Skip to main content

Ársskýrsla ÖBÍ 2021-2022

Ársskýrsla ÖBÍ er gefin út rafrænt og á prenti.  Þú getur hlustað á ársskýrsluna á þessari síðu með talþulu. Eldri ársskýrslur, útgefnar á árunum 2016 til 2021 má finna neðst á þessari síðu. Þær eru á PDF formi og aðgengisvottaðar af Adobe.

Ávarp formanns

Kæru félagar!

Margt hefur gerst á síðastliðnum tólf mánuðum og verkefnin verið ærin, sum erfiðari en önnur, bæði hvað varðar innra starf og svo það ytra. Stjórn hefur verið mjög samstíga um að leysa mál vel og er allt unnið með það í huga að bæta okkar starf og samfélag til hagsbóta fötluðu fólki. Þetta var frábært ár að mörgu leyti og bind ég miklar vonir við að fram undan sé uppskerutíð eftir alla þá vinnu og kraft sem fjöldi fólks hefur lagt af mörkum og unnið að í áratugi. Að við uppskerum réttlæti, velvilja og skilning, og að viðhorf gagnvart fötluðu fólki verði mælanlega betra.

Samkvæmt 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hér eftir SRFF, er markmið hans að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.

Til fatlaðs fólks teljast m.a. þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Ég tel ástæðu til að skerpa á því hér í upphafsorðum mínum, að öryrkjar eru fatlað fólk. Raunar er það svo að um 15% mannkyns telst til fatlaðs fólks, það eru því mun fleiri í samfélaginu sem teljast til þess hóps heldur en þeirra sem eru með örorkumat. Fimmtán prósent þjóðarinnar jafngilda rúmlega 56.400 manns. Í skýrslunni mun ég tala um fatlað fólk enda heyra öryrkjar undir þann hóp og ÖBÍ er heildarsamtök fatlaðs fólks, sem þýðir að aðildarfélögin samanstanda af fötluðu fólki og aðstandendum þess.

Fyrirtæki tengd ÖBÍ eru Hringsjá, starfs- og námsendurhæfing, Örtækni og Brynja. Hringsjá fór í stefnumótun á vordögum 2022. Helstu niðurstöður voru að halda áfram á sömu braut en bjóða upp á fleiri styttri brautir þar sem meiri áhersla verði lögð á að vinna með heilsubrest samhliða náminu og auka stuðning við nemendur í námi í öðrum skólum.

Hjá Örtækni tók nýr framkvæmdastjóri við í október 2021. Fyrrum framkvæmdastjóra Þorsteini Jóhannssyni var þakkað gott starf til 28 ára á aðalfundi ÖBÍ 2021. Unnið er að því að efla Örtækni og auka við verkefnin. Bæði fyrirtækin hafa alla burði til að vaxa og dafna og verður gaman að fylgjast með þeim á næstu árum.

Brynja hússjóður ÖBÍ, hér eftir Brynja, skiptir fatlað fólk á leigumarkaði gríðarmiklu máli. Fyrirtækið rekur hátt í 900 íbúðir og veltir milljörðum. Nýr framkvæmdastjóri hóf störf í nóvember 2021 og í febrúar 2022 skipaði ÖBÍ núverandi stjórn Brynju eftir talsverðar vendingar. Stjórnin er skipuð þremur fulltrúum úr aðildarfélögum ÖBÍ og tveimur fagaðilum, sem eru fulltrúar utan aðildarfélaga. Er þetta í fyrsta sinn sem utanaðkomandi fagaðilar eru skipaðir í stjórn Brynju. Stjórn ÖBÍ er þess fullviss að þetta hafi verið mikið gæfuspor fyrir sjóðinn, enda var stjórn einhuga og samhent um öll skref sem tekin voru varðandi skipan nýs stjórnarfólks hjá sjóðnum.

Á tímabilinu fórum við í gegnum alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar. Nýr ráðherra tók við völdum í félagsmálaráðuneytinu sem heitir nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kom fram skýrt umboð hans til að fara í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu, þá kom fram að setja ætti á laggirnar óháða mannréttindastofnun og lögfesta SRFF á kjörtímabilinu. Ráðherra var strax mjög skýr í tali þegar hann ræddi málefni fatlaðs fólks því honum er umhugað um að gera breytingar sem verða til hagsbóta fyrir fatlað fólk. Hann hefur einnig kappkostað að koma á virku og reglubundnu samtali við ÖBÍ og önnur hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Við horfum bjartsýn til komandi árs og eins og ég nefndi áðan, gerum við ráð fyrir að nú sé komið að uppskerutíð í málefnum fatlaðs fólks.

Bandalaginu er treyst fyrir miklum hagsmunum og er ábyrgðaraðili í hverskonar samráði við stjórnvöld. Sjónarmið okkar eru tekin til skoðunar og samráð stöðugt að aukast. Við höfum unnið vel og ötullega fyrir því trausti. Samstaða okkar allra er dýrmæt og stefnum við að sama marki sem öflug heild, saman erum við sterkari. Rödd okkar þarf að vera skýr og samhljóma, við tölum einum rómi um það sem máli skiptir fyrir fatlað fólk.

Að lokum þakka ég öllu því dugmikla fólki sem unnið hefur í þágu bandalagsins. Sérstakar þakkir fær stjórn, starfsfólk og framkvæmdastjóri fyrir gott samstarf.

Þuríður Harpa með kaffibolla í hönd með fartölvu fyrir framan sig.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Mynd: Eddi Jóns.

 

Endurmörkun ÖBÍ

Með reglulegu millibili hafa áherslur og aðferðir ÖBÍ verið endurskoðaðar með tilliti til tíðaranda, stöðu réttinda og þeirra verkefna sem fyrir liggja. Á stefnuþingi ÖBÍ fyrir tæpu einu og hálfu ári kom fram ákall um að sleginn yrði nýr tónn hjá bandalaginu og í stefnu þess er nú „sterk jákvæð ímynd“ ein af áherslunum. Í byrjun 2022 voru gerðar kannanir innan og utan ÖBÍ og farið í greiningarvinnu sem dýpkuð var enn frekar á stefnuþingi bandalagsins 1. apríl. Í framhaldi tók við hönnunarferli og endurmörkun til næstu ára.

ÖBÍ fagnar nú nýju merki, útliti og tóni. Samhliða þessum breytingum hefur nýr vefur samtakanna verið opnaður þar sem höfuðáhersla er á aðgengi, notendaupplifun og öfluga miðlun.

Nýtt lógó ÖBÍ

Nánar um nýja ásýnd

Aðalliturinn í nýrri ásýnd er fjólublár, sem er einkennislitur réttindabaráttu fatlaðs fólks víða um heim. Hann er alþjóðlegt tákn fyrir hugrekki og nýja nálgun í baráttunni fyrir jöfnum réttindum og samfélagslegri þátttöku á forsendum hvers og eins.

Merkið er kröftugt og mjúkt í senn. Skáskurður í stafnum b minnir á að fatlað fólk er að jafnaði 15% af mannfjölda og þó að vanti upp á að stafurinn sé heill þá þjónar hann sínu hlutverki jafn vel og aðrir. Að auki fær skammstöfunin undirtitilinn „réttindasamtök“ sem undirstrikar það hlutverk samtakanna að sækja rétt fatlaðs fólks.

Nánar um nýjan tón

Um leið er með merkinu sleginn upphafstónn nýrrar hugsunar í markaðsefni ÖBÍ sem gengur út á áherslu á hið jákvæða. Lögð er áhersla á orku, jöfnuð og réttindi, og hverfa ör-, ó- og for- í bakgrunn. Hugmyndin er að útrýma þessum takmarkandi forskeytum, ef ekki eiginlega þá í það minnsta samfélagslega. Krafan er (ó)réttlæti og (ó)jöfnuður og sterkasta vopnið í baráttunni er (ó)sýnileiki.

 Endurmörkun: ENNEMM. Vefur: Opin kerfi

 

Skýrsla formanns og stjórnar

Enn á ný minna náttúruöflin á sig og jarðvísindafólk segir að búast megi við að eldvirkni verði á Reykjanesi út okkar lífstíð. Eldgosið í Geldingadölum sem lognaðist út af í lok 2021 var kannski bara fyrirboði stærri hamfara. Gott var að sjá á bak samkomutakmörkunum vegna Covid-19 á vormánuðum 2022. Fólk er frelsinu fegið og hafa ferðalög einkennt athæfi landans í sumar. Áratuga friður í Evrópu leið undir lok en fæst okkar hafa lifað styrjaldarástand líkt og er nú í Úkraínu. Við Íslendingar, eins og margar aðrar þjóðir, höfum tekið á móti flóttafólki af átakasvæðunum og hefur ÖBÍ í starfi sínu undanfarna mánuði lagt áherslu á móttöku fatlaðs flóttafólks. Í stríði er það nöturleg staðreynd að fatlað fólk er skilið eftir.

Ný ríkisstjórn og nýir ráðherrar, sveitarstjórnarkosningar, nýjar sveitarstjórnir og sveitarstjórar og við sjálf, bandalagið, í naflaskoðun að framfylgja nýrri stefnu og horfa til framtíðar. Engin stöðnun hefur verið í okkar herbúðum heldur stöðug þróun og breytingar til batnaðar. Við erum á siglingu í átt að settum markmiðum. Við höfum verið í góðu sambandi og stöðugu samráði við stjórnvöld síðan ný ríkisstjórn kom saman. Við höfum knúið fast á um samráð og er það að skila sér. Það sem hæst hefur borið á starfsárinu er ekki eitt eða tvennt heldur margt. Heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu, aðgengismál og atvinnumál voru áberandi, heilbrigðismál eru ofarlega á lista og húsnæðismál hafa verið mikið í umræðunni sem og kjaramál sem stöðugt verða mikilvægari ásamt málefnum barna. Þá höfum við verið í töluverðum samskiptum við sveitarfélög, meðal annars vegna aðgengisfulltrúa og notendaráða.

Ný stefna – ÖBÍ réttindasamtök

Árið 2022 hefur verið ár naflaskoðunar, þar sem bandalagið hefur horft inná við, með það fyrir augum að fylgja nýrri stefnu sem samþykkt var á aðalfundi 2021. Stefnan byggist á níu meginmarkmiðum sem öll eiga að stuðla að langtímaumbótum og jákvæðum breytingum. Áherslurnar eru leiðbeinandi í starfi málefnahópa og aðildarfélaga.

Stefnuþing

Þann 1. apríl 2022 hélt bandalagið eins dags stefnuþing um ímynd ÖBÍ, en sterk jákvæði ímynd ÖBÍ var eitt af því sem stefnuþingið setti á oddinn 2021. Arnar Pálsson frá Arcur stýrði stefnuþinginu og tóku yfir 100 manns þátt frá aðildarfélögum bandalagsins. Fulltrúar frá ENNEMM auglýsingastofu og OK/Premis veffyrirtæki voru með innlegg og vinnustofur, en þau fyrirtæki unnu í kjölfarið áfram með hugmyndir og niðurstöður þingsins varðandi endurmörkun vörumerkis ÖBÍ auk smíði á nýjum vef. Á þinginu var samþykkt að leggja fyrir aðalfund ÖBÍ tillögu um að kjarni núverandi stefnu bandalagsins gildi til 2030.

Endurmörkun

Nýtt merki ÖBÍ réttindasamtaka var hannað og því fylgt eftir með frísklegri hönnun útlits og umhverfisgrafíkur. Ný ímynd var kynnt í september 2022 og um leið var nýr vefur tekinn í gagnið. Kynningunni var fylgt eftir á ýmsan máta. Tvennt hefur verið í umræðu lengi, annarsvegar hvort breyta eigi nafni Öryrkjabandalagsins og hins vegar merki og útliti. Ákveðið var að nota nafnið ÖBÍ, sem er vel þekkt. Nýtt merki ÖBÍ er sterkt, einfalt og nútímalegt og vísar til þess að 15% mannkyns er fatlað fólk auk þess sem fjólublái liturinn tengist alþjóðlegum lit fatlaðs fólks.

Samskipti við stjórnvöld

ÖBÍ vinnur stöðugt að réttlátara samfélagi þar sem fatlað fólk nýtur alhliða heilbrigðisþjónustu, aðgengi að manngerðu umhverfi er gott, sem og stafrænt aðgengi, öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði er í boði og lífeyrir sem dugar út mánuðinn. Í réttlátara samfélagi nýtur fatlað fólk menntunar og hefur aðgang að fjölbreyttri flóru starfa. Til þess að þoka þessum málum fram veginn eigum við samtöl og samráð við þingmenn, ráðuneyti og stofnanir ríkisins. Við verjum það sem áunnist hefur og sækjum fram.

Samráð

Það er hagsmunasamtökum eins og ÖBÍ afar mikilvægt að vel takist til að virkja stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, eða ein-staka stofnanir, til að viðhafa merkingarbært samráð. Það er einnig í anda samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og höfum við unnið hörðum höndum að því að auka skilning okkar ytri hagaðila á mikilvægi samráðs.

Í 4. grein SRFF stendur að „við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Mikilvægt er í allri hagsmunabaráttu okkar að tryggja aðkomu ÖBÍ að málum á fyrstu stigum þeirra. Stjórnvöld eru mun meðvitaðri um samráðsskylduna, sem er skylda frá fyrstu stundu þegar málefni fatlaðs fólks eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Talsvert aukið samráð má merkja meðal annars á fjölgun samráðsnefnda, starfsnefnda og hópa hjá ráðuneytum, þar sem óskað er eftir fulltrúum fatlaðs fólks.

Ánægjulegt og til vitnis um ákveðna vitundarvakningu og árangur erfiðis okkar er að reglulegum fundum með ráðherrum og starfsfólki ráðuneyta, sem og þingmönnum hefur fjölgað. Meðal annars hefur komist á sú regla með núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra að funda reglulega, á um það bil fimm vikna fresti. Niðurstaðan er samstarf, sem báðir aðilar eru sammála um að vinna heilshugar að. Þetta þýðir ekki að við séum alltaf ánægð með niðurstöðuna, en breyting til batnaðar er alltaf betri en kyrrstaða og stöðnun, þó oft megi lengra ganga að okkar mati.

Vegna þessara funda náðist til dæmis fram sérstök eingreiðsla í desember sem farið hefur verið fram á að verði áframhald á. Einnig náðist fram einstök hækkun á lífeyri almannatrygginga á miðju ári, sem aðeins hefur hækkað hingað til um áramót, vegna þeirra aðstæðna í efnahagslífinu sem nú eru. Það kemur einnig skýrt fram í sáttmála ríkisstjórnarinnar að lögfesting SRFF verði á kjörtímabilinu.

Stjórnmálafólk

Á starfsárinu tókum við á móti fjölmörgum frambjóðendum til Alþingis, funduðum með frambjóðendum til sveitarstjórna og áttum fjölda samtala og fundi með einstaka þingmönnum og ráðherrum um málefni sem kröfðust aðgerða til að fatlað fólk eigi líf til jafns við aðra. Kjaramál eru þau mál sem hæst ber því staðreyndin er að fatlað fólk býr við kröppust kjör í okkar samfélagi og stjórnvöld þurfa að stíga af hugrekki þau skref að hækka lífeyri þannig að hann sé að minnsta kosti á pari við lágmarkslaun. Það er upplifun okkar að þessir fundir og samtöl leiði til aukins skilnings.

Sveitarfélög

Samráðsvettvangur

Nærsamfélag hvers einstaklings er sveitarfélagið. Því er mikilvægt að eiga reglubundna fundi með samtökum sveitarfélaga sem og samtöl við einstök sveitarfélög. Til að mynda eru reglulegir fundir með stjórnendum á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Þessi samráðsvettvangur er dýrmætur og reyndist sérlega vel í aðdraganda þess að Reykjavíkurborg setti sér nýjar reglur um þjónustu við fatlað fólk varðandi heimastuðning og stoð- og stuðningsþjónustu, sem tóku gildi í febrúar 2022. Hugmyndafræði SRFF endurspeglast  í nýju reglunum, sem er í anda þess sem ÖBÍ vinnur eftir. Þau sveitarfélög sem vilja viðhafa góða starfshætti ættu að taka Reykjavíkurborg sér til fyrirmyndar, sem er leiðandi sveitarfélag.

Fræðsla til sveitarfélaga um SRFF

Bandalagið, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, stóð fyrir fræðslufundi á Zoom um SRFF í febrúar 2022. Fundurinn var ætlaður stjórnendum og fagfólki í málaflokknum, s.s. fólki sem vinnur í félagsþjónustu og á velferðarsviðum sveitarfélaga.  Á fundinum fór Rannveig Traustadóttir, prófessor Emerita í fötlunarfræði í HÍ, yfir helstu áherslur samningsins, innleiðingu og hugmyndafræði SRFF í þjónustu við fatlað fólk.  Fundurinn skiptist í tvennt, fyrst var fræðsluerindi og síðan vinnustofur þar sem fjallað var um helstu hindranir og tækifæri við innleiðingu samningsins. Fundurinn heppnaðist vel og að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga er ætlunin  að hafa annan fund á komandi vetri.

Sérverkefni ÖBÍ 2021-2022

Aðgengisfulltrúar í sveitarfélögum

Samvinnuverkefni ÖBÍ, ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um stórátak í úrbótum á aðgengismálum fyrir fatlað fólk, sem hófst sumarið 2021 hefur gengið vel. Guðjón Sigurðsson, verkefnisstjóri hjá ÖBÍ, hefur beitt sér ötullega fyrir fjölgun aðgengisfulltrúa og hafa nú verið skipaðir aðgengisfulltrúar í 55 af 64 sveitarfélögum landsins eða í 86% þeirra. Aðgengisfulltrúar vinna að gerð umsókna í Húsnæðissjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, þar sem fæst 50% framlag á móti framlagi sveitarfélaga sjálfra til að bæta aðgengi að eignum í þeirra eigu: húsnæði, gangstéttum, almenningsgörðum og stoppistöðvum almenningsvagna, svo eitthvað sé nefnt.

Í lok árs 2022 er von okkar að aðgengi sveitarfélaga verði tæplega 800 milljónum króna betra en þegar farið var af stað.

Samstarf um upplýsingagjöf um algilda hönnun

Á afmælisdegi ÖBÍ 5. maí 2022 skrifuðu sex aðilar undir samstarfsyfirlýsingu um bætta upplýsingagjöf í aðgengismálum fyrir hönnuði í mannvirkjagerð. ÖBÍ, Arkitektafélag Íslands (AÍ), Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA), Félag húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI), Byggingafræðingafélag Íslands (BFÍ) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Þessir aðilar munu vinna saman að því að bæta upplýsingar og leiðbeiningar fyrir hönnuði og fagaðila í mannvirkjagerð og skipulagsmálum með áherslu á aðgengi fyrir fatlað fólk og algilda hönnun. Meðal annars er ætlunin að funda með ýmsum skólum (t.d. LHÍ, LBHÍ, HR, HÍ, fjölbrauta- og iðnskólum). Sett verður upp upplýsingagátt á vef HMS og haldnar vinnustofur með það fyrir augum að auka vitund um þarfir fatlaðs fólk í manngerðu rými og þróa hugvitssamar lausnir sem bæta aðgengi og auka lífsgæði. Stefnt er að því að halda stóra ráðstefnu vorið 2023. Umfangið stýrist af því við hvað við ráðum með tilliti til mannafla og fjármagns.

