvæði og var hún samþykkt samhljóða.
Stjórnarseta, þóknun (7)
Fundarstjóri kynnti fram komna tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu svohljóðandi:
„Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði óbreytt frá fyrra starfsári sem er eftirfarandi:
- Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 6 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur.
- Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.
- Upphæð þóknunar og tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins sem er 2.308 kr. á hverja einingu, miðað við ágúst 2018.”
Fundarstjóri gaf orðið laust en engin umræða varð. Var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.
Kosningar í stjórn
Fram fór nafnakall. Mættir voru fulltrúar fyrir 41 aðildarfélag ÖBÍ (fskj. nr. 5 – Fulltrúar aðildarfélaga, mætingarlisti 6. október 2018). Yfirlit yfir framboð til stjórnar var í fundargögnum (sjá fskj. nr. 6). Kynningar á frambjóðendum lágu frammi og má sjá þær í fylgiskjölum.
Fundarstjóri lagði til að Páll Hilmarsson, Dóra Guðrún Pálsdóttir og Ólafur Sindri Ólafsson yrðu talningamenn á fundinum. Var það samþykkt samhljóða
Albert Ingason kvaddi sér hljóðs í fjarveru formanns kjörnefndar og gerði stuttlega grein fyrir starfi nefndarinnar. Þakkaði hann Þórnýju, starfmanni kjörnefndar, og starfsmönnum ÖBÍ góð störf. Tölvupóstur var sendur aðildarfélögum og óskað eftir framboðum í laus embætti. Framboð bárust í öll laus embætti. Fulltrúum var sendur framboðslisti 20. september 2018. Fyrir mistök var nafni Erlu S. Valtýsdóttur frá Tourette samtökunum ofaukið á listanum og óskaði Albert eftir því að fundarmenn leiðréttu það í gögnum sínum.
Fundarstjóri bauð frambjóðendum að kynna sig en fulltrúar höfðu fengið kynningarblað frambjóðenda með fundargögnum (fylgiskjöl nr. 10, 11, 12a-h).
Fram komu framboð á fundinum, frá Magnúsi Þorgrímssyni frá Hjartaheill og Ólínu Sveinsdóttur frá Parkinsonsamtökunum. Fundarstjóri óskaði samþykkis fundarins fyrir framboðum þeirra og voru þau samþykkt.
Formaður (8)
Kosið verður í embætti fomanns 2019.
Varaformaður (9)
Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti varaformanns. Einn var í framboði, Halldór Sævar Guðbergsson frá Blindrafélaginu (fskj. nr. 10).
Engin framboð bárust úr sal og var Halldór Sævar Guðbergsson því sjálfkjörinn varaformaður ÖBÍ 2018-2020.
Gjaldkeri (10)
Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti gjaldkera. Einn var í framboði, Bergur Þorri Benjamínsson frá Sjálfsbjörg lsh. (fskj. nr. 11).
Engin framboð bárust úr sal og var Bergur Þorri Benjamínsson því sjálfkjörinn gjaldkeri ÖBÍ 2018-2020.
Formenn fastra málefnahópa (11)
Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál til eins ár. Einn var í framboði, Sævar Pálsson frá Hjartaheill (fskj. nr.12).
Engin framboð bárust úr sal og var Sævar Pálsson því sjálfkjörinn formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál 2018-2019.
Stjórnarmenn (12)
Fundarstjóri kynnti kosningu sjö stjórnarmanna. Í framboði voru Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands (fskj. 12a), Einar Þór Jónson frá HIV Íslandi (fskj. 12b), Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir frá Tourette-samtökunum (fskj. 12c), Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra (fskj. 12d), Fríða Rún Þórdardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands (fskj. 12e), Garðar Sverrisson frá MS félagi Íslands (fskj. 12f), Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi (fskj. 12g), Ólína Sveinsdóttir frá Parkinsonsamtökunum, Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra á Íslandi og Þorsteinn Þorsteinsson frá SPOEX (fskj. 12h). Farið var yfir fyrirkomulag kosninganna.