Félag um Nýsköpunarvirkni fatlaðs fólks

ÖBÍ hefur tekið þátt í undirbúningi samstarfsverkefnisins „Nýsköpunarvirkni fatlaðs fólks“ ásamt Þroskahjálp, Átaki – félagi fólks með þroskahömlun, Hlaðvarpi um mannréttindi fatlaðs fólks, Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN, félagi kvenna í nýsköpun. Verkefnið snýst um að auka möguleika fatlaðs fólks til að starfa við nýsköpun ásamt því að efla nýsköpun með þátttöku þessa stóra hóps.

Upphaf verkefnisins má rekja til þess að Stefan Hardonk, lektor í fötlunarfræðum við HÍ, vann rannsóknarverkefni ásamt nemendum sínum, sem leiddi í ljós mikinn áhuga fatlaðs fólks á nýsköpun. Bæði varðandi þátttöku í nýsköpunarverkefnum og ekki síður að hefja eigin frumkvöðlaverkefni. Í framhaldinu var efnt til þessa samráðs. Samstarfsverkefnið fékk styrk að upphæð 10 milljón kr. á fjárlögum. Frjáls félagasamtök voru stofnuð utan um verkefnið og má lesa nánar um félagið á www.nyskopunarvirkni.is

Stuðningur við fatlað fólk og flóttafólk í og frá Úkraínu

Að frumkvæði Tabú, feminískrar fötlunarhreyfingar, skoruðu fulltrúar fjögurra samtaka fatlaðs fólks, Tabú, ÖBÍ, Þroskahjálp og Átak á íslensk stjórnvöld að gera það sem í þeirra valdi stæði til að koma á friði í Úkraínu og sérstaklega að gæta að öryggi fatlaðs fólks á átakasvæðunum. Afhentu samtökin utanríkisráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, áskorunina. Samtökin, sem öll vinna að réttindum fatlaðs fólks, stóðu einnig sameiginlega að fjársöfnun til þess að koma fjármagni til fatlaðs fólks í Úkraínu og tryggja þeim aðstoð á staðnum.

Sagan geymir ótal dæmi þess að í ófriði er fatlað fólk oftar en ekki skilið eftir. Það á ekki sömu möguleika til að flýja, missir stuðningsfólk sitt og hjálpartæki og getur ekki nálgast nauðsynleg lyf. Þá lýstu samtökin yfir vilja til þess að leggja til sérfræðiþekkingu og stuðning við neyðaraðstoð og/eða móttöku fatlaðs flóttafólks frá Úkraínu. Samráð við fatlað fólk og samtök þess er ein af skuldbindingum aðildarríkja SRFF og er það mikilvægt á sviði neyðaraðstoðar og verndar sem og öðrum sviðum.

Notendaráð – tengslafundir

ÖBÍ lagði áherslu á fjölgun notendaráða og samtal við fulltrúa í þeim um allt land. Fjarfundir notendaráða er vettvangur til að fræða og valdefla fólkið sem í þeim situr með jafningjasamtali, sem og fjölbreyttum erindum sem tengjast málefnum fatlaðs fólks í víðu samhengi.

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson stýrir verkefninu fyrir ÖBÍ og nýtur við það aðstoðar Katrínar Oddsdóttur.

Reglulegir fjarfundir voru haldnir með fulltrúum notendaráða. Á fundunum var m.a. fjallað um hvernig notendaráðin eru útfærð í mismunandi sveitarfélögum og gátu fulltrúar þannig borið saman bækur sínar. Jafnframt voru erindi um ýmis mál á fundunum s.s. aðgengismál, ráðstefnur, ferðalög og nýjustu dóma og úrskurði.

Notendaráð eru skyldubundinn samráðsvettvangur sem sveitarfélögum ber að bjóða upp á. Fjölmörg sveitarfélög hafa nú þegar góða reynslu af slíku fyrirkomulagi, sem skilar sér í betri ákvörðunum og betri nýtingu á fjármagni, auk þess sem sam-félög sem viðhafa merkingarbært samráð verða betri staðir til að búa á. Þó lög hafi kveðið á um þessa skyldu frá 2018 vantar enn talsvert upp á að öll sveitarfélög landsins hafi komið upp slíkum ráðum. Því var haft samband við sveitarfélög með yfir 3000 íbúa, sem ekki höfðu komið slíkum samráðsvettvangi á fót, kannað hvernig málum væri háttað og hvers vegna notendaráð skorti. Ástæðurnar voru margvíslegar en oftast var um að ræða ákveðið sinnu- og skilningsleysi á mikilvægi notendaráða. ÖBÍ bauð í slíkum tilfellum upp á ráðleggingar og aðstoð til að auka líkur á að þessum mikilvæga samráðsvettvangi væri komið á fót.

Skrifaðar voru greinar í héraðsfréttablöð og landsmiðla um lögbundna samráðsskyldu stjórnvalda í tengslum við notendaráð. Í slíkri grein sem birtist í lok maí 2022 bentu formaður ÖBÍ og starfsmenn málaflokksins á eftirfarandi atriði sem gott er að hafa í huga við skipan og starfrækslu notendaráða:

  • Leitast við að hafa hóp fulltrúa fatlaðs fólks það stóran að fjölbreytileiki náist.
  • Tryggja að fatlað fólk sé ekki í miklum minnihluta í notendaráðinu.
  • Greiða fyrir setu í ráðinu líkt og greitt er fyrir setu í öðrum fastanefndum.
  • Gæta þess að fundir séu haldnir í aðgengilegu húsnæði og að gögn séu send með hæfilegum fyrirvara fyrir fundi til að hægt sé að kynna sér þau í þaula.

 

Það er von ÖBÍ að notendaráð um land allt muni styrkjast til muna í náinni framtíð og mun samtalið verða til góðs í því samhengi.

Fundaherferð – sveitarfélög heimsótt

Í aðdraganda kosninga til sveitarstjórna, vorið 2022, stóð ÖBÍ fyrir fundaherferð um landið, í samvinnu við Þroskahjálp. Herferðin hófst í Reykjavík í lok mars. Við tóku fundir í stærstu sveitar-félögunum, í öllum landshlutum og voru 20 sveitarfélög heimsótt. Uppbygging fundanna var sú sama á öllum stöðum, fulltrúum allra framboða var boðið til fundar, þeim var kynnt staða fatlaðs fólks, SRFF, með sérstakri áherslu á hlutverk sveitarfélaganna við framkvæmd hans og nýja könnun Gallup. Fundirnir gengu vel og sköpuðust jafnan góðar umræður. Að loknum erindum frambjóðenda, vildu fundargestir spyrja um nærþjónustu, en víða er pottur brotinn í þeim efnum. Foreldrar fatlaðra barna voru áberandi á fundunum og töluðu um skort á þjónustu, voru margir þeirra uppgefnir. Frístundastarf fatlaðra barna er víða lítið og það litla sem í boði er, er jafnvel í óaðgengilegu húsnæði. Ákall foreldranna var hátt og skýrt og það er von okkar að nú þegar frambjóðendur eru orðnir sveitarstjórnarfólk, sé það enn minnugt þessa ákalls. Margt annað brann á fundargestum og voru aðgengismál og húsnæðismál þar mjög ofarlega.

Mikil ánægja var með að bandalagið stæði fyrir þessum fundum og er niðurstaðan af fundaherferðinni að hún var tímabær og nauðsynleg. Þrátt fyrir að frambjóðendur lofuðu bót og betrun er ljóst að fylgja þarf heimsóknunum eftir.

Gallup könnun

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosningar var ákveðið að taka stöðuna á nærþjónustu sveitarfélaga 2022. Athyglivert var hve margir vildu færa þjónustuna aftur til ríkisins en svarendur töldu að sveitarfélagið legði of litla áherslu á málaflokkinn og almennur vilji var að þjónusta sveitarfélaga yrði samræmd þeirra á milli. Mikill stuðningur er við fjölgun úrræða í húsnæðismálum og að ríki og sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi við fjölgun hlutastarfa.

Spurt var hvort viðkomandi teldi að þjónusta við fatlað fólk ætti frekar að vera á ábyrgð ríkisins en sveitarfélaga, en málefni fatlaðs fólks voru flutt frá ríki til sveitarfélaga árið 2011.

Nokkuð kom á óvart að 22,8% aðspurðra töldu að málaflokkur-inn ætti að öllu leyti að vera á ábyrgð ríkisins, 19,3% að mestu leyti, 36,6% töldu að hann ætti að vera til jafns á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga, en aðeins rúm 20% töldu að hann ætti að mestu, eða alfarið að vera á ábyrgð sveitarfélaga.

Spurt var út í þjónustu við fatlað fólk og hvort aðspurðir teldu að þeirra sveitarfélag legði of mikla, hæfilega eða of litla áherslu á þjónustuna.

Nærri 69% töldu að þeirra sveitarfélag legði of litla áherslu á málaflokkinn, 29,6% að hún væri hæfileg en aðeins 1,8% að of mikil áhersla væri á þjónustuna.

Þetta er í góðu samræmi við þá umræðu sem skapaðist á fundunum, þar sem fundagestir voru gjarnan komnir til að ná beinu samtali við frambjóðendur og gera þeim ljóst að ekki væri nógu vel gert. Þetta kom líka skýrt fram í svörum við þeirri spurningu sem borin var upp, hversu mikil áhrif stefna framboðanna varðandi þjónustu við fatlað fólk hefði á hvernig fólk ætlaði að greiða atkvæði. Í ljós kom að um 61% töldu að það hefði talsverð áhrif á hvernig það ráðstafaði atkvæði sínu í kjörklefanum.

Þegar þeir sem svöruðu á þann veg voru spurðir aftur, voru það tæplega 90% sem ætluðu að velja framboð sem vilja bæta þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu.

Spurt var hvort fólk teldi það skipta máli að fatlað fólk fái sömu þjónustu, sama í hvaða sveitarfélagi það býr.

Svörin voru nokkuð afgerandi. 42,1% taldi það skipta öllu máli, 33,4% taldi það skipta mjög miklu máli og 19,1% að það skipti frekar miklu máli. Samanlagt telja rétt tæplega 95% landsmanna þetta skipta máli. Það er því ljóst að það er þarft verkefni, til dæmis fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga, að tryggja að mismunandi þjónusta leiði ekki til átthagafjötra fyrir fatlað fólk.

Tengt þessu var einnig spurt um afstöðu fólks til dvalar fatlaðs fólks með mikla þjónustuþörf á hjúkrunarheimilum, en um 150 einstaklingar, yngri en 67 ára, búa á hjúkrunarheimilum. Það er öllum ljóst að það er ekki ásættanleg staða. Þjóðin var spurð hvort hún teldi að fötluðu fólki undir 67 ára aldri, með mikla þjónustuþörf, væri betur borgið á hjúkrunarheimili eða sínu eigin og þá með viðeigandi þjónustu.

Nærri helmingur svarenda, eða 45,1% taldi fötluðu fólki mun betur borgið á sínu eigin heimili. 26% taldi þeim nokkuð betur borgið á eigin heimili. Samantekið eru það því 71,1% svarenda sem telja að fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir eigi frekar að njóta þjónustu á eigin heimili, frekar en að flytjast á hjúkrunarheimili. Aðeins 6,9% svarenda telja að þeim sé mun betur borgið á hjúkrunarheimili.

Húsnæðismál eru þessu nátengd, því heimili er hverjum einstaklingi mikilvægt.

Spurt var hvort viðkomandi væri því hlynntur eða andvígur að sveitarfélögin ykju framboð af félagslegu húsnæði fyrir fatlað fólk og þá sem ekki eru færir um sjá sér fyrir húsnæði.

Rétt tæp 30% svarenda voru því alfarið hlynnt, nánast sami fjöldi mjög hlynnt og rétt um fjórðungur frekar hlynnt. Samtals voru það því 84,5% svarenda sem voru því hlynnt að þeirra sveitarfélag myndi auka framboð af leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Aðeins 3,3% voru því andvíg og 12,2% höfðu ekki skoðun.

Spurt var hvort viðkomandi væri hlynntur eða andvígur því að hlutastörfum hjá hinu opinbera verði fjölgað fyrir fólk með skerta starfsgetu. Í stuttu máli voru 89,7% svarenda því hlynntir, en aðeins 1,8% voru því andvígir. 8,5% sögðust ekki hafa á því skoðun.

Vinnumarkaðurinn hefur hingað til ekki boðið upp á nægjanlegan fjölda hlutastarfa, en vonandi munum við sjá breytingu í rétta átt. Í júlíbyrjun 2022 tilkynnti félags- og vinnumálaráðherra að hann hefði ákveðið að skipa nefnd um velferð og virkni á vinnumarkaði, með þann tilgang að finna leiðir til að fjölga sveigjanlegum störfum og hlutastörfum. Eitt af því sem Covid-19 sýndi okkur sem þjóðfélagi fram á, var að fólki er vel treystandi til að sinna störfum sínum af kostgæfni, þó það sé ekki statt á formlegum vinnustað, sem ætti að liðka fyrir sveigjanlegum störfum.

Alls voru spurningarnar sem lagðar voru fyrir í könnuninni 14 talsins, úrtakið var 1.650 manns. 850 svöruðu sem gefur 51% svarhlutfall. Könnunina í heild sinni má finna á vef ÖBÍ.

Árangur

Eingreiðsla

ÖBÍ þrýsti á að skattlaus eingreiðsla yrði greidd fötluðu fólki í desember. Bent var á nauðsyn eingreiðslunnar í fjölmiðlum, þingmenn fengu senda tölvupósta ásamt því að rætt var beint við núverandi og fyrrverandi þingmenn, til að þrýsta á um það að eingreiðslan yrði greidd fyrir jól. Flestir þingmenn sem rætt var við voru mjög jákvæðir og margir lögðust á árarnar með bandalaginu. Árangurinn varð sá að eingreiðslan var samþykkt og þann 23. desember 2021 greiddi TR út skattlausa eingreiðslu að upphæð 53.100 kr. til 24.406 einstaklinga á örorku- og endurhæfingarlífeyri. Skattlaus eingreiðsla var fyrst greidd út í desember 2019, svo í júní 2020 og desember 2020. Þrýst verður á áframhald slíkra eingreiðslna.

Hækkun til fatlaðs fólks í janúar og aftur í júní

Árleg hækkun örorkulífeyris 1. janúar hefur undanfarin ár verið um 3,5%. Það voru því tíðindi þegar boðuð var hækkun upp á 5,6% í fjárlagafrumvarpi ársins 2022, en þar var innifalin sérstök eins prósentustiga hækkun á örorkulífeyri. Hækkunin var tvíþætt, annars vegar byggð á mati á „áætluðum meðal taxtahækkunum á vinnumarkaðinum í heild”, sem samkvæmt frumvarpinu nema 3,8% og hins vegar sérstök hækkun vegna verðbólgu umfram væntingar á árinu 2021. Til samanburðar voru heildar prósentuhækkanir á greiðslum almannatrygginga í síðasta fjárlagafrumvarpi 3,8%, en almennar hækkanir 3,6%. ÖBÍ hefur lengi andmælt túlkun á þeirri grein laga um almannatryggingar sem á að tryggja hækkun. Nú var horft í baksýnisspegilinn, en verðbólga ársins hafði étið upp hækkunina sem varð um áramótin 2021 og gott betur. Verðbólga hefur geisað áfram og dregið verulega úr kaupmætti örorkulífeyris. Það var því ánægjulegt þegar sérstök hækkun í júní 2022 náðist í gegn, sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna efnahagsástandsins. Fyrrgreindar hækkanir í janúar og júní eru merki um að málflutningur ÖBÍ hefur skilað árangri.

Breytingar á reglugerð um heimilisuppbót

Bandalagið lagði mikla vinnu í að fá breytingu á reglugerð um sérstaka heimilisuppbót, en reglugerðin kvað á um að foreldri eða forráðamaður missti heimilisuppbót þegar barn þess yrði 18 ára, væri það ekki í fullu námi. ÖBÍ beitti sér talsvert til að ná fram þeirri breytingu að barn gæti verið á heimilinu til 26 ára aldurs og þyrfti ekki að vera í fullu námi. Árið 2021 breytti þáverandi ráðherra reglugerðinni og hækkaði aldursviðmiðið. Það fullnægði ekki kröfu ÖBÍ þar sem enn var farið fram á að viðkomandi væri í fullu námi. Í raun vildi bandalagið að reglugerðin væri alveg tekin út, þannig að það kæmi ekki fjárhagslega niður á fötluðu foreldri að fullorðið barn byggi á heimili þess. Ekki frekar en öðrum foreldrum sem af allskonar ástæðum hýsa fullorðin börn sín.

Það var því mikil ánægjustund þegar núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra lét það verða sitt fyrsta verk að breyta reglugerð um heimilisuppbót þannig að barn gæti búið í foreldrahúsum til 26 ára aldurs og verið að hluta til í skóla án þess að fatlað foreldri missti heimilisuppbótina. Ráðherra minntist meðal annars á það að hér væri stigið skref í átt að auknum jöfnuði til náms óháð bakgrunni.

Hækkun greiðsluþátttöku SÍ vegna tannlækninga og hjálpartækja

Um áramót hækkaði greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) í almennum tannlæknakostnaði fatlaðs fólks og aldraðra úr 57% í 63%.

Á sama tíma hækkaði einnig greiðsluþátttaka SÍ í nauðsynlegum tannlækningum vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.

SÍ voru veittar auknar heimildir til að styrkja kaup á hjálpartækjum fyrir fötluð börn með tvö heimili. Markmiðið er að gera heimilin jafnsett þannig að börnin eigi hjálpartækin vís á báðum stöðum.

Áður voru styrkirnir takmarkaðir við kaup á sjúkrarúmum, dýnum, stuðningsbúnaði og hjálpartækjum tengdum salernisferðum. Nú er einnig heimilt að veita styrki til kaupa á sérstökum vinnustólum og sessum.

Örorkukort almannatrygginga

Frá því TR aflagði örorkukortin og fólki var gert að prenta þau sjálft út af netinu, hefur ÖBÍ barist fyrir að þau verði innleidd aftur. Var þetta mál rætt við nýjan félags- og vinnumarkaðsráðherra og við nýjan forstjóra TR, sem bæði voru jákvæð varðandi það að koma kortunum aftur í umferð. Um miðjan ágúst 2022 opnaði TR fyrir umsóknir um örorkuskírteinið, plastkort í hefðbundinni kortastærð. Gildistími örorkuskírteina er sá sami og gildistími örorkumatsins. Skírteinin eru ætluð þeim einstaklingum sem eru með 75% örorkumat eða meira.

Síðar á árinu er stefnt að því að gefa út stafræn örorku-skírteini til notkunar í snjallsímum.

Hagsmunabarátta

Fjárlög 2022

Ný ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur lagði fram fyrsta fjárlagafrumvarp kjörtímabilsins. Ekki var að sjá neinar afgerandi breytingar í því. ÖBÍ hefur undanfarin ár skilað ítarlegri 30 blaðsíðna umsögn við fjárlögin, en nú var ákveðið að fara aðra leið og hafa umsögnina styttri og hnitmiðaðri. ÖBÍ naut aðstoðar Ágústs Ólafs Ágústssonar fyrrverandi þingmanns, sem fór yfir hvað mikilvægast væri í umsagnagerð og hvað skilaði bestum árangri við eftirfylgni t.d. varðandi fjáraukalög og bandorm. Niðurstaðan varð sjö blaðsíðna umsögn, þar sem umsögn og tillögur voru gerðar við 14 málefni, sem öll eru mjög mikilvæg. Þar var efst á blaði lögfesting SRFF, önnur málefni vörðuðu réttindi fatlaðs fólks auk þess sem fjallað var um Réttindagæslu fatlaðs fólks.

Í lokaorðum var bent á að margfeldisáhrif hverrar krónu sem rynni til örorkulífeyrisþega á hagkerfið væru umtalsverð og að auki fengi ríkið skatttekjur af þessum sömu tekjum örorkulífeyrisþega. Niðurstaðan er að af hverjum 100 krónum sem varið er til hækkunar örorkulífeyris, skila um 50 krónur sér aftur til ríkisins.

Krafa fatlaðs fólks um hækkun örorkulífeyris og minnkun tekjuskerðinga vegna atvinnutekna verður sífellt háværari. Um áramótin lifðu um 14.000 einstaklingar á um 289.000 kr. á mánuði fyrir skatta samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun, en hér ber að nefna að meðlag er meðtalið í þeirri tölu. Rannsókn Vörðu sem kynnt var í byrjun september 2021 opinberaði þá nöturlegu staðreynd að 80% fatlaðs fólks á erfitt eða mjög erfitt með að láta enda ná saman um hver mánaðarmót og standa einstæðir foreldrar verst. Það er hagsmunamál þjóðarinnar að útrýma fátækt. Hækkun örorkulífeyris til jafns við lágmarkslaun er lágmarkið.

1. maí

Eftir tveggja ára hlé frá kröfugöngu vegna heimsfaraldursins, voru skiltin tekin upp og fylkt liði í kröfugöngu 1. maí nú með skilaboðin: Fatlað fólk úr fjötrum fátæktar. Vel var mætt, veðrið lék við göngufólk sem var ánægt með að geta tekið þátt á ný. Margt fólk innan raða ÖBÍ er á vinnumarkaði og var á vinnumarkaði, áður en örorka kom til. Í dag er stefna stjórnvalda að fatlað fólk hafi raunverulegt aðgengi að vinnumarkaði og er forsendan fyrir því að í boði verði allskonar hlutastörf. Gangi það eftir verður margt fólk í þeim störfum og fær örorkulífeyri á móti. Fatlað fólk á vinnumarkaði hlýtur því að verða sameiginlegt viðfangsefni ÖBÍ, verkalýðsfélaga, samtaka atvinnulífsins og ríkisins. Við þurfum að vera hugrökk, sýnileg og láta í okkur heyra.

Dómsmál

Á tímabilinu unnust þrjú mál fyrir dómstólum, málin eru öll fordæmisgefandi og munu hafa áhrif á stóran hóp fólks.

Króna á móti krónu

Eitt af stærri hagsmunamálum fyrir dómstólum er „króna á móti krónu“ málið, sem höfðað var haustið 2019. Málið hefur tekið langan tíma í meðförum dómstóla og farið milli dómstiga fram og til baka. Eftir að frávísun var hafnað í héraðsdómi, kom nýr dómari að málinu sem, þrátt fyrir fyrri úrskurð um frávísun, vísaði aðalkröfum frá dómi. Efnisdómur féll um vara- og þrautavarakröfur, sem ÖBÍ tapaði. Þeim efnisdómi var áfrýjað til Landsréttar og frávísunin kærð til sama réttar. Þar með var komin upp sú staða að sama mál var til meðferðar hjá Landsrétti, sem áfrýjun og kæra. Frestaðist efnismeðferð Landsréttar um niðurstöðu Héraðsdóms, en tekist á um frávísunina. Þar vannst áfangasigur og var þeim hluta málsins vísað aftur í hérað til efnismeðferðar. Eftir málflutning að nýju, kom dómur sem var ÖBÍ í óhag. Þeim dómi var áfrýjað til Landsréttar og sameinaðist málið þar á ný. Ekki er ljóst hvenær málflutningur fer fram í Landsrétti.

Aðgengi að opinberum byggingum sveitarfélags

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) felldi dóm í máli Arnars Helga Lárussonar gegn Reykjanesbæ. Tekist var á um aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélagsins. Þó í fyrstu líti út fyrir að málið hafi tapast fyrir dómnum, þar sem sveitarfélagið var talið mega forgangsraða framkvæmdum í aðgengismálum, er hann í raun talsverður sigur. Í viðtali við Fréttablaðið í kjölfar uppkvaðningar dómsins sagði Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður:

„Samkvæmt dóminum er skýrt að Reykjanesbær mismunar íbúum sínum enda getur fólk í hjólastól ekki farið í þessar opinberu byggingar og þar með ekki notið þeirrar þjónustu sem þar er boðið upp á. Sveitarfélaginu er skylt að lagfæra aðgengismál húsanna. Þó sveitarfélagið og íslenska ríkið hafi sloppið við áfellisdóm í málinu var nánast öllum röksemdum þeirra í málinu hafnað. Niðurstaðan er skýr um að aðgengismálin eru í ólagi og það eina sem sveitarfélagið og ríkið fær út úr málinu er frestur til þess að lagfæra byggingarnar. Þetta er aðalatriðið og mikilvægt að það komi fram að samkvæmt dóminum er ófullnægjandi aðgengi brot á réttindum fatlaðs fólks.“

Áfram er beðið eftir því hvort MDE taki fyrir annað mál sem þar bíður um þau grundvallar mannréttindi að lífeyrir skuli duga til framfærslu.

Skertar greiðslur sérstakrar framfærsluuppbótar vegna búsetu erlendis

Hæstiréttur felldi dóm 6. apríl 2022 þess efnis að Tryggingastofnun hefði verið óheimilt að skerða greiðslur á sérstakri framfærsluuppbót vegna búsetu erlendis. Málið snerist um hvort TR hafi verið heimilt að reikna greiðslur á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu, í samræmi við búsetu einstaklingsins hér á landi. Hæstiréttur taldi að áskilnaður um búsetutíma hér á landi sem skilyrði fyrir greiðslum samrýmdist ekki tilgangi laga um félagslega aðstoð, sem er að lífeyrisþegar byggju við tiltekna lágmarksframfærslu. Í framhaldi af dómi Hæstaréttar hafa farið fram samtöl við ríkið um endurgreiðslur og hve langt aftur slíkar endurgreiðslur skuli ná, en skerðingin sem nú hefur verið dæmd ólögmæt á rætur sínar að rekja til ársins 2009.

Meðferð og afgreiðsla sveitarfélags á umsókn um NPA

Annar dómur Hæstaréttar féll á starfsárinu, þann 4. maí 2022. Tekist var á um meðferð og afgreiðslu sveitarfélags á umsókn um NPA. Viðkomandi einstaklingur hafði verið vistaður á hjúkrunarheimili gegn sínum vilja í stað þess að fá NPA þjónustu. Í dómi Hæstiréttar kemur fram að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi farið verulega úr skorðum. Dómurinn er mikilvægt skref í þá átt að réttindi fatlaðs fólks séu virt og markar vonandi tímamót í afstöðu sveitarfélaga til slíkra réttinda. ÖBÍ væntir þess að sveitarfélög taki mannréttindi fatlaðs fólks alvarlega og líti á þau sem skýran rétt sem sveitarfélög eru skuldbundin til að veita og það sé ekki frjálst val sveitarfélaga hvort og þá hvernig mannréttindi eru virt.

Umboðsmaður Alþingis

Mörg þeirra mála sem koma inn á borð ráðgjafa ÖBÍ enda með kvörtun til umboðsmanns Alþingis, en hlutverk hans er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Sumarið 2020 sendi ÖBÍ ábendingu til umboðsmanns Alþingis vegna mikillar fjölgunar á beiðnum um aðstoð varðandi mál þar sem TR hafði endurtekið synjað fólki um endurhæfingar- og örorkulífeyri. Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu og eftir svör ráðuneytisins haustið 2021 ákvað umboðsmaður að aðhafast ekki frekar að svo stöddu vegna athugunar sinnar á framkvæmd TR við afgreiðslu þessara umsókna. Frétt um málið má finna á heimasíðu umboðsmanns Alþingis dagsett 1.11.2021.

Frá haustinu 2021 hefur bandalagið sent átta kvartanir til umboðsmanns Alþingis og kært um 14 mál til úrskurðarnefndar velferðarmála. Ljóst er að TR sinnir ekki nægjanlega lögbundnu þjónustuhlutverki sínu. Það sama gildir um mörg sveitarfélög.

Fræðsla

Á haustmánuðum 2021 var fræðslustefna ÖBÍ sett og innleidd. Í henni segir m.a.: „ÖBÍ stendur fyrir fræðslu og þjálfun fyrir aðildarfélögin, einnig fyrir eigin stjórn, nefndir og starfsfólk. Jafnframt vinnur ÖBÍ með háskóla- og rannsóknasamfélaginu að því að skapa og auka þekkingu á réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks.“ Markmiðið með stefnunni er að styrkja starf ÖBÍ og styðja við aðildarfélögin og mikilvæga starfsemi þeirra í þágu fatlaðs fólks. Fræðsluáætlanir verða gerðar árlega eða oftar og mat lagt reglulega á árangur.

Fræðslustarfinu var ýtt úr vör í nóvember 2021 með tveggja daga námsstefnu fyrir fulltrúa í innra starfi bandalagsins, auk þess sem starfsfólki ÖBÍ var boðið að taka þátt. Slík námsstefna verður haldin ár hvert í kjölfar aðalfundar. Fræðsluröð ÖBÍ fyrir aðildarfélög fór af stað í ársbyrjun 2022 og voru haldin fjögur námskeið á vorönninni: „Nýju almannaheillalögin“, „Jafningjastuðningur og fræðsla“, „Einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og ofbeldi“ og loks „Hagsmunagæsla fyrir þitt félag – hvar, hvernig og hvers vegna?“ Fræðsluröðin heldur áfram haustið 2022 og fer hún fram í húsnæði Hringsjár (og í gegnum fjarfundabúnað), sem jafnframt sér um námskeiðsskráningu og annað utanumhald. Þá var haldið sérstakt leiðtoga- og valdeflingarnámskeið fyrir ungt fólk í samstarfi við fyrirtækið KVAN og styttri námskeið fyrir starfsfólk ÖBÍ tengd heilsueflingu á vinnustaðnum. Heimsfaraldurinn hafði nokkur áhrif á fræðslustarfið og gerði það m.a. að verkum að seinka þurfti námskeiðum. Þátttaka var þó almennt góð og mikil ánægja með þá fræðslu sem boðið var upp á.

Auk hefðbundinna námskeiða og vinnustofa hélt ÖBÍ opið hús fyrir aðildarfélögin í júní 2022, með það að markmiði að rækta tengsl við félögin og fræða þau um innra starf bandalagsins. Um árvissan viðburð verður að ræða, en í ár ræddu formenn málefnahópa um áherslur ársins og formaður ÖBÍ kynnti áform um miðstöð mannréttinda fatlaðs fólks í Sigtúni 42.

Fræðslunefnd ÖBÍ skipa: Eva Þengilsdóttir, Fríða Bragadóttir og Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir.

Formannafundir

Tveir formannafundir voru haldnir á starfsárinu og gat fólk mætt á staðinn eða tekið þátt í gegnum fjarfundabúnað. Fyrri fundurinn var haldinn 21. september 2021. Þar kynnti Eva Þengilsdóttir fræðsluáætlun ÖBÍ, en hún hóf störf sem framkvæmdastjóri ÖBÍ 1. september 2021. Arnar Pálsson frá Arcur kynnti niðurstöður stefnuþings og stefnumótunar. Fyrirkomulag aðalfundar ÖBÍ og rafrænar kosningar voru kynntar sem og lagabreytingatillögur. Á seinni fundinum 8. febrúar 2022 var nýtt verkskipulag skrifstofu ÖBÍ kynnt og fræðslan framundan. Ráðgjafi frá Auðnast hélt erindi um EKKO – einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi. Upplýst var um stöðuna á samvinnuverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga, ríkisins og ÖBÍ varðandi aðgengisfulltrúa í sveitarfélögum. Ágúst Ólafur Ágústsson fyrrverandi þingmaður hélt erindi um hagsmunavörslu og stuttar kynningar voru frá Brynju hússjóði ÖBÍ, Hringsjá og Örtækni. Góðar umræður voru eftir fundina þar sem formenn viðruðu ýmis mál.

Úrsögn aðildarfélaga

Blindravinafélag Íslands, eitt af stofnfélögum ÖBÍ, hverfur af lista bandalagsins yfir aðildarfélög eftir aðalfund ÖBÍ 2022. Félagið hefur dregið mjög úr starfsemi sinni á undanförnum árum og kveður bandalagið á 90 ára afmælisári sínu.

Málefnahópar og hreyfingar

Innan ÖBÍ starfa málefnahópar sem fjalla um aðgengismál, atvinnu- og menntamál, heilbrigðismál, húsnæðismál, kjaramál og málefni barna.

Málefnahóparnir koma að ritun umsagna ásamt starfsmönnum ÖBÍ. Hóparnir taka einnig þátt í hinum ýmsu samvinnuverkefnum, sem sjá má í skýrslum hópanna á bls. 38-43. Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á störf þeirra en þegar líða tók á vorið 2022 fór starfsemin að færast í eðlilegt horf og haldin voru þrjú málþing á tímabilinu.

Hreyfingar ÖBÍ eru tvær, Kvennahreyfing og UngÖBÍ. Heimsfaraldurinn hafði umtalsverð áhrif á starf þeirra. Sjá nánar í skýrslum hreyfinganna á bsl. 44.

Málþing

Ungt fólk á endastöð

  • Málþing málefnahópa ÖBÍ um heilbrigðismál og um húsnæðismál.

Haldið 16. mars 2022 á Grand hóteli Reykjavík.

Vinnumarkaðurinn þarf á okkur að halda

  • Málþing málefnahóps ÖBÍ um atvinnu- og menntamál. Haldið 11. maí 2022 á Hilton Reykjavík Nordica.

Lásar gera bara gagn ef þeir eru læstir

  • Málþing málefnahóps ÖBÍ um kjaramál. Haldið 17. maí 2022 á Grand hóteli Reykjavík.

Skrifstofa

Árangur ÖBÍ byggir á hæfu og vel þjálfuðu fólki í innra og ytra starfi bandalagsins. Eins og fram kemur í nýrri mannauðsstefnu ÖBÍ leggur bandalagið ríka áherslu á að vera vinnustaður þar sem allir njóta virðingar, jafnréttis og viðeigandi aðlögunar, að samskipti séu opin og uppbyggileg og sameiginlega vinni allt starfsfólk að því að skapa sterka liðsheild og góðan starfsanda. Kapp er lagt á að ÖBÍ sé góður vinnustaður þar sem gildi samtakanna eru höfð að leiðarljósi; þátttaka, jafnræði og ábyrgð, þar sem stefna og hlutverk eru skýr, upplýsingaflæði markvisst, starfsfólk hefur aðgang að þjálfun og fræðslu og stjórnarhættir eru styðjandi.

Þó heimsfaraldurinn hafi haft nokkur áhrif á starfsemina bæði vegna sóttvarnaraðgerða og veikinda starfsfólks eða náinna ættingja þess hafa verkefni skrifstofunnar verið umfangsmikil að venju og ber ráðgjöf, hagsmunagæsla og réttindabarátta að venju þar hæst.

Til að mæta endurskoðaðri stefnu bandalagsins og breyttu umhverfi var farið í vinnustaðagreiningu um mitt ár 2021 og hefur markvisst verið unnið að umbótum innan skrifstofunnar síðan þá. Skipulagi skrifstofu var breytt, teymi og teymisstjórar settir. Teymin vinna að stefnu ÖBÍ á tilteknum sviðum; dómsmála, málefnastarfs, ráðgjafar, umsagna og stoðþjónustu. Hver meðlimur leggur til teymisins og á þátt í að ná markmiðum þess. Teymisstjórar leiða teymin og þar með faglega vinnu skrifstofu á viðkomandi sviðum, með stefnu ÖBÍ að leiðarljósi. Teymisstjóri heyrir undir framkvæmdastjóra, en hefur málefnatengt samráð við forystu samtakanna eftir því sem við á. Upplýsingamiðlun á skrifstofu hefur verið efld til muna og tekin hefur verið upp markviss endurgjöf í gegnum starfsmannasamtöl og stöðufundi. Vinnuvernd og vellíðan var sett á oddinn á starfsárinu, öryggistrúnaðarmaður kosinn og öryggisvörður settur, búnaður yfirfarinn og námskeið haldin. Þá var öryggi gagna og kerfa aukið. Verkefnið „ÖBÍ heilsueflandi vinnustaður“ fór af stað haustið 2021 með það að markmiði að stuðla að betri heilsu og vellíðan starfsfólks. Jafnframt var aukin áhersla lögð á umhverfismál og leitað leiða til að draga úr kolefnisspori samtakanna. Sett var mannauðsstefna, jafnlaunastefna og standa vonir til að jafnlaunastaðfesting fáist fyrir lok árs 2022. Viðbragðsáætlun var gerð í EKKO-málum og starfsfólk og stjórnendur sóttu fræðslu í þeim efnum. Þá hefur verið unnið að nýjum og öflugri vef ÖBÍ samhliða endurmörkun samtakanna.

Á árinu störfuðu að jafnaði 22 á skrifstofu ÖBÍ í 15,5 stöðugildum.

Eftirtaldir starfsmenn störfuðu á skrifstofu bandalagsins í ágúst 2022:

Alma Ýr Ingólfsdóttir, Andrea Valgeirsdóttir, Ágústa Dröfn Guð-mundsdóttir, Bára Brynjólfsdóttir, Guðbjörg Kristín Eiríks–dóttir, Guðjón Sigurðsson, Jóhanna Gunnarsdóttir, Kristín Margrét Bjarnadóttir, Margrét Ögn Rafnsdóttir, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, Stefán Vilbergsson, Sunna Elvira Þorkelsdóttir, Valdís Ösp Árnadóttir, Þorbera Fjölnis-dóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, er formaður ÖBÍ, Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður og Eva Þengilsdóttir, framkvæmdastjóri.