Greidd voru 123 atkvæði (sjá fskj. nr. 12i). Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn 2018-2020:
– Einar Þór Jónsson með 100 atkvæði
– Fríða Rún Þórðardóttir með 97 atkvæði
– Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir með 94 atkvæði
– Garðar Sverrisson með 92 atkvæði
– Fríða Bragadóttir með 90 atkvæði
– Dóra Ingvadóttir með 80 atkvæði
– Snævar Ívarsson með 76 atkvæði
Varamenn (13)
Fundarstjóri kynnti kosningu þriggja varamanna til tveggja ára. Í framboði voru Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Ólína Sveinsdóttir frá Parkinsonsamtökunum, Þorsteinn Þorsteinsson frá SPOEX og Magnús Þorgrímsson frá Hjartaheill.
Greidd voru 116 atkvæði, eitt var ógilt og þrjú auð (fskj. nr. 13). Þessi hlutu kosningu til setu sem varamenn í stjórn 2018-2020:
– Þorsteinn Þorsteinsson með 87 atkvæði
– Karl Þorsteinsson með 83 atkvæði
– Magnús Þorgrímsson með 76 atkvæði
Aðrar kosningar til tveggja ára
Kjörnefnd (14)
Kosið verður í kjörnefnd árið 2019.
Laganefnd (15)
Fundarstjóri kynnti kosningu tveggja fulltrúa í laganefnd til eins árs. Í framboði voru: Vilborg Gunnarsdóttir frá Alzheimersamtökunum á Íslandi og Þórir Steingrímsson frá Heilaheill.
Fundarstjóri óskaði samþykkis fundarins fyrir framboði Gísla Helgasonar til setu í laganefnd. Var það samþykkt.
Greidd voru 115 atkvæði, einn atkvæðaseðill var ógildur og tveir auðir (fskj. nr. 14). Þessi hlutu kosningu til setu í laganefnd til eins árs:
– Vilborg Gunnarsdóttir með 106 atkvæði
– Þórir Steingrímsson með 93 atkvæði
Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)
Kosnir verða skoðunarmenn reikninga og varamenn þeirra árið 2019.
Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál
Lagabreytingar (17)
Teknar voru til afgreiðslu fjórar tillögur til breytinga á lögum ÖBÍ sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund. Lög ÖBÍ má sjá í fylgiskjali nr. 13.
Formaður laganefndar, Dóra Ingvadóttir, kvaddi sér hljóðs og fór yfir starf nefndarinnar. Í nefndinni sátu, ásamt formanni, Guðný Linda Óladóttir frá Samtökum lungnasjúklinga, en hún féll frá í apríl 2018, Þröstur Emilsson frá ADHD samtökunum, sem hætti störfum fyrir ÖBÍ í júní 2018, Ingi Hans Ágústsson frá HIV Íslandi, og Svavar Kjarrval frá Einhverfusamtökunum. Nefndin vann vel strax frá aðalfundi 2017 með dyggri aðstoð Aðalsteins Sigurðssonar lögmanns. Formaður, Ingi Hans og Svavar lögðu lokahönd á tillögur nefndarinnar.
Formaður kynnti fjórar lagabreytingartillögur frá laganefnd ÖBÍ (sjá fskj. nr. 14):
1. tillaga um breytingar á 16. gr. Framhaldsaðalfundur (sjá fskj. nr. 14, bls. 2),
2. tillaga um breytingar á 18. gr. Stjórn. A. Kosning og hlutverk stjórnar (sjá fskj. 14, bls. 3-6), stafliðir a) – d),
3. tillaga um breytingar á 23. gr. Málefnahópar (sjá fskj. nr. 14, bls. 7),
4. tillaga um breytingu á 11. gr. C. Aðrar kosningar til tveggja ára (sjá fskj. nr. 14, bls. 8.).
Þá tók fundarstjóri 1. tillögu til afgreiðslu, tillögu til breytingar á 16. grein laganna. Tillagan var orðalagsbreyting, þar sem lagt var til að orðin „upphaflegan aðalfund“ í 1. mgr. falli brott og í stað komi „frestun fundar“ og af því leiði að í stað orðanna „á upphaflegum aðalfundi“ í 3. mgr. komi orðin „hinum frestaða fundi“.
Ægir Lúðvíksson frá MND félaginu lagði til viðbót, „að seturétt á framhaldsaðalfundi eiga þeir sem sátu fundinn þegar honum var frestað, með nafnakalli“.
Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD félaginu studdi tillögu Ægis og ítrekaði seturétt einungis þeirra sem voru á fundinum þegar honum var frestað.
Fundarstjóri ítrekaði að breytingartillögum skyldi skilað skriflega, annað hvort handskrifað eða með tölvupósti á netfangið
thorny@obi.is.
Fundarstjóri bar breytingartillögu Ægis upp til atkvæða og var tillagan felld með þorra atkvæða.
Fundarstjóri bar þá upp til atkvæða 1. tillögu frá laganefnd. Var tillagan samþykkt samhljóða. Þá verður ákvæði 16. gr. Framhaldsfundur svohljóðandi (breytingar feitletraðar):
Framhaldsfund er hægt að halda um mál sem ekki tekst að ljúka á aðalfundi. Hann skal haldinn svo fljótt sem verða má þó eigi síðar en fjórum vikum eftir frestun fundar.
Framhaldsaðalfundur getur aðeins fjallað um þau mál, sem voru tilefni þess að fundurinn var boðaður.
Seturétt á framhaldsaðalfundi eiga þeir sem áttu seturétt á hinum frestaða fundi.
Þá tók fundarstjóri 2. tillögu laganefndar, um breytingar á 18. grein laga ÖBÍ, til afgreiðslu. Kynnti fundarstjóri að tillagan væri í fjórum stafliðum, a-d, og lagði fram að hver stafliður tillagnanna yrði afgreiddur sér. Var það samþykkt.
Fundarstjóri bauð þá umræður um staflið a) í 2. breytingatillögu, um fækkun stjórnarmanna. Urðu nokkrar umræður um tillöguna. Til máls tóku þrettán fundarmenn. Ræddu menn skilvirkni, samskipti, upplýsingaflæði og tengsl við grasrótina, heildarskipulag ÖBÍ, formannafundi, málefnahópa og stefnuþing.
Gísli Helgason frá Blindravinafélagi Íslands lagði til að 18. gr. yrði óbreytt og öllum breytingartillögum á henni yrði vísað frá.
Fundarstjóri tók frávísunartillögu Gísla til afgreiðslu og var hún felld með 36 atkvæðum gegn 32.
Því næst bar fundarstjóri upp til atkvæða upphaflega tillögu, staflið a) af 2. breytingartillögu, um fækkun stjórnarmanna. Greidd voru 92 atkvæði, 53 voru með og 39 á móti, og einn sat hjá. Tillagan var felld.
Þá tók fundarstjóri staflið b) af 2. tillögu, um umboð stjórnarmanna, til afgreiðslu. Engar umræður urðu. Var tillagan samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur. Verður 1. mgr. 18. gr. Stjórn, A. Kosningar því svo hljóðandi (viðbót feitletruð):
Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnun: formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum. Stjórnarmenn sitja í umboði aðalfundar en ekki einstakra aðildarfélaga.
Þá tók fundarstjóri starflið c) af 2. tillögu, til afgreiðslu og bauð umræður. Til máls tóku tíu fundarmenn. Menn voru almennt á móti tillögunni.
Eftir umræður bar fundarstjóri staflið c) af 2. breytingatillögu upp til atkvæða. Var tillagan felld með meirihluta atkvæða.
Þá tók fundarstjóri staflið d) í 2. tillögu til afgreiðslu. Urðu nokkrar umræður um tillöguna. Til máls tóku fimm fundarmenn. Menn voru almennt á móti tillögunni.
Þá bar fundarstjóri staflið d) af 2. tillögu upp til atkvæða. Var tillagan felld með þorra atkvæða gegn tveimur.
Fundarstjóri tók þá 3. tillögu, um varaformenn málefnahópa, til afgreiðslu og bauð umræður. Til máls tóku þrír fundarmenn sem ræddu mikilvægi varaformanns ef formaður forfallast.
Eftir umræður bar fundarstjóri 3. tillögu upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða. Verður 23. gr. því svohljóðandi (ný 3. mgr. feitletruð)
23. gr. Málefnahópar
Innan bandalagsins skulu starfa fimm fastir málefnahópar. Hlutverk þeirra er að leggja fram tillögur í hagsmunamálum í samræmi við áherslur stefnuþings. Aðalfundur ákveður málefni þeirra eftir tillögu stefnuþings. Formenn þeirra skulu kosnir á aðalfundi. Hvert félag getur átt mest einn formann málefnahóps á hverjum tíma.