Umsagnir

Fjöldi umsagnarbeiðna berst ÖBÍ á ári hverju. Teymisstjóri og teymi umsagna fara nú yfir umsagnarbeiðnir sem berast bandalaginu, flokka þær og ákveða hvaða beiðnum rétt er eða þarf að bregðast við. Umsagnagerðin fylgir svo ákveðnu ferli og er umsagnavinnan nú markvissari en áður. Á kosningaári bárust færri umsagnarbeiðnir frá Alþingi og ráðuneytum en árið áður. Gerðar voru 46 umsagnir á tímabilinu september 2021 til ágúst 2022.

Móttaka ÖBÍ

Móttaka ÖBÍ gegnir í megindráttum þríþættu hlutverki; að taka á móti þeim sem mæta á skrifstofu bandalagisns í ráðgjafarviðtöl, til að sækja fundi eða taka þátt í málefnastarfi; að svara fyrirspurnum vegna ýmissa réttindamála, bæði í síma og í tölvupósti; og síðast en ekki síst bóka viðtöl hjá ráðgjöfum. Frá september 2021 til ágúst 2022 reyndist fjöldi símtala sem þjónustufulltrúar svöruðu sambærilegur við sama tímabil árið áður eða á fjórða þúsund talsins. Flest símtölin tengdust einstaklingsráðgjöf ÖBÍ, Tryggingastofnun, húsnæðismálum, aðgengismálum, hjálpartækjum, örorkumati, styrkjum til bifreiðakaupa og til náms.

Móttakan er opin alla virka daga frá kl. 9:00 – 15:00. Þrátt fyrir að lokanir hafi komið til tímabundið á árinu vegna heimsfaraldursins, gekk vel að halda uppi þjónustu sem öll fór þá fram í gegnum síma eða tölvupóst.

Ráðgjöf

Lögfræðingar og ráðgjafar ÖBÍ veita fötluðu fólki ráðgjöf því að kostnaðarlausu. Mikil þörf er á þessari þjónustu bandalagsins sem var vel nýtt á starfsárinu. Fjöldi viðtala var um 460 og voru ástæður að baki málanna í grunninn þær sömu: Réttindi fólks til framfærslu eru brotin sem og önnur mannréttindi eða þá ekki virt af stjórnsýslunni í heild: ríki, sveitarfélögum og stofnunum. Helstu brotin varða lífeyrisréttindi frá TR og þá helst: synjanir um örorkumat og endurhæfingarlífeyri hjá TR og samspil lífeyrissjóðsgreiðslna og örorkulífeyris. Vöntun á búsetuúrræðum og fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum. Önnur mál er varða lögbundna þjónustu ríkis og sveitarfélaga sem ekki eru virt eru: skortur á heilbrigðisþjónustu, heimaþjónustu, liðveislu, heimahjúkrun, NPA, akstursþjónustu og aðstoð við fötluð börn í grunnskólum.

Örorkulífeyrisþegar leituðu til ÖBÍ vegna krafna hjá TR við uppgjör ársins 2020, meðal annars vegna úttekta séreignarsparnaðar. Þessir einstaklingar höfðu tekið út séreignarsparnað á tímabilinu apríl til desember 2020 í þeim tilgangi að nýta sér tímabundið úrræði ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19. Samkvæmt úrræðinu átti úttekt séreignarsparnaðar ekki að hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur frá TR. Úttekt sparnaðarins kom aftur á móti inn í uppgjör ársins 2020 og myndaðist þar af leiðandi krafa hjá TR, það er fólki var gert að endurgreiða sérstöku framfærsluuppbótina. ÖBÍ sendi inn fjórar kærur til Yfirskattanefndar og úrskurðaði nefndin í öllum tilfellum að úttektin ætti sannarlega ekki að hafa áhrif á greiðslur frá TR, né greiðslur frá öðrum stuðningskerfum.

ÖBÍ beitti sér í málum varðandi skort á stuðningi við fatlaða nemendur í grunnskólum landsins. Fjöldi ábendinga bárust um að grunnskólar geri ekki viðeigandi ráðstafanir til að unnt sé að koma til móts við nemendur án aðgreiningar og án tillits til andlegs atgervis þeirra. Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar þarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi, í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir.

Fjármál

ÖBÍ er vel statt fjárhagslega, lausafjárstaðan er góð og varasjóður traustur. Þó Covid-19 faraldurinn hafi haft nokkur áhrif á starfsemi bandalagsins á árinu 2021 hafði hann ekki áhrif á tekjur þess sem hækkuðu milli ára. Rekstrarafkoma ársins 2021 var jákvæð um 256,3 milljónir, bókfært verð eigna nam 1.130 milljónum í árslok og eigið fé 942,4 milljónum. Sterka fjárhagsstöðu þakkar bandalagið öflugri starfsemi Íslenskrar getspár en tekjur þess koma nær alfarið þaðan. Frá árinu 2009 hafa tekjur bandalagsins aukist jafnt og þétt og þó farið sé varlega í fjárhagsáætlanagerð er ekki útlit fyrir að þær lækki til muna í náinni framtíð.

Stjórn ákvað að viðbótarframlögum vegna góðrar afkomu Íslenskrar getspár á árinu 2021 yrði að stórum hluta veitt áfram til aðildarfélaga ÖBÍ og þeirra fyrirtækja sem bandalagið á aðild að. Jafnframt var hluti færður fram á næsta ár vegna mögulegra kaupa á auknum hlut bandalagsins í Sigtúni 42 þar sem skrifstofur bandalagsins hafa verið til húsa.

ÖBÍ eignast húshluta UMFÍ

Viðræður um kaup á 25% hlut UMFÍ í Sigtúni 42 hófust í lok nóvember 2021 og var gengið frá kaupunum 25. febrúar 2022. Um er að ræða góða fjárfestingu og á sama tíma mikilvægt skref fyrir bandalagið. Eftir kaupin á ÖBÍ 75% í fasteigninni.

Nokkur aðildarfélög ÖBÍ hafa undirritað leigusamning og koma inn í húsið með sína starfsemi. Munum við öll njóta þess sem nálægðin gefur okkur svo sem að deila hugmyndum, kröftum og læra hvert af öðru, sem er dýrmætt fyrir okkur sem erum í daglegri hagsmunagæslu og réttindabaráttu. Með þessu má segja að draumur margra hafi ræst um að í húsinu verði nokkurskonar miðstöð mannréttinda fatlaðs fólks.

Fjölmiðlaumfjöllun

Undanfarin ár hefur umfjöllun fjölmiðla einkennst af heimsfaraldrinum. Þegar svo stórt mál tekur nánast yfir fjölmiðla getur verið erfitt að ná eyrum þeirra. Þrátt fyrir það náði ÖBÍ nokkuð vel í gegn með sín baráttumál. Svo virðist sem ákveðið glerþak hafi verið rofið og fjölmiðlar taka nú oftar upp málefni fatlaðs fólks að eigin frumkvæði. Það er vel og bendir til að barátta ÖBÍ hafi skilað ákveðnum árangri.

Á fyrsta ári heimsfaraldurs gekk ekki nógu vel að koma málum bandalagsins á framfæri. Þrátt fyrir að enn geisaði heimsfaraldur birtu fjölmiðlar 396 fréttir á tímabilinu ágúst 2021 til júlíloka 2022 um ÖBÍ, sem er talsverð aukning frá fyrra ári, eða nærri 30%. Heildarumfjöllun fjölmiðla um málaflokkinn hefur einnig aukist, en yfir 5.400 fréttir, greinar og önnur umfjöllun hafa birst í innlendum fjölmiðlum á tímabilinu 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2022. Þetta er um 20% aukning í umfjöllun, sem er jákvæð þróun.

Útgáfa og miðlun

Bandalagið er mjög sýnilegt á stærsta samfélagsmiðlinum, Facebook. Samtals voru birtar 921 færslur og sögur á Facebook og Instagram. Viðbrögðin eru jafnan nokkuð góð, en fyrir þá sem hafa gaman af tölum líkaði 52.804 við efni ÖBÍ og 4.281 þótti ástæða til að deila efninu áfram. Nærri fimm þúsund athugasemdir voru ritaðar undir færslur ÖBÍ á samfélagsmiðlum á tímabilinu. Einnig var talsvert um að hlekkjum sem birtir voru væri fylgt, en yfir 53 þúsund fylgdu hlekk sem var að finna í færslunni, oftast inn á heimasíðu ÖBÍ.

Heimsóknir á vef ÖBÍ voru fjölmargar á árinu, en ljóst varð þegar þróun heimsókna var skoðuð milli ára að þörf var á að gera breytingar á vefnum og framsetningu efnis þar. Á eftir tilvísun leitarvéla eins og Google eru heimsóknir beint frá Facebook algengastar, sem er í samræmi við hve efnið sem við birtum þar nær til margra.

Samfélagsvaktin hélt göngu sinni áfram. Málefnahópar eru að undirbúa hlaðvörp á sínu sérsviði og reið málefnahópur um húsnæðismál á vaðið. Aðstaða til upptöku á slíku efni er orðin mjög góð í Sigtúninu.

Sérstakar auglýsingaherferðir voru fyrir alþingiskosningarnar 2021 og fundaherferð ÖBÍ fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022.

Brynja

Í desember 2021 skipaði stjórn ÖBÍ tvo fulltrúa í fimm manna stjórn Brynju hússjóðs ÖBÍ, þar af er einn tilnefndur af félagsmálaráðuneyti. Mál þróuðust þó þannig að stjórn ÖBÍ sá sig knúna til að afturkalla umboð tveggja stjórnarmanna og eins varamanns Brynju í janúarlok 2022 og skipaði aðra í þeirra stað. Ákvað stjórn ÖBÍ að skipa tvo utanaðkomandi fagaðila og einn varamann úr hópi aðildarfélaga. Ný stjórn Brynju hússjóðs var staðfest af sýslumanni 17. febrúar 2022. Ýmsar jákvæðar breytingar hafa orðið á rekstri sjóðsins síðan í febrúar, til dæmis var skráningu félagsins breytt í júní 2022 frá því að vera sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt samþykktri skipulagsskrá í að vera sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Samhliða því var nafni félagsins breytt úr Brynja hússjóður Öryrkjabandalagsins í Brynja leigufélag ses. Allt regluverk varðandi skipulag og rekstur félagsins verður skýrara en áður og tryggir meira gagnsæi. Verkefni nýrrar stjórnar Brynju og framkvæmdastjóra hafa verið umfangsmikil. Stefnumótun er lokið og í framhaldinu er ráðgert að opna fyrir umsóknir um leiguhúsnæði á ný og stórauka framboð á húsnæði fyrir fatlað fólk. Búið er að gera áætlun til næstu þriggja ára þar sem gert er ráð fyrir að fjölga íbúðum um 50 á ári. Þar skipta stofnstyrkir miklu máli og góð samvinna við ríki og sveitarfélög. Nánar má lesa um þetta í yfirliti frá Brynju leigufélagi ses. á bls. 46.

Framkvæmdastjóri og stjórn Brynju leigufélags hafa fylgt málum vel eftir og verið vakin og sofin yfir verkefninu sem þeim er trúað fyrir.

Sérstakir styrkir ÖBÍ

Árlega úthlutar ÖBÍ sérstökum styrkjum til aðila sem vinna að ýmsum verkefnum sem tengjast hagsmunum fatlaðs fólks og samræmast málefnum, markmiðum og stefnu ÖBÍ. Árið 2022 voru rétt rúmar 20 milljónir til úthlutunar og hlutu 20 verkefni styrk af 23 verkefnum sem sótt var um.

Námssjóður Sigríðar Jónsdóttur

Að venju var styrkjum úthlutað til fatlaðs fólks úr Námssjóði Sigríðar Jónsdóttur. Sjóðurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir þá sem geta ekki sótt um styrk til stéttarfélags, en styrkþegar eru á öllum skólastigum. Árlega berst fjöldi umsókna og hefur ÖBÍ styrkt sjóðinn síðustu ár til að mæta þörfinni. Auglýst er eftir umsóknum í mars/apríl í dagblöðum, á heimasíðu ÖBÍ og á Facebook. Sótt er um styrki í gegnum heimasíðu ÖBÍ og fer úthlutun fram í júní.

Mikil fjölbreytni er í námi sem sótt er um og hefur stjórn námssjóðsins haft að leiðarljósi lengd náms, námskostnað og fleira þegar tekið er tillit til styrkveitinga. Oft er um að ræða langtíma háskólanám erlendis, nám í háskólum á Íslandi, tungumálanám, listnám o.fl.

Ekki tókst að greiða út alla styrki fyrir árið 2021 þar sem styrkþegar hafa ekki skilað inn tilskyldum gögnum. Gera má ráð fyrir að heimsfaraldurinn hafi þar haft áhrif.

Vorið 2022 bárust 41 styrkumsókn og samþykkti stjórn sjóðsins að veita styrki til 40 aðila. Þar sem umsóknarfrestur var óvenju stuttur og eftirspurn eftir styrkjum mikil ákvað stjórn sjóðsins og vera með aukaúthlutun haustið 2022.

Hvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaun ÖBÍ voru veitt á alþjóðadegi fatlaðs fólks 3. desember að venju, en svo hefur verið síðan árið 2007. Á árinu 2021 var umgjörð og vinnulag við undirbúning og úthlutun verðlaunanna endurskoðuð. Hvatningarverðlaunin fengu sérstakt merki, sem var unnið út frá verðlaunagripnum. Eftirleiðis fær einn aðili verðlaun í stað þess að verðlaunum sé skipt eftir flokkum og aðrir fá viðurkenningu. Áfram er kallað eftir tilnefningum frá almenningi og er möguleiki á að senda inn tilnefningu allt árið fram til 15. október ár hvert. Tilnefningar til verðlaunanna árið 2021 voru alls 17 fyrir 15 verkefni.

Handhafi Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2021 er Haraldur Þorleifsson fyrir verkefnið „Römpum upp Reykjavík“. Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson, verndari verðlaunanna, afhenti þau. Sjá nánar um Hvatningarverðlaunin á bls. 45.

Norrænt samstarf

Handikapporganisationernas nordiska råd (HNR)

HNR er samstarfsvettvangur heildarsamtaka fatlaðs fólks á Norðurlöndum og eru formaður og framkvæmdastjóri fulltrúar ÖBÍ í ráðinu. Norðmenn voru með formennsku í ráðinu 2020-2022. Fundir eru að jafnaði tvisvar á ári. Fyrsti fundur þar sem fulltrúar hittust á ný eftir heimsfaraldurinn var haldinn 1. nóvember 2021 í Kaupmannahöfn. Á fundinum var m.a. kynning á sjálfstæðri mannréttindaskrifstofu Danmerkur, sem sett var á fót til að stuðla að, vernda og fylgjast með framkvæmd SRFF, í samræmi við 2. mgr. 33. gr. samningsins.

Góð reynsla var af fjarfundum og er auðveldara nú en áður að halda stutta fundi með skömmum fyrirvara ef ástæða þykir til. Það myndast önnur tengsl við að hittast og var ákveðið að þeir sem treystu sér til myndu hittast á fundi sem var haldinn 26. mars í Osló, í tengslum við fund RNSF. Á fundinum var rætt um stöðu lögleiðingar SRFF á Norðurlöndum og stöðu fatlaðra flóttamanna vegna stríðsins í Úkraínu.

HNR vann skýrslu um félagslega þátttöku barna og ungmenna á Norðurlöndum. Hugmyndin er að útbúa tillögur tengdar skýrslunni og senda þær á norrænu ráðherrana og spyrja hvort þeir séu tilbúnir í samvinnu í tengslum við þau mál sem þar koma fram.

Rådet för nordiskt samarbete om funktionshinder (RNSF)

ÖBÍ tekur þátt í RNSF, ráðgefandi og stefnumarkandi ráði varðandi málefni fatlaðs fólks fyrir Norrænu ráðherranefndina og samstarfsaðila hennar. Í ráðinu sitja fulltrúar fötlunarsamtaka frá öllum Norðurlöndunum ásamt starfsfólki ráðuneyta. Fundunum er ætlað að upplýsa hvað ber hæst í hverju landi. Tveir fundir voru haldnir á tímabilinu september 2021 til ágúst 2022.

Fyrri fundurinn var haldinn 2.-3. nóvember 2021 í Kaupmannahöfn og beindi ráðið kastljósi sínu að börnum og ungmennum með fötlun. Spurt var hvort og hvernig málefni sem tekin eru upp á fundi RNSF geti skipt máli fyrir stöðu barna og ungmenna. Einnig voru nokkur verkefni ráðsins kynnt. Meðal annars niðurstöður verkefnisins „Framtíðaratvinnulíf, tækni og stafrænir möguleikar á aukinni þátttöku fatlaðs fólks.“

Seinni fundurinn var haldinn í Osló 23.-24. mars 2022 auk ráðstefnu 25. mars. Meðal annars var fyrirlestur um rannsóknir á sviði fötlunar. Áhugi er að auka við rannsóknir en oft vantar fjármagn. Sagt var frá verkefni sem kallast „Alveg með“ (n. Helt med), sem snýst um þátttöku fólks með þroskahömlun á vinnumarkaði. Æðri menntun fyrir fólk með þroskahömlun var kynnt, en markmiðið með því verkefni er að búa til námsbraut fyrir fólk með þroskahömlun til að auðvelda þeim að fá starf. Á Norðurlöndum er það einungis Ísland sem býður upp á diplómanám og því hefur verið leitað eftir samvinnu við Ísland varðandi þetta verkefni. Farið var yfir sérfræðiþekkingu á þjónustu sveitarfélaga og verndun fullorðinna í hættu. Ákveðnir hópar eru í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi, hvort sem þeir búa heima eða á stofnunum.

Á sérfræðiráðstefnunni voru áhugaverðir fyrirlestrar, m.a. um fatlaða frumbyggja. Þeir fá oft ekki þá þjónustu sem þeir þurfa og neyðast til að flytjast frá sínum heimaslóðum. Farið var yfir lagalegar hindranir fyrir fullri framkvæmd SRFF innan Evrópu og vinnu sérfræðinefndar SRFF að leiðbeiningum um afstofnanavæðingu fatlaðs fólks, meðal annars í neyðartilvikum. Meðan á heimsfaraldrinum stóð jukust kvartanir til nefndarinnar vegna einangrunar fatlaðs fólks og stofnanavæðingar. Rétturinn til að lifa sjálfstæðu lífi skiptir miklu máli og það að vera fullgildur einstaklingur í samfélaginu.

Evrópusamstarf

European Disability Forum (EDF)

ÖBÍ tekur þátt í starfi Evrópusamtaka fatlaðs fólks, EDF. Þrír stjórnarfundir voru haldnir á tímabilinu september 2021 til ágúst 2022. Sá fyrsti var rafrænn vegna Covid-19 og haldinn þann 18. nóvember 2021. Farið var yfir helstu verkefni ársins. Meðal annars gaf ESB út stefnu í málefnum fatlaðs fólks 2021-2030, sem inniheldur flest það sem EDF hefur barist fyrir, reglugerð um réttindi lestarfarþega var samþykkt, byggingarreglugerð um aðgengi að mannvirkjum í náttúrunni, sem inniheldur leiðbeiningar um hvernig gera eigi byggingar og svæði aðgengileg. Haldnir voru jafningjastuðningsfundir í tengslum við innleiðingu og stöðlun evrópskra aðgengislaga. Mannréttindaskýrsla um Covid-19 var gefin út. Fatlað fólk fær ekki vinnu þrátt fyrir lagasetningar. Stefnt er að því að evrópskt fötlunarkort verði að veruleika 2023. EDF vill að allir geti boðið sig fram í öll embætti óháð löghæfisstöðu og hefur unnið að endurbótum á kosningalögum ESB. Kosningakerfi aðildarríkjanna er mismunandi, en sjá þarf til þess að aðgengi að kjörstað, kjörklefa, atkvæðaseðli, upplýsingum, o.s.frv., sé alltaf til staðar, sama hvaða kerfi er notað. Í sumum löndum eru rafrænar kosningar en það eru ekki allir sem geta fengið rafræn skilríki. Því þurfa mismunandi lausnir að vera til staðar, t.d. að hægt sé að kjósa inni á stofnunum.

Annar fundurinn var haldinn í París 10.-11. mars 2022 og var bæði staðfundur og rafrænn. Fundurinn snerist að stórum hluta um stríðið í Úkraínu og stöðu fatlaðs fólks í landinu. Á fundinn mætti fólk frá hjálparsamtökum í Úkraínu. Einnig var rætt við fulltrúa frá Póllandi sem sagði landið ekki geta tekið við fleiru fötluðu og særðu fólki þar sem engin hjálpartæki væru né fólk til að sinna sjúkum og fötluðum.

Aðalfundur EDF var haldinn 25.-26. júní í Aþenu og var tækifærið notað til að halda upp á 25 ára afmæli EDF. Kosið var í stjórn 2022-2026 og var Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ endurkjörin, en hún hefur setið í stjórn EDF síðan 2018. Á fundinum var meðal annars samþykkt yfirlýsing um réttindi fatlaðra kvenna og stúlkna, græn stefna EDF, ályktun um frið og nýjar verklagsreglur fyrir kvennahreyfingu og ungmennahreyfingu EDF. Evrópuþing fatlaðs fólks verður haldið vorið 2023 og verður þemað „Byggjum upp framtíð án aðgreiningar innan ESB“. Þátttakendur voru upplýstir um það starf sem EDF og aðildarfélög hafa unnið í tengslum við aðstoð við fatlað fólk vegna stríðsins í Úkraínu. Farið var yfir helstu hagsmunagæsluherferðir EDF, svo sem herferð til að afturkalla viðbótarbókun við Oviedo samninginn um nauðungarmeðferð og vistun á geðdeild, auk kröfu um að  bundinn verði endir á  þvingaðar ófrjósemisaðgerðir.

Þakkir og lokaorð

ÖBÍ hefur verið hugrakkt, framsýnt og öflugt, í þau ár sem liðin eru síðan það var stofnað, eða rúmt 61 ár. Höldum áfram á þeirri braut og verðum sífellt öflugri og kraftmeiri þannig að öll þau sem við erum hluti af og vinnum fyrir njóti í auknum mæli mannréttinda sinna, jöfnuðar og réttlætis.

Stjórn ÖBÍ þakkar starfsfólki og öllum þeim sem sitja í nefndum, ráðum og vinnuhópum bandalagsins sem og utan þess fyrir þeirra dýrmæta framlag til réttindabaráttu fatlaðs fólks. Öflug þátttaka aðildarfélaga er gríðarlega mikilvæg til að ná árangri í baráttunni.

Umsagnir

Árlega sendir skrifstofa ÖBÍ frá sér fjölda bréfa til opinberra aðila er varða málefni öryrkja, fatlaðs og langveiks fólks. Þá sérstaklega í formi umsagna sem allar eru aðgengilegar á heimasíðu ÖBÍ, obi.is. Hér eru listaðar þær umsagnir sem ÖBÍ sendi til stjórnvalda frá ágúst 2021 til ágúst 2022:

Umsagnir til Alþingis

Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð)
590. mál. 25. apríl 2022

Almannatryggingar (aldurstengd örorkuuppbót)
124. mál. 17. febrúar 2022

Almannatryggingar (frítekjumark vegna lífeyristekna)
36. mál. 23. febrúar 2022

Almannatryggingar (kostnaður við greiðslur)
55. mál. 22. mars 2022

Almannatryggingar (skerðing á lífeyri vegna búsetu)
71. mál. 28. mars 2022

Almannatryggingar (upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir)
69. mál. 15. mars 2022

Almannatryggingar og félagsleg aðstoð (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja)
38. mál. 28. febrúar 2022

Almenn hegningarlög (barnaníðsefni, hatursorðræða, mismunun o.fl.)
389. mál. 14. mars 2022

Ávana-og fíkniefni (afglæpavæðing vörslu neysluskammta)
24. mál. 18. febrúar 2022

3. mál. Breyting á ýmsum lögum vegna fjár­laga 2022
3. mál. 13. desember 2021

Félagsleg aðstoð (bifreiðastyrkir)
61. mál. 29. mars 2022

Félagsleg aðstoð (heimilisuppbót)
56. mál. 28. mars 2022

Fjárlög 2022
1. mál. 9. desember 2021

Fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027
513. mál. 11. maí 2022

Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda
592. mál. 2. júní 2022

Greiðslur vegna umönnunar langveikra eða fatlaðra barna
591. mál. 3. júní 2022

Heilbrigðisþjónusta (stjórn Landspítala)
433. mál. 20. apríl 2022

Húsaleigulög (skráningarskylda vegna húsaleigusamninga og breytinga á leigufjárhæð)
572. mál. 1. júní 2022

Kaup á nýrri Breiðafjarðarferju
46. mál. 4. mars 2022

Leigubifreiðaakstur
470. mál. 31. maí 2022

Loftferðir
586. mál. 2. febrúar 2022

Meðferð sakamála og fullnusta refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda)
518. mál. 9. júní 2022

Orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega
98. mál. 18. febrúar 2022

Réttindi sjúklinga (aðgerðir og rannsóknir á börnum)
70. mál. 14. mars 2022

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
34. mál. 21. febrúar 2022

Skattleysi launatekna undir 350.000 kr.
7. mál. 17. febrúar 2022

Stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036
563. mál. 3. júní 2022

Tekjuskattur o.fl. (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu)
678. mál. 23. maí 2022

Uppbygging félagslegs húsnæðis
6. mál. 18. febrúar 2022

Vextir og verðtrygging og húsaleigulög (verðbólga á húsnæðislán og húsaleigu)
80. mál. 27. janúar 2022

Þolendamiðuð heildarendurskoðun hegningarlaga
207. mál. 8. apríl 2022

 

Umsagnir til ráðuneyta

Til Dómsmálaráðuneytis:

Allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála
Mál nr. 134/2021. 17. ágúst 2021

Ráðgjöf, sáttameðferð og samtal að frumkvæði barns á grundvelli barnalaga. [- drög að reglugerð -]
Mál nr. 223/2021. 6. desember 2021

Til Félagsmálaráðuneytis:

Byggingarreglugerð nr. 112-2012 : Aðgengi að fenginni öryggis- og lokaúttekt
22. september 2021

Til Heilbrigðisráðuneytis:

Aðgerðaráætlun í heilbrigðisþjónustu við aldraða [- tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu -]
Mál nr. 8/2022. 7. febrúar 2022

Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030
Mál nr. 135/2021. 23. ágúst 2021

Heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða [- drög að stefnu -]
Mál nr. 141-2021. 10. september 2021

Sóttvarnalög
Mál nr. 26/2022. 15. febrúar 2022

Stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 [- drög að tillögu til þingsályktunar -]
Mál nr. 58/2022. 22. mars 2022

Til Innviðaráðuneytis:

Stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs
Mál nr. 132/2022. 23. ágúst 2022

Til Menningar- og viðskiptaráðuneytis:

Reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra
Mál nr. 124/2022. 11. ágúst 2022

Til Mennta- og menningarmálaráðuneytis:

Kvikmyndasjóður. [- drög að reglugerð -]
Mál nr. 220/2021. 13. desember 2021

Rafleikir/rafíþróttir. [- drög að stefnu -]
Mál nr. 213/2021. 29. nóvember 2021

Til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis:

Áform um lagasetningu um lagastoð fyrir mannvirkjaskrá
Mál nr. 230/2021. 20. desember 2021

Grænbók um samgöngumál
Mál nr. 142/2021. 10. ágúst 2021

Umsagnir til sveitarfélaga

Til Reykjavíkurborgar:

Aðgengisstefna Reykjavíkurborgar 2022-2026
Reykjavíkurborg Umsögn, 25. apríl 2022

Skýrslur málefnahópa

Málefnahópur um aðgengismál

Ég vil nota tækifærið til að byrja á að þakka Stefáni Vilbergssyni, starfsmanni hópsins, fyrir einstaklega gott samstarf.

Fjölmörg verkefni hafa verið á borði málefnahópsins og verður farið yfir nokkur þeirra. Komið hefur verið á samstarfi um upplýsingagjöf um algilda hönnun og bætta upplýsingagjöf í aðgengismálum fyrir hönnuði í mannvirkjagerð milli eftirtalinna aðila: Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), Arkitektafélags Íslands (AÍ), Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA), Félags húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI), Byggingafræðingafélags Íslands (BFÍ) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Listaháskólinn og Landbúnaðarháskólinn hafa bæst í samstarfið um aukna áherslu á algilda hönnun í kennslu.

Gerðar hafa verið leiðbeiningar fyrir flugfarþega með fatlanir og aðrar skerðingar. Hópurinn telur þetta mikilvægt skref í að bæta upplýsingagjöf til fatlaðs fólks enda veigrar það sér oftar en ekki að fara í flug. Er þetta liður í því verkefni að ryðja úr vegi hindrunum svo fleiri geti ferðast. Rætt hefur verið um að þessar upplýsingar verði sendar út með flugmiðum Icelandair.

Guðjón Sigurðsson vinnur að því að aðstoða sveitarfélögin við að byggja upp stöður aðgengisfulltrúa í sveitarfélögunum og hvetja þau til að sækja um styrki til aðgengisúrbóta í fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Aðgengisfulltrúar eru nú starfandi í 45 sveitarfélögum landins og hafa þeir fengið stuðning við að greina þarfir til úrbóta á mannvirkjum innan sinna sveitarfélaga.

Þrýst hefur verið á bætta löggjöf, leyfisveitingar og eftirlit í mannvirkjamálum með erindum, fundum og umsögnum. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála breytti fyrri úrskurðum sínum meðal annars um bílastæði fyrir fatlað fólk í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis og lagði ÖBÍ fram álit í málinu. Hópurinn fékk veður af því að verið væri að rukka handhafa p-merkja (stæðiskortahafa) fyrir að leggja í bílastæðahúsum borgarinnar. Gengið var eftir því að því yrði hætt og í mars lá svo fyrir álit borgarlögmanns um að þessi gjaldheimta væri óheimil. Þrátt fyrir þetta hafa rekstraraðilar bílastæðahúsa hunsað álitið og borið fyrir sig vinnulagi Bílastæðasjóðs, sem aftur ber fyrir sig að búnaður í bílastæðahúsum bjóði ekki upp á gjaldfrelsi p-merkjahafa. Í þessu sambandi verður að taka fram að bæði starfsmaður og formaður hópsins reyndu ítrekað, þegar þeir sátu í vinnuhóp fyrir fáum árum síðan, að benda landlækni, sýslumanni og ráðuneyti á nauðsyn þess að komið væri upp gagnagrunni svo þessi staða sem hér er lýst myndi ekki koma upp. Á þessar áhyggjur var ekki hlustað heldur vaðið áfram og byrjað að rukka allt og alla með nýjum myndavélakerfum sem gera engan greinarmun á handhöfum p-merkja og öðrum. Sem dæmi um þetta er að í tónlistarhúsinu Hörpu hefur verið gjaldfrjálst að leggja fyrir stæðiskortahafa. Með nýju myndavélakerfi hefur þetta breyst og aftur er borið við verklagi Bílastæðasjóðs. Eftir ábendingar til forstjóra Hörpu voru þó sektir sem hreyfihamlaðir einstaklingar fengu felldar niður sem er vel. Eftir stendur að margir aðilar, þar með talið Bílastæðasjóður, eru að brjóta lög og í stað þess að una áliti borgarlögmanns er heimtað að álit hans sé sveipað leyndarhjúp.

Unnið er að útgáfu leiðbeininga fyrir stæðis-kort-hafa, sem verður dreift til handhafa af sýslumannsembættunum. Samstarf er að komast á við Almannaróm um áherslu á aðgengismál í máltækniverkefnum, sem verður þróað nánar frá haustinu. Verið er að taka út aðgengi að biðstöðvum strætó á landsbyggðinni. Skýrsla um það mál kemur út í lok sumars 2022. Að lokum er verið að ýta á stjórnvöld að innleiða tilskipun ESB um stafrænt aðgengi.

Formaður, Bergur Þorri Benjamínsson

Starfsmaður, Stefán Vilbergsson

 

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál

Starfsemi hópsins hefur gengið vel undanfarið ár þrátt fyrir takmarkanir vegna Covid. Fundir voru að jafnaði haldnir aðra hverja viku á Teams, en undanfarið hefur hópurinn haldið blandaða fundi í Sigtúni og á Teams.

Málefnahópurinn hefur skoðað möguleika fatlaðs fólks á vinnumarkaði og stöðu menntunar fullorðinna að loknum menntaskóla og hvað hægt er að gera til að auka möguleika fólks á þessum sviðum. Á stefnuþingi ÖBÍ 2021 kom upp umræða um hvort skilja ætti málefnin að og hafa tvo hópa. Úr varð að hópurinn starfi áfram undir sama nafni en leggi áherslu á atvinnumál þetta árið. Hópurinn telur að málefnin séu órjúfanleg heild þar sem menntun er mikilvægt tæki sem eykur möguleika fólks með skerta starfsgetu til að fá störf við hæfi. Vinnan þarf að fara fram í góðu samstarfi við aðila frá atvinnulífinu, stjórnvöldum og menntakerfinu. Atvinnulífið getur komið að því að skapa námstækifæri fyrir fatlaða nemendur sem leiða til starfsréttinda og betri stöðu á vinnumarkaði.

Atvinna hefur mikið gildi fyrir almenna líðan einstaklinga, getur verið lykill að félagslegum samskiptum og að finnast maður uppfylla kröfur samfélagsins. Mörgum reynist erfitt að komast aftur út í atvinnulífið og upplifa jafnvel að engin orka sé eftir fyrir fjölskyldu eða annað sem tilheyrir daglegu lífi. Því er sveigjanleiki í starfi og viðeigandi aðlögun mikilvægt hjálpartæki. Slíkt getur t.d. falið í sér breytta lýsingu, betri vinnustól, stillanlegt vinnuborð og sveigjanlegan vinnutíma eða starfshlutfall. Mikilvægt er að horfa til mannauðsins sem býr meðal fólks með skerta starfsorku og fræða atvinnurekendur um fjölbreytileika hópsins og vinna á þeim fordómum og staðalímyndum sem eru til staðar.

Málefnahópurinn hefur verið í samskiptum við aðila frá atvinnulífinu og stjórnkerfinu. Haldið var málþing í maí 2022 undir yfirskriftinni „Vinnumarkaðurinn þarf á okkur að halda“. Þar var skoðað hvað atvinnurekendur geta gert til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og fjölga starfstækifærum, með fjölgun hlutastarfa og sveigjanlegra starfa, mikilvægi viðeigandi aðlögunar og stuðnings við vinnustaði og starfsmenn. Hugmyndum um atvinnumarkað fyrir alla var safnað saman og verður unnið úr þeim ábendingum. Hægt er að horfa á upptöku af málþinginu á heimasíðu ÖBÍ.

Hópurinn hefur komið að verkefninu „Nýsköpunarvirkni fatlaðs fólks“ sem er samstarfsverkefni ÖBÍ, HÍ, Átaks – fólks með þroskahömlun, Hlaðvarps um mannréttindi fatlaðs fólks, Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna, Þroskahjálpar og KVENN, félags kvenna í nýsköpun. Verkefnið snýst um að auka möguleika fatlaðs fólks til að starfa við nýsköpun og efla hana með þátttöku þess. Skýrsla var gefin út 2022 og fékkst styrkur til að vinna áfram að verkefninu. Nú stendur yfir kortlagning og undirbúningsvinna og er áætlað að samstarfið haldi áfram 2023.

Unnið var að undirbúningi auglýsingaherferðar sem birt verður á samfélagsmiðlum um réttindi nemenda í tengslum við aðlögun í námi. Margir nemendur falla úr námi þar sem þeir vita ekki af úrræðum sem í boði eru, t.d. í formi sveigjanlegrar mætingar og lengri próftíma. Dæmi eru um að ekki sé tekið mark á læknisvottorðum sem nemendur framvísa, hvort heldur sem er í framhaldsskólum eða háskólum. Auk þess geta úrræði verið breytileg á milli deilda innan sömu stofnunar. Mikilvægt er að auka fræðslu meðal skólastjórnenda og annarra sem koma að þessum málum.

Nú eru umbrotatímar í þjóðfélaginu. Mikill skortur er á vinnuafli og hefur ríkisstjórnin lagt til að hækka eftirlaunaaldur eða ráða lífeyrisþega í vinnu. Í þessu felast tækifæri sem gætu auðveldað aðkomu fatlaðs fólks að vinnumarkaðinum, en gæta þarf þess að fólk hafi tækifæri til að bæta á sig eða minnka við sig vinnu án þess að verða fyrir kjaraskerðingum.

 

Formaður, Hrönn Stefánsdóttir

Starfsmaður, Þórdís Viborg

 

Málefnahópur um heilbrigðismál

Málefnahópurinn hélt 12 fundi á tímabilinu, skrifaði fjölmargar greinar sem birtar voru í fjölmiðlum, umsagnir við þingsályktunartillögur, stefnur, frumvörp og reglugerðir. Hópurinn tók þátt í fjölmiðlaherferð ÖBÍ í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga og stóð fyrir einum viðburði.

Málþingið „Ungt fólk á endastöð“ var haldið 16. mars 2022 í samvinnu við málefnahóp ÖBÍ um húsnæðismál. Framsöguerindi og pallborðsumræða fóru fram á Grand hóteli, en viðburðinum var streymt samhliða. Þátttaka var prýðileg. Markmið málþingsins var að þrýsta á viðunandi lausnir fyrir einstaklinga sem þurfa aukna umönnun og er að óbreyttu boðin vistun á hjúkrunarheimilum sem ætluð eru öldruðum. Af umræðum að dæma má öllum ljóst vera að hér þurfi að taka til hendinni. Ýmislegt var nefnt sem hægt væri að breyta fyrr en ella, s.s. að einstaklingur haldi réttindum til akstursþjónustu og liðveislu.