Stjórn velur einstaklinga í málefnahópa að fengnum tilnefningum frá aðildarfélögunum. Meðlimir hvers málefnahóps skulu vera sjö að hámarki að formanni meðtöldum. Stjórn skal leitast við að gæta jafnræðis á milli aðildarfélaga við skipun í málefnahópa. Fulltrúar í málefnahópum geta setið að hámarki í hverjum hópi í þrjú heil kjörtímabil samfellt. Seta sem formaður málefnahóps er óháð fyrri setu í málefnahópi.
Málefnahópur skal kjósa sér varaformann. Hverfi formaður málefnahóps úr embætti sínu tekur varaformaður hópsins við sem starfandi formaður fram að næsta aðalfundi. Hann tekur einnig sæti formanns málefnahópsins í stjórn en án atkvæðisréttar. Varamaður í stjórn tekur þá við atkvæðisrétti formanns málefnahópsins. Ákvæði síðasta málsliðar 1. mgr. á ekki við um starfandi formann.
Málefnahópar skulu gefa stjórn stöðuskýrslu á a.m.k. sex mánaða fresti. Formenn þeirra skulu hafa samráð sín á milli.
Fundarstjóri tók þá 4. tillögu, um varamenn í kjörnefnd og laganefnd, til afgreiðslu og bauð umræður. Enginn kvaddi sér hljóðs og þá bar fundarstjóri tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða. Verður þá 11. gr. C. liður svo hljóðandi (ný 3. mgr. málsgrein feitletruð):
11. gr. Dagskrá aðalfundar
D. Aðrar kosningar til tveggja ára
14. Kosning fimm manna kjörnefndar og tveggja til vara.
15. Kosning fimm manna laganefndar og tveggja til vara.
16. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.
Þá bar fundarstjóri lög ÖBÍ upp til atkvæða í heild sinni, svo breytt. Voru þau samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.
Aðildarumsóknir (18)
Tvær aðildarumsóknir bárust innan tilskilins frests og uppfylltu skilyrði laga ÖBÍ.
Fundarstjóri tók til afgreiðslu umsókn frá Vífli, félagi einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir (sjá fskj. nr. 15).
Framkvæmdastjóri sagði stjórn hafa tekið umsóknina fyrir og staðfest að hún uppfyllti skilyrði laga ÖBÍ. Fundarstjóri bauð umræður og bar að þeim loknum umsóknina upp til atkvæða. Var aðildarumsókn Vífils samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur og sjö sátu hjá.
Fundarstjóri tók til afgreiðslu umsókn frá Samtökum um edómetríósu (sjá fskj. nr. 16).
Framkvæmdastjóri sagði stjórn hafa tekið umsóknina fyrir og staðfest að hún uppfyllti skilyrði laga ÖBÍ. Fundarstjóri bauð umræður og bar svo umsóknina upp til atkvæða. Var aðildarumsókn Samtaka um endómetríósu samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur og fjórir sátu hjá.
Ályktanir aðalfundar (19)
Engar ályktanir bárust framkvæmdastjórn innan tilskilins frests, en sex ályktanir höfðu borist fyrir fundinn og fundarstjóri óskaði leyfis fundarins til að taka ályktanirnar fyrir. Var það samþykkt.
Formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, kynnti aðalályktun fundarins, svo hljóðandi (sjá fskj. nr. 17):
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2018, krefst þess að Alþingi breyti fjárlagafrumvarpi ársins 2019 og forgangsraði í þágu þeirra sem verst standa í íslensku samfélagi.
Stjórnvöld hafa sýnt á spilin. Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019. Þar er gert ráð fyrir að greiðslur TR til örorkulífeyrisþegar hækki um 3,4%. Á sama tíma er verðbólguspá 2,9%. Því er raunhækkun ekki nema 0,5% ef spár standast. Enn og aftur bregðast stjórnvöld þeim sem síst skyldi með því að afhenda fötluðu og langveiku fólki raunhækkun upp á 1.200 kr. á mánuði fyrir skatt.