Á síðasta starfsári var framkvæmd könnun á aukakostnaði í heilbrigðisþjónustu svo sem auka- eða komugjöldum sjúkraþjálfara og sérgreinalækna sem einungis eru greidd af notendum og algerlega utan greiðsluþátttöku. Niðurstöður voru sláandi. Heildarupphæðin á ársgrunni var um 1,7 milljarður og leggjast gjöldin á sjúklinga og þá að stórum hluta á einstaklinga sem tilheyra aðildarfélögum ÖBÍ. Um áramótin 2021-2022 hækkuðu þessi gjöld almennt um 40%-50% og má því áætla að árið 2022 nemi heildarupphæðin 3,3 milljörðum. Hér er um falda skattheimtu að ræða og er helsta verkefni heilbrigðishópsins að taka á þessum þætti.

Fulltrúar málefnahópsins ásamt formanni ÖBÍ áttu tvo fundi með nýjum ráðherra heilbrigðismála. Á fundunum var lögð áhersla á komugjöld og samninga við sérfræðilækna, hjálpartæki og stöðu á endurskoðun á löggjöf þar að lútandi, lyfjamál og þá sérstaklega lyfjaöryggi í ljósi innrásar Rússlands í Úkraníu og greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu. Fram kom að án samninga við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara, skorti lagalega forsendu fyrir hið opinbera til að taka á komugjöldum. Ráðherra fól starfsmanni að ýta á eftir samningum við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara. Bent var á loforð um að endurskoða hjálpartækjalöggjöf og ítrekað boð ÖBÍ um þátttöku í þeirri vinnu. Samkvæmt ráðherra voru litlar líkur á að stríðið hefði áhrif hér hvað varðar lyfja-öryggi og framboð. Staðfest var að sálfræðingar og ráðuneytið hefðu átt í viðræðum um þjónustukaup, en engin niðurstaða hafði enn fengist í málið. Þá var lögð áhersla á mikilvægi þess að stytta endalausa biðlista, hvort sem slíkt tengist ADHD greiningu, meðferð hjá sjúkraþjálfara, liðskiptaaðgerðum eða öðru.

Haldnir eru reglulegir samráðsfundir með Sjúkratryggingum Íslands. Málefnahópurinn fylgist með framgangi mála varðandi samninga um nauðsynlegar tannlækningar, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Í samvinnu við þingmenn hafa fyrirspurnir verið lagðar fyrir ráðherra og hafa fulltrúar í málefnahópnum tekið þátt í fundum heilbrigðisráðuneytisins um áætlanir í geðheilbrigðismálum. Hópurinn leggur mikla áherslu á að lækka þök og upphæð fyrstu greiðslu í greiðsluþátttökukerfunum auk þess að fá sálfræðiþjónustu inn undir þak.

 

Formaður, Vilhjálmur Hjálmarsson

Starfsmaður, Stefán Vilbergsson

 

Málefnahópur um húsnæðismál

Málefnahópur um húsnæðismál hélt 14 fundi á tímabilinu ágúst 2021 – júlí 2022 og stóð fyrir einum viðburði, birti tvær blaðagreinar og einn hlaðvarpsþátt, auk þess að vinna að upplýsingasöfnun og rannsókn.

Í ágúst 2021 hófst hópurinn handa við að senda byggingafélögum fyrirspurnir og sanka að sér gögnum um stöðu og tilgang hinna ýmsu félaga svo sem Bjarg, Brynju hússjóð, Byggingafélag stúdenta og fleira auk gagnasöfnunar frá sveitarfélögum um félagslegt húsnæði. Um miðjan september fékk hópurinn fulltrúa frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar í heimsókn með kynningu.

Árið 2020 ákvað hópurinn að fara í það verkefni að gera könnun til að kortleggja stöðu fatlaðs fólks á Íslandi. Það reyndist erfitt að hefja gagnaöflun vegna ýmissa hindrana, en í lok maí 2022 hófst loks gagnaöflun Félagsvísindastofnunar og ættu niðurstöður símakönnunar sem var framkvæmd að liggja fyrir í haust.

Málþingið „Ungt fólk á endastöð“ sem haldið var í mars 2022 var samstarf tveggja málefnahópa, annars vegar um húsnæðismál og hins vegar um heilbrigðismál. Málþingið var haldið á Grand hóteli og var vel sótt, en það var einnig sent út í beinu streymi. Málþingið vakti töluverða athygli á málefnum fólks yngra en 67 ára sem búsett er á hjúkrunarheimilum. Var vakin athygli á þjónustuskerðingu við það að flytjast á stofnun og því að fólk hefði oft ekkert sjálft um það að segja hvort það flyttist á hjúkrunarheimili.

Málefnahópurinn ákvað einnig að stofna hlaðvarpsseríuna „Þakið“ og kom fyrsti þátturinn út á vormisseri. Stefnan er að gera nokkra þætti á næsta starfsári. Þakið mun fjalla um húsnæðismál fatlaðs fólks út frá mismunandi sjónarhornum. Þátturinn sem er kominn í loftið fjallaði um húsnæðisstöðu fatlaðs fólks sem á húsnæði en lendir í erfiðleikum við að halda því t.d. með endurfjármögnun vegna viðhalds. Uppi eru margar hugmyndir að næstu þáttum. Hópurinn hefur sent frá sér nokkrar blaðagreinar þar sem farið er yfir stöðuna á húsnæðismarkaði og úrræðaleysi hins opinbera en einnig blaðagrein um stöðu ungs fólks á hjúkrunarheimilum í tengslum við málþingið.

Formaður og starfsmaður hópsins fóru á fund starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði þar sem lagðar voru fram tillögur til úrbóta í húsnæðismálum fatlaðs fólks. Þær tillögur sem lagðar voru fram voru í fyrsta lagi að koma þurfi á fót sérsniðnum lánaflokki fyrir fólk með lágar tekjur. Í öðru lagi endurskoða þurfi endurfjármögnun og greiðslumat til að fatlað fólk sem á eignir geti sinnt til að mynda viðhaldi til jafns við aðra. Í þriðja lagi er nauðsynlegt að fólk geti sótt um styrk til að breyta húsnæði sínu þannig að það geti áfram búið í sama húsnæði þrátt fyrir aukna fötlun. Í fjórða lagi að sérstakur húsnæðisstuðningur verði samræmdur á milli sveitarfélaga og í fimmta lagi að nauðsynlegt sé að sem fjölbreyttust húsnæðisúrræði séu í boði fyrir fatlað fólk.

Umsagnir sem málefnahópurinn kom að við eftirfarandi þingmál: Húsaleigulög (skráningarskylda vegna húsaleigusamninga og breytinga á leigufjárhæð), stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036, uppbygging á félagslegu húsnæði, vextir og verðtrygging og húsaleigulög (verðbólga á húsnæðislán og húsaleigu) og áform um lagasetningu um lagastoð fyrir mannvirkjaskrá.

Þá vann hópurinn að ýmiskonar innra starfi svo sem í tengslum við stefnuþing, markmið málefnahópa og fleira í þeim dúr, auk ýmissa spurningalista svo sem fyrir framboð til alþingiskosninga, Gallup könnun og fleira. Í haust verður þráðurinn tekinn upp að nýju og flestum þessara verkefna framhaldið og nýjum bætt við.

 

Formaður, María Pétursdóttir

Starfsmaður, Valdís Ösp Árnadóttir

 

Málefnahópur um kjaramál

Frá því í september 2021 hefur hópurinn haldið 17 fundi og staðið fyrir einu málþingi. Miklar umræður voru vegna fyrirhugaðra alþingiskosninga og hver áherslumál flokkanna væru í málefnum öryrkja. Hópurinn tók virkan þátt í #Wethe15 með því að setja rammann á forsíðumyndir sínar á facebook og deila áhersluatriðum.

Meðlimir í kjarahópnum hafa vakið athygli á málefnunum með greinaskrifum í fjölmiðlum og á netmiðlum, auk þess að taka virkan þátt í allri umræðu um málefnin.

Miklar umræður fóru í gang eftir alþingiskosningar og mikið rýnt í stjórnarsáttmálann. Ber þar helst að nefna Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem lofað er að verði lögfestur á tímabilinu. Eins lagðist hópurinn vel yfir hugmyndir og tillögur sem komu inn á borð til hans vegna breytinga á greiðslukerfi almannatrygginga. Fjárlög voru rýnd og rædd.

Sveitarstjórnarkosningarnar áttu líka gott pláss í umræðum hópsins þar sem farið var yfir hversu alvarlegar keðjuverkandi skerðingar eru bæði innan kerfis og utan. Meðlimir í hópnum fóru á kosningaskrifstofur flokkanna og báru fyrir þá spurningar um hvar þeir stæðu í þessum málum og hver stefnumál þeirra væru.

Hópurinn fékk Hörpu Njáls í heimsókn þar sem hún kynnti rannsókn á norræna velferðarkerfinu sem hún vinnur að og var einkar áhugavert og upplýsandi.

Hópurinn tók þátt í 1. maí göngu og var yfirskrift forgönguborðans „Fatlað fólk úr fjötrum fátæktar“. Góð mæting var í gönguna og allir í hópnum mjög ánægðir með hvernig til tókst.

Þann 17. maí hélt hópurinn málþing sem bar yfirskriftina „Lásar gera bara gagn ef þeir eru læstir“ samanber skýrslu Kolbeins Stefánssonar sem kom út í nóvember 2020 og var uppfærð til ársloka 2021. Málþingið tókst með eindæmum vel að mati hópsins.

Hópurinn vinnur markvisst að hugmyndum um breytt greiðslukerfi, sem byggir að mestu á hugmyndum frá fyrrum formanni hópsins. Helstu áhersluatriði hafa verið sett upp í forgangsröð og verður unnið eftir því. Stefnt er að því að leggja fram greinargerð vegna þessarar vinnu á haustmánuðum 2022.

Formaður, Atli Þór Þorvaldsson

Starfsmaður, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir

 

Málefnahópur um málefni barna

Eins og á fyrra ári fóru fundir ársins að mestu fram með rafrænum hætti sökum Covid faraldursins.

Af mörgu er að taka hvað varðar málefni barna. Málefnahópurinn fékk til sín gesti úr ýmsum áttum í þeim tilgangi að kortleggja betur þau úrræði sem þegar eru í boði eða í vinnslu fyrir börn með fatlanir. Meðal annars kynnti hópurinn sér óhefðbundin námsúrræði sem henta vel börnum með fatlanir.

Fulltrúi hópsins var í undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnuna „Farsælt samfélag fyrir alla – tækifæri barna og ungmenna í íþróttastarfi“ sem var samstarfsverkefni Velferðar- og barnamálaráðuneytis, ÖBÍ, Þroskahjálpar og Íþróttasambands fatlaðra. Á ráðstefnunni var leitast við að koma auga á áskoranir sem fötluð börn standa frammi fyrir þegar kemur að jöfnum tækifærum allra barna til íþróttaiðkunar. Undirbúningur ráðstefnunnar tók langan tíma vegna Covid, en hún var haldin í apríl 2022 og var mjög vel sótt. Fram komu ýmsar hugmyndir um hvernig hægt væri að bæta og efla íþróttastarf fatlaðra barna og því ákveðið að halda framhaldsráðstefnu í maí til að vinna hugmyndirnar áfram og móta tillögur að aðgerðaáætlun um fulla þátttöku og virkni fatlaðs fólks út frá eigin getu. Í kjölfarið kom upp sú umræða að haldin yrði samskonar ráðstefna sem einblíndi á tómstundir.

Málefnahópurinn vann einnig að undirbúningi hugmyndafundar ungs fólks er nefnist „Okkar líf – okkar sýn“. Börn og ungmenni hafa iðulega orðið út undan í umræðu um málefni sem að þeim snúa og tilhneiging er til að kerfið ákveði hvernig koma eigi til móts við þeirra þarfir. Tilgangur fundarins er að hlusta á raddir barna, fá þeirra sýn á hvað betur mætti fara og tillögur þeirra til úrbóta. Hugmyndafundurinn var áætlaður vorið 2022 en vegna dræmrar þátttöku var honum frestað fram í september.

ÖBÍ ásamt fulltrúum Barnaheilla, UNICEF, Þroskahjálpar, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða Krossins, UMFÍ, Heimili og skóla og Samfés skipa Barnaréttindavaktina sem vinnur að því bæta réttindi barna með skýrslugerðum, umsögnum og sameiginlegum áskorunum til stjórnvalda. Barnaréttindavaktin hefur einnig óskað eftir tilnefningum frá öllum þingflokkum um talsmenn barna á Alþingi. Hlutverk þeirra er að hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í sínum störfum á Alþingi eftir að hafa fengið fræðslu um mannréttindi barna.

Fulltrúar hópsins tóku sæti í sérfræðihópi CP4-Europe á vegum Mennta- og barnamálaráðuneytis sem vinnur að úttekt á þátttöku barna og er hún liður í innleiðingu nýrrar stefnu og aðgerðaráætlunar um „Barnvænt Ísland“. Úttektin felur m.a. í sér skoðun á löggjöf, framkvæmd, viðhorfi og upplifunum barna þegar kemur að þátttöku í stefnumótun og ákvarðanatöku opinberra aðila. Verkefnið er unnið í samstarfi við stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna.

Eitt af markmiðum málefnahópsins hefur verið að koma okkar fulltrúum inn í sem flest ráð og nefndir er fjalla um málefni barna. Á þann hátt er hægt að tryggja að ekki verði litið fram hjá réttindum og þörfum fatlaðra barna. Sem lið í þessu tók fulltrúi málefnahópsins sæti í Æskulýðsráði sem gerir okkur kleift að beita okkur enn frekar í málefnum barna.

Mikill tími hópsins hefur farið í að skrifa umsagnir við lagafrumvörp. Það er von hópsins að breytingar séu til þess fallnar að tryggja öllum börnum þjónustu óháð fötlun, búsetu eða öðrum þáttum. Í framhaldi er mikilvægt að fylgjast vel með framgangi mála og þrýsta á stjórnvöld að standa við fyrirætlanir sínar. Fulltrúar málefnahópsins sátu í fjölmörgum nefndum og ráðum þar sem fjallað var um málefni barna. Bent var á ýmislegt sem betur mætti fara og komið með tillögur til lausna. Málum var síðan fylgt eftir með bréfaskrifum og umsögnum.

Formaður, Elín H. Hinriksdóttir

Starfsmaður, Þórdís Viborg

Skýrslur hreyfinga og Hvatningarverðlaun

Kvennahreyfing

Starf kvennahreyfingarinnar var með rólegasta móti þetta árið, m.a. vegna Covid-19 og breytinga í starfsmannamálum hjá hreyfingunni.

Stýrihópurinn náði að funda nokkrum sinnum á árinu en starfið fór að mestu fram með tölvupóstum og færslum á Facebook.

Kvennahreyfingin hefur að markmiði að raddir fatlaðra kvenna heyrist og tók meðal annars þátt í samstarfi með kvenna- og jafnréttissamtökum um réttarstöðu brotaþola kynbundins og kynferðislegs ofbeldis.

Fyrirhugað er í framhaldi af þessari vinnu að vinna að nýrri aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu. Tveir fulltrúar kvennahreyfingar ÖBÍ munu taka þátt í þeirri vinnu, þegar hún fer af stað í lok sumars.

Kvennahreyfing ÖBÍ heldur úti virkri Facebooksíðu þar sem vakin er athygli á ýmsu því er snertir líf fatlaðra og langveikra kvenna.

 

Talskonur, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir og Salóme Mist Kristjánsdóttir

Starfsmaður, Kristín M. Bjarnadóttir

UngÖBÍ

Ungliðahreyfing ÖBÍ fékk nafnið UngÖBÍ á árinu 2022. Nafnið er stutt og þykir henta betur fyrir hreyfinguna, auk þess sem það er létt og lýsandi. Þá hefur verið ákveðið að breyta umsjón með hreyfingunni frá og með haustinu 2022, þannig að í stað starfsmanns UngÖBÍ verði skipaður stýrihópur með tengilið á skrifstofu bandalagsins.

Vegna Covid-19 faraldursins var starfsemi UngÖBÍ fremur lítil á árinu 2021, en um leið og faraldurinn tók að réna var blásið til sóknar. Á vormánuðum 2022 var haldið, í samstarfi við fyrirtækið KVAN, leiðtoga- og valdeflingarnámskeið fyrir ungt fólk í aðildarfélögum ÖBÍ. Þátttaka var góð og mikil ánægja með framtakið. Um fjögur skipti var að ræða og lauk námskeiðinu með léttu hugarflæði þar sem velt var upp spurningum um framtíð hreyfingarinnar. Þar kom meðal annars fram áhugi þátttakenda á að UngÖBÍ leggði sitt af mörkum í almennu starfi ÖBÍ og hefði rödd við borðið.

Starfsmaður UngÖBÍ til 30. apríl 2022, Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir

Hvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaun ÖBÍ eru veitt á alþjóðadegi fatlaðs fólks 3. desember ár hvert. Markmiðið með verðlaununum er að efla frumkvæði til nýrra verkefna og hugmyndavinnu og skapa jákvæða ímynd fyrir fatlað fólk. Hvatningarverðlaunin eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.

Á árinu 2021 var umgjörð og vinnulag við undirbúning og úthlutun verðlaunanna endurskoðuð og nýjar reglur litu dagsins ljós. Hætt var að skipta verðlaunahöfum í flokka, aðeins einn fær verðlaunagrip, aðrir fá viðurkenningu.

Áfram er kallað eftir tilnefningum frá almenningi og er möguleiki á að senda inn tilnefningu allt árið fram til 15. október ár hvert.

Stjórn Hvatningarverðlauna velur verðlaunahafa ársins úr hópi þeirra sem hlotið hafa tilnefningu, en getur einnig veitt sérstakar viðurkenningar ef hún telur ástæðu til. Tilnefningar til verðlaunanna árið 2021 voru alls 17 fyrir 15 verkefni.

Verðlaunin voru veitt í 15. sinn, þann 3. desember 2021 á Grand hóteli. Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson, verndari Hvatningarverðlaunanna, afhenti verðlaunin.

Formaður undirbúningsnefndar, Fríða Rún Þórðardóttir

Starfsmaður, Kristín M. Bjarnadóttir

Hópmynd af öllum sem tilefnd voru til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2022

Handhafi Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2021

Haraldur Þorleifsson fyrir verkefnið „Römpum upp Reykjavík“

Sérstaka viðurkenningu fengu Reykjadalur fyrir að auðga framboð í frístundastarfi fyrir fötluð börn og ungmenni

Seres hugverkasmiðja fyrir sjónvarsþáttaröðina „Dagur í lífi“

Styrmir Erlingsson fyrir hugrekki, kraft og metnað í starfi sem stafrænn leiðtogi hjá Velferðaþjónustu Reykjavíkurborgar

Stjórn Hvatningarverðlauna ÖBÍ

Alvar Óskarsson
Fríða Rún Þórðardóttir
Helga Magnúsdóttir
Karl Friðriksson
Líney Rut Halldórsdóttir
Vignir Ljósálfur Jónsson
Þórir Ágúst Þorvarðarson

Skýrslur fyrirtækja

Brynja

Stofnað 1965 • Starfsmenn 16 • Stjórnarmenn 5

Brynja leigufélag er sjálfseignarstofnun og er tilgangur félagsins að kaupa, eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja. Húsnæði þetta leitast félagið við að leigja gegn eins hóflegu gjaldi og kostur er.

Krefjandi aðstæður á markaði

Árið 2021 einkenndist af miklum hækkunum á fasteignaverði sem voru 18,4% á höfuðborgarsvæðinu. Þá fór verðbólgan á kreik og hækkaði vísitala neysluverðs á sama tíma um 5,1%.

Framboð af eignum var betra en undanfarin ár en eftirspurnin var mjög mikil sem átti sinn þátt í hækkun fasteignaverðs.

Það sem af er ári 2022 hefur þessi þróun haldið á-fram. Íbúðarverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækk-að um 16% og verðbólgan stefnir í um 10% í lok árs.

Rekstur 2021

Mikil festa er í rekstri Brynju og var rekstur ársins 2021 mjög sambærilegur við fyrri ár. Heildartekjur námu 1.243 milljónum króna og var kostnaður við rekstur fasteigna og skrifstofu 784 milljónir króna. Framlag ÖBÍ nam 165 milljónum króna og lækkaði um 75 milljónir króna á milli ára. Að teknu tilliti til framlagsins nam afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði 624 milljónum króna á árinu 2021 samanborið við 676 milljónir króna árið áður. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða nam rekstrarhalli ársins 321 milljón króna í samanburði við 181 milljón króna árið áður. Þrátt fyrir neikvæða rekstrarafkomu er sjóðstreymi félagsins sterkt og tryggir um 400 milljóna króna eiginfjárframlag á ári sem nýtist til fjárfestinga.

Efnahagur

Efnahagur Brynju er sterkur. Stærsta eign félagsins er fasteignasafnið sem metið er á fasteignamati hvers árs, en verðmæti þess nam 30,8 milljörðum króna í lok síðasta árs. Hækkandi fasteignamat og stofnframlög færast til hækkunar á eigin fé félagsins sem nam 24,1 milljarði króna í lok ársins og hækkaði um 2,4 milljarða króna á milli ára. Ýmsar skuldbindingar námu 440 milljónum króna og voru heildarskuldir félagsins 7 milljarðar króna í árslok.

Eignasafnið

Brynja hefur byggt upp vandað og gott eignasafn sem segja má að einkennist af tveimur klösum, annars vegar Hátúni 10 með 188 íbúðum ásamt þjónustu- og atvinnuhúsnæði því tengdu og hins vegar Sléttuvegi 7 og 9 með alls 60 íbúðum. Heildarsafnið var 838 eignir í lok ársins og er mismunurinn, það er 590 íbúðir, í dreifðu eignarhaldi, sem er í samræmi við áherslu Brynju um félagslega dreifingu.

Á árinu 2021 voru keyptar 34 nýjar íbúðir í Reykjavík og Kópavogi en á móti voru seldar 13 gamlar eignir sem uppfylla ekki lengur þau viðmið sem gerð eru til íbúða á vegum félagsins.

Ný stjórn og framkvæmdastjóri

Á árinu 2021 og fyrstu mánuðum þessa árs urðu töluverðar breytingar í yfirstjórn og stjórn félagsins. Björn Arnar Magnússon lét af störfum í september 2021 eftir 13 ára starf í þágu félagsins og við starfi hans tók Guðbrandur Sigurðsson. Í lok janúar 2022 var skipuð ný stjórn þar sem Halldór Sævar Guðbergsson tók við stöðu stjórnarformanns af Garðari Sverrissyni.

Hagkvæmt leiguverð

Í desember 2021 var meðalleiguverð til einstaklinga hjá Brynju um 99 þúsund kr. á mánuði. Við þetta verð bætist svo hússjóður fyrir viðkomandi eign.

Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) var leiga milli einstaklinga á frjálsum markaði í sama mánuði um 178 þúsund kr. og leiga milli fasteignafélaga og einstaklinga um 198 þúsund kr. Samkvæmt þessu er meðalleiga hjá Brynju rúmlega helmingur af því sem gerist á almennum leigumarkaði.

Breyttar áherslur

Ný stjórn hjá Brynju hefur skilgreint breyttar áherslur varðandi uppbyggingu á eignasafni félagsins, auk þess að leggja áherslu á að styrkja umgjörð sjóðsins og byggja upp og bæta innviði starfseminnar.

Breytt rekstrarform

Í júní síðastliðnum var gengið frá breytingu á skráningu félagsins, en því var breytt frá því að vera sjálfs–eignarstofnun sem starfar samkvæmt samþykktri skipulagsskrá í að vera sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Samhliða var nafni félagsins breytt úr Brynja Hússjóður Öryrkjabandalagsins í Brynja leigu-félag ses.

Allt regluverk varðandi skipulag og rekstur félagsins verður skýrara en áður og tryggir meira gagnsæi. Eitt af því sem breytist er að skipa þarf í fulltrúaráð sem hittist að öllu jöfnu tvisvar sinnum á ári og hefur það hlutverk að samþykkja ársreikninga, velja stjórnarfólk og vera félaginu til ráðgjafar um áherslur og stefnu í rekstri.

Í fulltrúaráðinu munu sitja 19 fulltrúar skipaðir af ÖBÍ, tveir fulltrúar skipaðir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn fulltrúi skipaður af félagsmálaráðherra, einn fulltrúi skipaður af innviðaráðherra og tveir fulltrúar leigjenda sem húsnæðishópur ÖBÍ skipar.

Aukin uppbygging eignasafnsins

Félagið stefnir á að stækka eignasafnið um 320 íbúðir á næstu 5 árum sem gert er ráð fyrir að verði að mestu fjármagnað með stofnframlögum og lánsfé frá HMS, að viðbættu eigin fé félagsins.

Til að tryggja fyrirsjáanleika í rekstrinum hefur félagið lagt áherslu á að gera stefnumarkandi sam-komulag við öfluga verktaka og önnur óhagnaðardrifin leigufélög. Þetta hefur skilað Brynju samkomulagi um 101 íbúð sem koma munu til afhendingar á næstu árum.

Þá leggur félagið jafnframt áherslu á að gera langtímasamkomulag eða viljayfirlýsingar við sveitarfélög um uppbyggingu á vegum Brynju með stofnframlögum sem hefur þann tilgang að byggja upp umgjörð um þessi verkefni til næstu ára.

Íbúðaverkefni í ágúst 2022

Verkefnalisti Brynju telur nú 124 íbúðir og munu 59 þeirra koma til afhendingar á árunum 2022 og 2023.

Hátt fasteignaverð hefur hamlað kaupum á íbúðum á árinu 2022, en merki eru um að spennan á fasteignamarkaði sé að minnka sem gæti skapað kauptækifæri á fleiri íbúðum fyrir Brynju.

Opnun biðlista

Brynja stefnir á að opna biðlista haustið 2022, en það verður gert þegar leiguumsjónarkerfi félagsins verður tilbúið til að taka við rafrænum umsóknum. Biðlisti félagsins telur nú um 250 manns.

Stjórn og framkvæmdastjóri

  • Halldór Sævar Guðbergsson, formaður
  • Halldóra Alexandersdóttir, varaformaður
  • Hafsteinn Dan Kristjánsson, meðstjórnandi
  • Lilja Dögg Jónsdóttir Donovan, meðstjórnandi
  • Þórarinn Þórhallsson, meðstjórnandi
  • Fríða Bragadóttir, varamaður
  • Jón Heiðar Daðason, varamaður
  • Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri

Fjölmennt

Stofnað 2002 • Starfsmenn 23 í föstu starfi • Nokkrir verktakar á hverri önn

Fjölmennt er símenntunar- og þekkingarmiðstöð fyrir fólk með þroskahömlun, fólk á einhverfurófi og fólk með geðrænar áskoranir, frá 20 ára aldri. Markmið Fjölmenntar er að bjóða fötluðu fólki fjölbreytta símenntun og ráðgjöf varðandi nám. Jafnframt að stuðla að því að aðrir símenntunaraðilar bjóði námskeið sem henta fötluðu fólki og aðstoða við að setja upp slík námskeið.

Starfsemi Fjölmenntar skiptist í tvær deildir, símennt-unardeild og ráðgjafardeild. Námskeið símenntunardeildar eru tvískipt, annars vegar námskeið fyrir fólk með þroskahömlun og á einhverfurófi og hins vegar námskeið fyrir fólk með geðrænar áskoranir. Námskeiðin eru flest haldin í húsnæði Fjölmenntar að Vínlandsleið 14 en íþrótta-, dans- og sundnámskeið eru haldin í íþróttahúsum og sundlaugum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Nám fyrir fólk með geðrænar áskoranir fer að nokkru leyti fram utan húsnæðis Fjölmenntar en skipulagning og utanumhald er hjá Fjölmennt.

Í ráðgjafardeild starfa þrír ráðgjafar. Þeir veita ráðgjöf til þátttakenda á námskeiðum Fjölmenntar og umboðsmanna þeirra og sjá um kennslufræðilega ráðgjöf. Einnig veita þeir öðrum símenntunaraðilum ráðgjöf um skipulagningu og framkvæmd náms fyrir fatlað fólk.

Fjölmennt gerir samninga við allar símenntunar-stöðvar á landsbyggðinni um námskeiðahald fyrir markhóp Fjölmenntar á viðkomandi svæði. Einnig eru gerðir samningar við nokkrar menntastofnanir á höfuðborgarsvæðinu sem bjóða nám fyrir fullorðið fólk.

Starfsárinu er skipt upp í vorönn og haustönn. Námskeiðin eru mislöng, frá nokkrum vikum og upp í að vera alla önnina. Einnig eru haldin stutt jóla- og sumarnámskeið. Að jafnaði sækja um 400 manns nám hjá Fjölmennt á hverri önn.

Starfsemin frá 2020 hefur markast af COVID-19 heimsfaraldrinum. Áhersla hefur verið á að halda úti starfsemi við óvenjulegar aðstæður og skipuleggja starfið þannig að það standist kröfur um sóttvarnir, fjölda nemenda í rými og nálægðarmörk. Einnig voru hefðbundin námskeið lögð niður tímabundið og tekin upp fjarkennsla fyrir þá sem gátu nýtt sér það, ásamt því að lögð var áhersla á námsefni á vef Fjölmenntar.

Gildi Fjölmenntar eru: Menntun, valdefling, samstarf, sveigjanleiki.

Hringsjá

Stofnuð 1987 • Starfsmenn eru 20 í mismunandi starfshlutfalli

Hringsjá náms- og starfsendurhæfing er ætluð einstaklingum 18 ára og eldri sem hafa verið frá vinnumarkaði eða námi vegna slysa, veikinda, félagslegra erfiðleika eða annarra áfalla. Hringsjá hentar einnig þeim sem eru með litla grunnmenntun eða hafa átt erfitt með að tileinka sér hefðbundið nám.

Endurhæfingin felst í einstaklingsmiðuðu námi í formi styttri námskeiða, stuðningi við nám í öðrum skólum eða einingabæru þriggja anna námi með sérhæfðri ráðgjöf og stuðningi. Sérstakur stuðningur við nám í öðrum skólum er úrræði sem Hringsjá hefur verið að þróa að undanförnu og hefur reynst mörgum einstaklingum, sem eru í námi annars staðar, mjög vel. Markmiðið með náminu og endurhæfingunni er að einstaklingar fari út á vinnumarkað og/eða í áframhaldandi nám eftir endurhæfingu hjá Hringsjá.

Hringsjá er með þjónustusamning við Vinnumálastofnun og VIRK starfsendurhæfingarsjóð. Kaupendur á árinu voru Vinnumálastofnun, VIRK starfsendurhæfingarsjóður, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, önnur sveitafélög og aðrir samstarfsaðilar.

Starfsárið 2021-22 var árangursríkt í marga staði og þurfti oft að bregðast við breyttum aðstæðum í samfélaginu vegna Covid-19.

Hrönn Pétursdóttir, stefnumótunarsérfræðingur, var fengin til að leiða stefnumótunarvinnu. Niðurstaðan er að almenn ánægja er hjá helstu samstarfsaðilum með samstarfið og starfsemi Hringsjár. Helstu niðurstöður eru að halda áfram á sömu braut en bjóða upp á fleiri styttri brautir þar sem meiri áhersla verði lögð á að vinna með heilsubrest samhliða náminu og auka við stuðning við nemendur í námi í öðrum skólum. Áhugi er á að bjóða upp á fleiri brautir en húsnæðið setur starfseminni ákveðnar skorður varðandi fjölda þátttakenda og starfsmanna

Hringsjá er samstarfsaðili Montana (City of Montana) í verkefni um stofnun ungmennaseturs í Búlgaríu fyrir ungt fólk sem er hvorki í námi né vinnu. Framlag Hringsjár felst í miðlun á aðferðum sem gagnast vel þegar unnið er með slíkan hóp. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði EFTA.

Öryrkjabandalag Íslands stóð eins og endranær við bakið á starfseminni og veitti dyggan stuðning.

Á árinu 2022 verður áfram unnið að því að tryggja fjárhagslegan sem og faglegan grunn Hringsjár ásamt því að efla þjónustu, árangur og gæði starfseminnar.  Hringsjá mun áfram hafa það að markmiði að bjóða fjölbreytta og þverfaglega starfsendurhæfingu.

 

Íslensk getspá

Stofnuð 1986 • Starfsmenn 22

Eigendur Íslenskrar getspár eru Öryrkjabandalag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands.

Árið 2021 var afar gott rekstrarár hjá Íslenskri getspá. Arðgreiðslur til eigenda námu 2,7 milljörðum króna og hafa aldrei verið hærri. Eigendur eru þakklátir fyrir góðan rekstur og afkomu á þessum erfiðu tímum heimsfaraldurs. Eigendur eru jafnframt ánægðir með þá stefnumörkun sem farið var í árið 2013 um eflingu í nýrri og öflugri tækni. Sú fjárfesting hefur svo sannarlega skilað sér en áfram skal haldið í þróun stafrænnar tækni. Með nýjustu tækni og sterku markaðsstarfi fer tæplega 70% af sölunni fram með ýmiskonar netleiðum, svo sem Lottó appinu og netáskrift.

Stjórn Getspár lagði áherslu á miklar varnir varðandi smitleiðir til að verja öryggi starfsfólks og viðskiptavina. Rétt er að taka fram að félagið nýtti sér ekki nein af úrræðum stjórnvalda til að létta undir rekstri fyrirtækja og er það vel að ekki var þörf á slíku. Stjórn og starfsfólk Íslenskrar getspár hefur staðið þétt saman í rekstri og áherslum félagsins undanfarin ár og svo verður áfram. Stjórn fundar í hverjum mánuði og stjórnarmenn gera sér far um að fylgjast vel með rekstri og stjórnun fyrirtækisins. Áhersla er á öflugt upplýsingastreymi til stjórnarmanna til að tryggja góða stjórnarhætti.

Eigendur Íslenskrar getspár eru stærstu og öflugustu fjöldahreyfingar íslensks samfélags með hundruðir þúsunda félagsmanna og iðkenda. Frá stofnun Getspár 1986 hafa eigendur fengið tæplega 45 milljarða króna, uppreiknað miðað við vísitölu, í arðgreiðslur frá Getspá. Þetta eru fjármunir sem hafa gríðarlega þýðingu fyrir rekstur og uppbyggingu innviða í starfsemi eigenda okkar.

Lykilatriði til framtíðar fyrir Íslenska getspá er að tryggja áframhaldandi stöðugleika í rekstri fyrirtækisins. Mikilvægt er að fjölga leikjum á næstu árum til að dreifa rekstraráhættu og sveiflujafna. Helsta ógn íslensks happdrættismarkaðar er erlend ólögleg spilun sem veltir á bilinu 15-20 milljörðum árlega. Yfirvöld happdrættismála hafa á undanförnum árum skorast undan að ræða stöðuna varðandi ólöglega erlenda spilun en vonir standa til að þau breytist til batnaðar á næstu misserum. Að okkar mati er ekki hægt að gera neinar breytingar á íslenskum happdrættismarkaði án þess að loka á erlenda spilun. Þá er afar mikilvægt að Getspá haldi áfram á þeirri vegferð að fjárfesta reglulega í tækninýjungum sem auðvelda aðgengi að neytendum og minnka rekstrarkostnað. Teknar hafa verið margar djarfar en velheppnaðar ákvarðanir á þessum vettvangi á undanförnum árum og vonandi verður svo áfram.

Gildi Íslenskrar getspár snúa að heiðarleika, trausti og gleði, samfara þátttöku neytenda í leikjum okkar og þakklæti til þeirra fyrir stuðninginn. Ábyrg spilun er lykilstef í rekstri leikja Íslenskrar getspár.

Fulltrúar ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár eru Bergur Þorri Benjamínsson og Þóra Þórarinsdóttir. Framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár er Stefán Konráðsson.

 

TMF

Stofnuð 1985 • Starfsmenn 1

Aðildarfélög TMF Tölvumiðstöðvar eru Blindrafélagið, Landssamtökin Þroskahjálp, Styrktafélag lamaðra og fatlaðra (SLF) og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ). Félögin eiga fulltrúa í stjórn TMF.

Stjórn TMF

  • Formaður, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, fulltrúi ÖBÍ
  • Varaformaður, Hlynur Þór Agnarsson, fulltrúi Blindrafélagsins
  • Ritari, Indriði Björnsson, fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar
  • Meðstjórnandi, Helga Guðjónsdóttir, fulltrúi SLF
  • Starfsmaður TMF er Sigrún Jóhannsdóttir, sem er eini starfsmaður TMF Tölvumiðstöðvar.

Ráðgjöf, námskeið og fræðsla

Allir geta leitað til miðstöðvarinnar óháð skerðingu og aldri. Veitt er einstaklingsmiðuð ráðgjöf, fræðsla til minni hópa og haldin námskeið. Ráðgjöf er öllum að kostnaðarlausu.

Námskeið eru mikilvægur þáttur í starfsemi TMF Tölvumiðstöðvar. TMF hannar námskeið og fær fyrirspurnir um að sérsníða námskeið, sem eru haldin í sal að Háaleitisbraut 13 og í skólum og stofnunum um land allt. Námskeiðin eru ætluð fagfólki, foreldrum, fólki með fötlun og öðrum áhugasömum.