Einstaklingur með óskertan örorkulífeyri hefur einungis 204.000 kr. til ráðstöfunar á mánuði eftir skatt. Þrátt fyrir lengsta hagvaxtarskeið sögunnar hafa örorkulífeyrisþegar ekki fengið leiðréttingu á sínum kjörum eins og aðrir hópar. Þvert á móti er stórum hópi örorkulífeyrisþega haldið í fátæktargildru með lága framfærslu og „krónu á móti krónu skerðingu auk þess sem frítekjumörk hafa verið óbreytt frá hruni.
Almenningur tók á sig kjaraskerðingu í kjölfar hruns árið 2008. Síðan þá hafa aðrir hópar samfélagsins fengið leiðréttingu á kjörum en ekki fatlað og langveikt fólk. Á tímabilinu 2010-2016 hækkaði þingfararkaup um tæp 600.000 kr. á mánuði á meðan örorkulífeyrir TR hækkaði einungis um 60.000 kr.
Það er öllum ljóst að „kjarabætur” upp á 1.200 kr. eins og nú er lagt til er blaut tuska í andlitið sér í lagi þegar haft er í huga að forsætisráðherra hefur í ræðu og riti lagt áherslu á að sporna gegn fátækt og ójöfnuði. Framkvæmdin er allt önnur.
Setjum manngildi ofar auðgildi – Skiljum engan eftir.
Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Tóku fjórir fundarmenn til máls og voru ánægðir með ályktunina. Kom fram hvatning til að allir standi saman um ályktunina því aldrei áður hafi reynt eins mikið á hana og nú. Lagt var til að nota ályktunina sem tæki í kjarabaráttu öryrkja á fundum með félagsmálaráðherra og verkalýðshreyfingunni. Því var fagnað að stjórn ÖBÍ færi á fund með ráðamönnum og þrýsti á hækkun örorkulífeyris.
Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæðagreiðslu og var hún samþykkt samhljóða.
Formaður kynnti þá ályktun um aðgengi fyrir alla (sjá fskj. nr. 18):
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2019 ályktar um mikilvægi þess að aðgengi sé fyrir alla.
Samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum á að gæta þess sérstaklega að aðgangur fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi sé til jafns við aðra. Þrátt fyrir skýr ákvæði um algilda hönnun í byggingarreglugerð er enn verið að byggja óaðgengilegt húsnæði og önnur mannvirki. Ábyrgðin liggur hjá hönnuðum, arkitektum, verktökum og byggingafulltrúum sveitarfélaga sem eiga að hafa eftirlit með því að reglum sé framfylgt.
Þjóðin eldist og þörf fyrir aðgengilegt húsnæði og þjónustu mun aukast mikið á komandi árum. Mikill skortur er á aðgengilegu húsnæði, þar sem lítið var hugsað fyrir aðgengi fyrir alla á árum áður sem er höfuðástæða þess að þurft hefur að byggja aðgengilegt húsnæði sérstaklega fyrir fatlað fólk á öllum aldri.
Okkar krafa er að lögum og reglum sé framfylgt þannig að aðgengi sé fyrir alla.
Ekkert um okkur án okkar!
Fundarstjóri bauð umræður. Spurt var um rafrænt aðgengi og aðgang að vefjum.
Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða. Einn sat hjá.
Formaður kynnti ályktun um atvinnu- og menntamál (sjá fskj. nr. 19).
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), haldinn 5. og 6. október 2018, skorar á stjórnvöld að:
-
Auka atvinnutækifæri fatlaðs fólks með skerta starfsgetu þannig að í boði verði fjölbreyttari störf á vinnumarkaði.
-
Innleiða hvatningakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir til að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu.
-
Tryggja viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði.
-
Auka námsframboð fyrir ungt fólk með sérþarfir.
-
Koma á fót símenntunar- og starfsmenntunarsjóði fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu.
Fundarstjóri bauð umræður. Ellefu fundarmenn tóku til máls. Í máli þeirra kom fram mikil andstaða við starfsgetumat og þótti mörgum að sú andstaða þyrfti að birtast í ályktuninni. Vinnumarkaðurinn þarf að breytast til að hægt sé að taka upp starfsgetumat.
Formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál lagði til þá breytingu, að bæta við fyrsta lið og nýjan lið aftast „efla núverandi kerfi örorkumats í stað tilraunakennds starfsgetumats“.
Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður lagði til að vísa ályktuninni til stjórnar til umfjöllunar og afgreiðslu.
Fram kom að málefnahópur um atvinnu- og menntamál væri sundraður í málinu og styddu tillögu varaformanns um að vísa ályktuninni til stjórnar ÖBÍ til umræðu og afgreiðslu.
Fundarstjóri bar upp þá tillögu að vísa ályktuninni til stjórnar og var hún samþykkt með þorra atkvæða gegn átta.
Formaður kynnti ályktun um kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu (sjá fskj. 20).
Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2019 ályktar um kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu.
Í ljósi skýrra loforða ríkisstjórnarinnar um að draga úr kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu ályktar aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) að lagðar verði fram frekari áætlanir um það hvar það eigi að gerast og hvenær.
Þegar hafa verið stigin fyrstu skref varðandi tannheilsu lífeyrisþega, en fátt annað liggur fyrir. Öryrkjabandalag Íslands leggur áherslu á eftirfarandi:
- Samningur um tannlæknakostnað lífeyrisþega verði fullfjármagnaður á árinu 2019 þannig að ríkið greiði 75% af kostnaði.
- Kostnaðarþátttaka í heilbrigðisþjónustu verði leiðrétt á árinu 2019 þannig að lífeyrisþegar greiði ekki meira en þriðjung af kostnaði almennra notenda.
- Lækka þarf kostnað sjúkratryggðra í greiðsluþátttökukerfum heilbrigðisþjónustu og lyfja, svo fólk fresti ekki eða sleppi því að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
- Nauðsynlegir þjónustuþættir og lyf sem ekki falla undir núverandi greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu og lyfjum verði sett undir þök kerfanna.
Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Sveinn Rúnar Hauksson, Geðhjálp, lagði fram tillögu um viðbót við ályktunina. Garðar Sverrisson, ásamt fleirum, lagði fram ályktun um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu og báðu um að henni yrði skeytt við ályktunina.
Emil Thóroddsen, formaður málefnahóps um heilbrigðismál, benti á að ekki væri hægt að álykta um allt. Málefnahópurinn ákvað að einblína á greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu í ályktun sinni.
Fundarstjóri lagði til að greidd yrðu atkvæði um ályktunina og breytingartillögurnar tvær hverja í sínu lagi. Fundarstjóri las upp tillögu Sveins Rúnars Haukssonar og tillögu Garðars Sverrissonar og félaga. Ákveðið var að vísa báðum breytingartillögum í önnur mál.
Fundarstjóri bar þá upprunarlega ályktun upp til atkvæða og var hún samþykkt.
Formaður kynnti ályktun um kjaramál (sjá fskj. nr. 21).
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2019 skorar á alla þingmenn að bæta kjör örorkulífeyrisþega með því að hafa áhrif á fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2019 með eftirfarandi hætti:
- Hækka óskertan lífeyri almannatrygginga frá 1.1.2019 í 413.000 kr.
- Afnema „krónu á móti krónu“ skerðingu sérstakrar framfærsluppbótar.
- Draga verulega úr tekjuskerðingum í almannatryggingakerfinu.
- Hækka persónuafslátt þannig að ekki verði greiddur tekjuskattur af tekjum undir 300.000 kr. á mánuði.
- Setja lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyrisþega vegna greiðslna úr almannatryggingakerfinu.
Fundarstjóri bauð umræður en enginn tók til máls. Þá var ályktunin borinn upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.
Formaður kynnti ályktun um málefni barna (sjá fskj. nr. 22).
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), haldinn 5. og 6. október 2018 skorar á stjórnvöld að:
- Jafna tækifæri til náms og tryggja að nemendur með sérþarfir (stuðningsþarfir) fái þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á innan skólakerfisins.
- Tryggja réttindi barna og gæta að því að hagur þeirra vegi þyngst í öllum ákvörðunum sem um þau eru tekin.
- Tryggja að raddir barna fái aukið vægi innan kerfisins.
- Tryggja heildstæða einstaklingsmiðaða þjónustu í leik- og grunnskólum.
- Tryggja fötluðum börnum rétt til íþrótta- og tómstundaiðkunar til jafns við aðra.
- Auka geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga og eyða biðlistum.
Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Til máls tóku fjórir fundarmenn. Samþykkt var að bæta orðinu stuðningsþarfir innan sviga við á eftir orðinu sérþarfir.
Fundarstjóri bar ályktunina um málefni barna, með breytingum, upp til atkvæða. Ályktunin var samþykkt samhljóða.
Formaður kynnti ályktun um mannréttindavernd fatlaðs fólks (sjá fskj. nr. 23).
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) skorar á stjórnvöld að virða þá alþjóðasáttmála sem íslenska ríkið hefur undirgengist til að tryggja mannréttindavernd fatlaðs fólks. ÖBÍ leggur áherslu á eftirfarandi atriði:
- Að Alþingi samþykki fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í tillögunni kemur fram að lögfesta eigi samninginn eigi síðar en 13. desember 2019, á 13 ára afmælisdegi samningsins.
- Að stjórnvöld fullgildi valfrjálsu bókunina við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. ÖBÍ fordæmir að það hafi ekki verið gert þrátt fyrir að Alþingi ályktaði þann 20. september 2016 að hún skyldi fullgilt eigi síðar en í árslok 2017.
- ÖBÍ fagnar lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, þar sem kveðið er á um bann við mismunun á vinnumarkaði á grundvelli fötlunar. ÖBÍ harmar þó þá ákvörðun löggjafans að ekkert fjármagn hafi fylgt með lögfestingunni til að tryggja rétta framkvæmd laganna.
Fundarstjóri bauð umræður en enginn kvaddi sér hljóðs. Þá var ályktun um mannréttindavernd fatlaðs fólks borin upp til atkvæða og samþykkt samhljóða.
Formaður kynnti ályktun um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) (sjá fskj. nr. 24)
Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 5. og 6. október 2018 um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) fagnar innilega að réttur fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) hafi verið lögfestur. NPA tryggir að fatlað fólk getur notið frelsis til jafns við aðra.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina en engar umræður urðu. Fundarstjóri bar ályktun um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.
Önnur mál (20)
Fundarstjóri fékk samþykki fundarins fyrir því að taka til afgreiðslu aðrar tillögur og ályktanir undir liðnum Önnur mál.
Tillaga um viðbót við ályktun um heilbrigðismál
Fyrst var tekin til afgreiðslu ályktun frá Sveini Rúnari Haukssyni, varaformanni Geðhjálpar, um heilbrigðismál, (sjá fskj. nr. 25). Fundarstjóri bauð umræður. Til máls tóku fimm fundarmenn, fylgjandi tillögunni. Bent var á tvítekningu í ályktunum fundarins og lögð var til stytting á ályktun Sveins, sem var samþykkt.
Þá kynnti fundarstjóri ályktunina með áorðnum breytingum svo hljóðandi:
Aðalfundur ÖBÍ 5.-6. október 2018 skorar á ríkisstjórn og Alþingi að fella úr gildi lög og lagaákvæði sem leggja grunn að beitingu nauðungar og ofbeldis gagnvart fólki með geðraskanir.
Núgildandi lög um lögræði stangast í veigamiklum atriðum á við ákvæði sáttmála SÞ.
Var ályktunin borin upp til atkvæða og samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu.
Ályktun um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu
Þá tók fundarstjóri til afgreiðslu tillögu um ályktun aðalfundar ÖBÍ um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu, svo hljóðandi (sjá fskj. nr. 26):
Aðalfundur ÖBÍ skorar á Alþingi að setja ströng viðurlög við því að skrá ekki og tilkynna um óvænt alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu, bæði innan stofnana og til réttra yfirvalda.
Flutningsmenn tillögunnar voru Garðar Sverrisson, Rósa María Hjörvar, Einar Þór Jónsson, Guðrún Sæmundsdóttir, Sveinn Rúnar Hauksson, Sylviane Pétursson-Lecoultre og Guðmundur Johnsen.
Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna en enginn kvaddi sér hljóðs. Þá var tillagan borin upp til atkvæða og var hún samþykkt.
Tillaga um aðgengiseftirlit
Arnar Helgi Lárusson frá SEM – samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra kvaddi sér hljóðs. Arnar Helgi taldi tímabært að gera eitthvað róttækt í aðgengismálum og lagði fram eftirfarandi tillögu:
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5.-6. október 2018 samþykkir að fela stjórn ÖBÍ að koma á fót aðgengiseftirliti og tryggja fjármögnun fyrir tveimur stöðugildum. Stjórn útfærir aðgengiseftirlitið í nánu samráði við málefnahóp Öryrkjabandalagsins um aðgengismál.
Fundarstjóri bauð fundarmönnum að ræða tillöguna. Til máls tóku átta fundarmenn. Töldu fundarmenn tillöguna góða en að málið þarfnaðist frekari vinnslu.
Fram kom dagskrártillaga um að vísa tillögu Arnars Helga til stjórnar (sjá fskj. nr. 27a). Var hún samþykkt með þorra atkvæða gegn fjórum.
Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.
Fundarlok
Formaður þakkaði góðan fund, starfsfólki fyrir störf sín og óskaði nýkjörnum fulltrúum til hamingju með embætti sín. Formaður þakkaði samstarfið á þessu fyrsta ári sínu sem formaður, full tilhlökkunar til þess næsta.
Formaður sleit fundi kl. 18:02.
1) Dagskrá aðalfundar 5. og 6. október 2018
2) Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2017-2018
3) Ársreikningur ÖBÍ 2017
4) Ársreikningar fyrirtækja
a) BRYNJA hússjóður Öryrkjabandalagsins
b) Örtækni
c) Hringsjá
d) Fjölmennt
5) Niðurstöður stefnuþings 2018 fylgiskjöl a) til f)
a) varðandi málefnahóp um aðgengismál
b) varðandi málefnahóp um atvinnu- og menntamál
c) varðandi málefnahóp um heilbrigðismál
d) varðandi málefnahóp um kjaramál
e) varðandi málefnahóp um sjálfstætt líf
f) varðandi málefnahóp um málefni barna
6) Tillaga að aðildargjaldi 2019
a) Breytingartillaga frá Arnari Helga Lárussyni
7) Tillaga að þóknun fyrir stjórnarsetu ÖBÍ
8) Fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ á aðalfundi 2018
9) Yfirlit yfir framboð til stjórnar ÖBÍ 2018
10) Varaformaður ÖBÍ – kynning frambjóðanda, Halldór Sævar Guðbergsson
11) Gjaldkeri – kynning frambjóðanda, Bergur Þorri Benjamínsson
12) Frambjóðendur til stjórnar ÖBÍ 2018, fylgiskjöl a) til h)
a) Dóra Ingvarsdóttir
b) Einar Þór Jónsson
c) Elva Dögg Gunnarsdóttir
d) Fríða Bragadóttir
e) Fríða Rún Þórðardóttir
f) Garðar Sverrisson
g) Karl Þorsteinsson
h) Þorsteinn Þorsteinsson
i) Niðurstöður kosninga
13) Lög Öryrkjabandalags Íslands, síðast breytt 2017
14) Lagabreytingartillögur a) til e)
15) Samtök um endómetríósu
a) Samtök um endómetríósu, aðildarumsókn
b) Lög Samtaka um endómetríósu
c) Samtök um endómetríósu, ársreikningur 2015
d) Samtök um endometríósu, ársreikningur 2016
e) Samtök um endómetríósu, ársreikningur 2017
f) Samtök um endómetríósu, stjórn og nefndir 2018
g) Samtök um endómetríósu, upplýsingar um endómetríósu 2018
16) Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
a) Vífill, aðildarumsókn 2018
b) Lög Vífils
c) Vífill, ársreikningur 2015
d) Vífill, ársreikningur 2016
e) Vífill, ársreikningur 2017
f) Vífill, upplýsingar um stjórn og trúnaðarstöður
17) Ályktun aðalfundar
18) Ályktun um aðgengi fyrir alla
19) Ályktun um atvinnu- og menntamál
20) Ályktun um kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu
21) Ályktun um kjaramál
22) Ályktun um málefni barna
23) Ályktun um mannréttindi fatlaðs fólks
24) Ályktun um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA)
25) Tillaga að ályktun um heilbrigðismál frá Sveini Rúnari Haukssyni
26) Tillaga að ályktun um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu
27) Tillaga um aðgengiseftirlit
a) Dagskrártillaga um vísun til stjórnar