Hægt er að óska eftir námskeiðum sniðnum að þörfum einstakra hópa og panta námskeið út á land. Á starfsárinu 2021 var vegna Covid faraldursins eingöngu haldin námskeið á netinu. Einnig var fræðsluefni miðlað með fræðslumyndböndum um notkun búnaðar.

Með opnun samfélagsins á árinu 2022 opnaðist fyrir að halda námskeið í sal. Haldin voru alls fimm námskeið á tímabilinu febrúar – maí 2022.

Samstarfsverkefni

TD Snap tjáskiptaforritið er öflugt tjáskiptaforrit á íslensku sem gefið hefur góða raun fyrir einstaklinga sem ekki tala eða þurfa stuðning við talað mál. Forritinu er úthlutað sem hjálpartæki til tjáskipta frá Sjúkratryggingum Íslands. Til að efla markvissa notkun í óhefðbundnum tjáskiptaleiðum þarf að vera í boði góð kennsla og leiðsögn í notkun búnaðar og leiðum til að nýta hann sem best.

Námskeið í tjáskiptaforritinu var samstarfsverkefni þriggja aðila. TMF var t.d. í sambandi við fyrirtækið Grammatek, sem hafa m.a. hannað talgervilsapp fyrir Android og Almannaróm.

Við hjá TMF teljum mikilvægt að koma á framfæri þeirri reynslu sem TMF Tölvumiðstöð býr yfir varðandi notagildi og möguleika talgervla og talgreina m.a. í námi og tjáskiptum.

TMF Tölvumiðstöð hlaut þriggja milljóna króna styrk frá stjórn Öryrkjabandalagsins á 60 ára afmælisári þess 2021. Kunnum við bandalaginu okkar allra bestu þakkir fyrir.

Starfsmaður TMF leitast við að svara öllum þeim beiðnum um ráðgjöf, fræðslu og kennslu sem berast.

 

Örtækni

Stofnuð 1976 • Starfsmenn 25 í 16 stöðugildum

Starfsemi Örtækni hefur tekið töluverðum breytingum í gegnum tíðina og aðlagast tíðarandanum vel hverju sinni. Nefna má framleiðslu á vogum fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi, smíði og framleiðslu á gjaldmælum fyrir leigu- og sendiferðabíla og innflutning og sölu á tölvutengjum og netköplum.

Í dag er stór hluti starfseminnar samsetning á flóknum búnaði fyrir hin ýmsu fyrirtæki og starfar Örtækni með mörgum af framsæknustu tækni- og iðnfyrirtækjum á Íslandi, eins og Vöku fiskeldi, Marel, Controlant og Isavia svo dæmi séu tekin.

Tæknivinnustofan hefur verið sú starfsemi Örtækni sem veitt hefur flestum starfsmönnum störf og verið ein megin tekjustoð félagsins. Nokkur breyting hefur þó orðið á síðastliðin ár og hefur stærri verkefnum farið fækkandi. Til að bregðast við breyttum aðstæðum með það að leiðarljósi að fjölga verkefnum og auka tekjur til framtíðar voru gerðar ákveðnar breytingar í lok árs 2021.

Nýjar áherslur

Samkomulag var gert við Faradice um framleiðslu og sölu á bílarafhleðslustöðvum. Áður hafði Örtækni tekið að sér vinnu við samsetningar á stöðvum fyrir Faradice. Örtækni hefur nú tekið að sér stærra og veigameira hlutverk í þessu samstarfi og sér alfarið um innkaup íhluta, samsetningu, sölu, þjónustu og markaðssetningu á stöðvunum. Eftir að samkomulagið var gert er eina aðkoma Faradice forritunarvinna tengd stöðvunum. Tilgangur þessa samstarfs er liður í því að byggja upp starfsemi Örtækni og aðlaga reksturinn tíðarandanum og framtíðinni. Mikil tækifæri felast í orkuskiptum á Íslandi og fer rafmagnsbílum sífellt fjölgandi og þar af leiðandi hleðslustöðvum. Hleðsustöðvarnar eru hannaðar og þróaðar fyrir íslenskar aðstæður og skera sig úr í samanburði við innfluttar stöðvar þegar horft er til gæða og endingar. Stöðvarnar eru einu stöðvarnar á markaðnum í verndarflokki IP65 sem uppfylla staðla um vatns-, ryk- og vindþol. Er hér um mjög spennandi samstarf að ræða fyrir starfsfólk Örtækni sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á þessu sviði.

Samið var við Advania um vistun gagna í skýjalausn í stað eldri netþjóns sem kominn var til ára sinna. Með því eykst öryggi gagna og áreiðanleiki á sama tíma og stjórnendum er gert mögulegt að vinna og nálgast upplýsingar og gögn, hvar og hvenær sem er, óháð því hvar þeir eru staddir hverju sinni.

Samhliða uppfærslu tölvukerfis var farið í gerð nýrrar vefsíðu og vefverslunar, sem nú hefur litið dagsins ljós. Við þá vinnu var einkum horft til þess að síðan væri notendavæn, netverslun aðgengileg og skýrt komi fram hver meginstarfsemi Örtækni er og hvaða vörur og þjónusta er í boði.

Ráðning nýs framkvæmdastjóra

Nýr framkvæmdastjóri, Jónas Páll Jakobsson, hóf störf 1. nóvember 2021 þegar Þorsteinn Jóhannsson lét af störfum eftir 28 ára farsælan feril sem framkvæmdastjóri. Þorsteinn hefur auk starfs síns hjá Örtækni gegnt fjölda trúnaðarstarfa í þágu Öryrkjabandalagsins og er honum þakkað sérstaklega fyrir góð störf í nær þrjá áratugi fyrir Öryrkjabandalag Íslands. Jónas Páll er menntaður viðskiptafræðingur, með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Hann hefur víðtæka reynslu af fjármálum og rekstri fyrirtækja og hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans síðastliðin 15 ár við fjármögnun og þjónustu við fyrirtæki.

Verkefni aðildarfélaga á starfsárinu

Heimsfaraldur Covid hafði mikil áhrif á starfsemi flestra félaga, sem þó létu ekki deigan síga. Stór hluti starfseminnar færðist á netið, fræðsla og fundahöld, sem heilt yfir gekk mjög vel, enda landsmenn orðnir ansi sjóaðir í Teams og Zoom.  Aðildarfélögin fengu sendan tölvupóst þar sem þau voru spurð hvort þau vildu láta vita af einhverri nýjung eða verkefni sem þau hefðu unnið að síðasta starfsár í stuttu máli. Nokkur félög sendu inn upplýsingar um nýjungar og áhugaverð verkefni. 

 

ADHD samtökin 

Á árinu voru stofnuð þrjú ný útibú á landsbyggðinni til viðbótar við þau þrjú sem fyrir voru. Hlaðvarpið „Lífið með ADHD“ hélt áfram, spjall- og fræðslufundir voru haldnir eins og aðstæður leyfðu ásamt árlegum vitundarmánuði, nú með áherslu á tómstundir, íþróttir og ADHD, en nýtt námskeið samtakanna fjallar um það og nefnist TÍA. Við beittum okkur fyrir alþingiskosningar og ánægjulegt var að rétt fyrir kosningar var tilkynnt um stóraukið fjármagn til greininga og þjónustu við fólk með ADHD og nýtt fyrirkomulag þjónustu við fullorðna. Hvatningarverðlaun ADHD voru veitt í fyrsta sinn til Urðar Njarðvík.

 

Alzheimersamtökin 

Starfsemi samtakanna hefur eflst mjög undanfarin ár. Stór skref hafa verið stigin þegar kemur að því að opna umræðuna og slá á gamla fordóma og mýtur. Samtökin reka þrjár sérhæfðar dagþjálfanir á höfuðborgarsvæðinu fyrir fólk sem lengra er gengið með sjúkdóm sinn, en býr enn heima. Nýlega var opnuð þjónustumiðstöðin Seiglan, sem ætluð er fólki á fyrstu stigum sjúkdómsins. Við áætlum að á höfuðborgarsvæðinu séu nú um 120 manns á hverjum tíma, sem eru í þeirri stöðu að geta nýtt sér þjónustuna. 

 

Astma- og ofnæmisfélag Íslands 

Félagið hélt námskeiðið „Sterkari út í lífið“ en annað námskeiðshald lá niðri vegna Covid. Útgáfa barnabókarinnar „Fjóla er með ofnæmi“ var styrkt. Félagið tekur virkan þátt í erlendu samstarfi og var formaður kjörin góðri kosningu í stjórn EFA (European federation of Allergy and Airways Diseases). Formaður AO er hluti af vinnuhóp Umhverfisráðuneytis um framkvæmd loftgæðaáætlunar Evrópu. Lögð voru drög að fyrsta fundi með ónæmis- og ofnæmislæknum, en mikilvægt er að efla slíkt samstarf.

 

Ás styrktarfélag 

Þrátt fyrir Covid ástand tók félagið þátt í verkefninu „Frelsi til að velja“ (Freedom of my Choice) ásamt Eistlandi Lettlandi, Litháen og Svíþjóð. Spennandi og gefandi verkefni þar sem raddir fólks með fötlun njóta sín. Myndlistarsýning Helgu Matthildar, sem var listamaður Listar án landamæra 2020, var haldin Í Ögurhvarfi. Skrifað var undir þjónustusamning milli félagsins og Reykjavíkurborgar þann 15. október 2021. Í árslok 2021 hófst spennandi vegferð með verkefnið Project SEARCH sem er ný aðferðarfræði til að greiða götu fólks með fatlanir inn á almennan atvinnumarkað.

 

Blindrafélagið 

Íslenskunámskeið fyrir blinda og sjónskerta nýbúa var haldið í fyrsta sinn síðasta vetur og ljóst er að framhald verður á því. Í samstarfi við Augnlæknafélag Íslands stóð Blindrafélagið að stórum alþjóðlegum viðburði á sviði augnlækninga í byrjun sumars 2022. Þar voru meðal annars kynntar rannsóknir og nýjungar á nýjum sviðum augnlækninga, svo sem gena- og stofnfrumumeðferðum auk framþróunar á öllum ellefu undirsérgreinum augnlækninga. Á sérstakri fyrirlestrarlínu fyrir leikmenn var lögð áhersla á að fjalla um rannsóknir og tilraunir sem beinast að því að finna meðferðir við ólæknandi hrörnunarsjúkdómum og heilkennum í sjónhimnu og fjallað um hagsmuni þeirra sem glíma við augnsjúkdóma og blindu. Þarna komu saman augnlæknar og vísindamenn víða að úr heiminum, sjúklingar, aðstandendur og talsmenn félagasamtaka sjónskertra og blindra.

 

CCU samtökin 

Vegna Covid var starfsemi CCU samtakanna minni en venjulega. Haldinn var aðalfundur og tveir fræðslufundir, annar þeirra var bara á netinu. Í maí 2022 var vitundarvakningarherferð á facebook undir slagorðinu „Þú sérð það ekki utan á mér“ og áhersla lögð á IBD og geðheilsu. Norðurlandafundur var haldinn í Hafnarfirði haustið 2021 og tókst hann ágætlega. 

 

Einhverfusamtökin 

Þrátt fyrir Covid tókst okkur að halda úti hópastarfi bæði fyrir fullorðið fólk og ungmenni á einhverfurófi í Reykjavík og á Akureyri. Fullorðinsfundirnir voru fluttir að mestu yfir á Zoom en ungmennin gátu mætt í hópana sína. Tveir fulltrúar samtakanna sátu samnorrænan fund um geðheilbrigðismál í Tallin. Málefni fanga voru rædd við Rauða kross Íslands og Þroskahjálp og í framhaldinu var farið með fræðslu inn í fangelsin á Hólmsheiði og Litla Hrauni. Nýr bækl-ingur Einhverfusamtakanna kom út á íslensku, ensku og pólsku. Í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfu, 2. apríl 2022 var haldin listsýningin „Marglitur mars“ með fjölbreyttum verkum og þátttöku einhverfs fólks. 

 

Félag lesblindra á Íslandi 

Langstærsta einstaka verkefni félagsins árið 2021 var framkvæmd rannsóknar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir FLÍ á fylgni kvíða og lesblindu meðal grunnskólabarna á Íslandi. Rannsókninni var í upphafi skipt í tvennt, annars vegar viðamikil könnun lesblindu í grunnskólum landsins og hins vegar í framhaldsskólum. Leitað var svara við spurningum á borð við algengi lesblindu meðal barna og hvernig hún sé greind í grunnskólum á Íslandi. Spurt var um líðan barna sem hafa verið greind með lesblindu í samanburði við börn sem ekki hafa lesblindugreiningu. Þá var spurt um nýtingu úrræða í grunnskólum fyrir börn með greiningu og hvort sé þörf á frekari úrræðum.

 

Geðverndarfélag Íslands 

Geðverndarfélagið hefur unnið í samræmi við samþykkt  aðalfundar þess 2018, að forvarnarstarf fyrir geð- og tilfinningaheilsu ungra barna og fjölskyldna tilheyrðu kjarnastarfsemi félagsins. Félagið undirritaði samning við Solihull Approach, sem er hluti af NHS (Bresku heilbrigðisþjónustunni), árið 2019 og hefur smám saman byggt upp þekkingu hérlendis með námskeiðum, fræðslu og þjálfun til fólks sem vinnur með börn. Covid seinkaði þessari vinnu en nú hillir undir öflugt starf með sveitarfélögum og sérhæfðum stofnunum og deildum sem vinna að geðheilbrigði barna. 

 

Gigtarfélag Íslands 

Gigtarfélagið stóð fyrir málþingi í tilefni 45 ára afmælis félagsins á afmælisdaginn 9. október 2021. Málþingið var haldið á Grand hóteli og því streymt þannig að fleiri gætu fylgst með. Fyrir hádegi var lögð áhersla á börn með gigt og var efnið unnið í góðri samvinnu við Barnaspítalann. Eftir hádegi var athyglin á þeim fullorðnu og fjölluðu læknar gigtardeildar Landspítalans um hvað er nýjast í rannsóknum, lækningu og lyfjum í baráttunni við gigtarsjúkdóma. 

 

Heyrnarhjálp 

Félagið stóð fyrir námskeiðum í samvinnu við norsk systursamtök í lok apríl 2022 um heyrnarskerðingu, eyrnasuð (tinnitus) og félagaþátttöku/leiðtogaþjálfun. Fulltrúi Heyrnarhjálpar í Evrópuverkefni um hljóðóþol flutti fyrirlestur um verkefnið í lok aðalfundar. Í september stóð Heyrnarhjálp fyrir námskeiðum, annars vegar stólaleikfimi (jóga) með áherslu á háls og herðar og hinsvegar snjalltækjanámskeið í Hringsjá. Árið 2022 flutti félagið tvisvar sinnum, en er nú í húsi Öryrkjabandalagsins. 

 

HIV Ísland 

Félagið tók þátt í gleðigöngunni á hinsegin dögum um miðjan ágúst og lét útbúa  áletruð spjöld með viðeigandi upplýsinga- og baráttutexta, svo sem „HIV jákvæðir á lyfjum smita ekki“ og „Við erum frábær..gordjös“. HIV jákvætt fólk sem aldrei hafði komið opinberlega fram áður tók þátt ásamt fleirum sem sýndu okkur skilyrðislausan stuðning með því að ganga með hópnum. Bara það að vera með í gleðigöngu er stór sigur fyrir alla HIV jákvæða á Íslandi. Sýnileiki og stolt er lykillinn að fræðslu og stuðningi til að vinna gegn fordómum og auka skilning. Þakklæti er orðið. 

 

Lauf 

Samtökin stóðu meðal annars fyrir göngu- og útivistarnámskeiðum í samvinnu við Vesen og vergang. Fjölskylduráðgjafi Laufs hjálpar fólki með samskipti, að vinna úr sinni líðan og að sækja ýmis réttindi þeim að kostnaðarlausu. Samtökin stóðu fyrir fræðslu til almennings og stofnana um flogaveiki, á öllum skólastigum, frá leikskólum og upp í háskóla, fyrir starfsfólk þeirra og stundum einnig fyrir nemendur. Einnig var haldin fræðsla fyrir starfsfólk á skammtímaheimilum, sambýlum, vinnustöðum fyrir fatlaða, bílstjórum hjá Strætó sem sjá um ferðaþjónustu fatlaðra og stofnana sem sinna öldruðum, en eldra fólk er stór hópur þeirra sem greinast með flogaveiki 

 

Lungnasamtökin 

Á aðalfundi Samtaka lungnasjúklinga var nafni félagsins breytt í Lungnasamtökin auk þess sem gerðar voru breytingar á lögum sem ætlað er að tryggja skráningu á félaginu í almannaheillafélagaskrá og almannaheillaskrá. Hápunktur síðasta starfsárs er þegar breyting á reglugerð um hjálpartæki (súrefnissíur) fyrir vistmenn á  stofnunum náðist í gegn. Þarna uppskárum við vel enda lögðum við mikla vinnu í að fá þessu framgengt, meðal annars með greinaskrifum, viðtölum í sjónvarpi, fundum með SÍ, heilbrigðisráðherra og þingmönnum í aðdraganda kosninga.

 

Málbjörg

Málbjörg var með sketsaherferð í tilefni af þrjátíu ára afmæli félagsins haustið 2021. Markmiðið var að veita innsýn inn í reynsluheim fólks sem stamar, varpa ljósi á þær áskoranir sem það getur mætt í daglegu lífi og vinna gegn staðalímyndum og fordómum. Herferðin fékk góða dreifingu á samfélagsmiðlum og umfjöllun í Landanum. Sketsarnir eru fimm alls og fara fram í skóbúð, atvinnuviðtali, banka, heimahúsi og á stefnumóti.

 

Málefli 

Félagið tók virkan þátt í hinum árlega alþjóðlega degi málþroskaröskunar DLD, sem haldinn var 15. október 2021. Tilefnið var notað til að vekja athygli á málþroskaröskun og félaginu. Aðalbygging Háskóla Íslands og strætóskýli voru meðal annars lýst upp með fjólubláum lit, sem er litur DLD samtakanna, auk þess sem auglýsingaborðar voru birtir á samfélagsmiðlum og auglýsingar í útvarpi. Málefli stóð fyrir tveimur fræðsluerindum, það fyrra haustið 2021, um orsakir, einkenni og aðferðir til að styðja við nemendur með málþroskaröskun DLD í skólakerfinu. Seinna erindið var haldið vorið 2022 um úrræði fyrir eldri börn í leikskóla og yngri börn grunnskóla með málþroskaröskun.

 

ME félagið 

Félagið vann að mannréttindabaráttu ME veikra en þeir fá oft rangar sjúkdómsgreiningar og meðferðir sem eru skaðlegar heilsu þeirra, sem geta leitt til aukinnar fötlunar. Félagið gaf út fræðslumyndband „Lífið með ME“ þar sem er meðal annars frætt um þá fordóma og jaðarsetningu sem ME fólk verður fyrir. Við þýddum nýjar bandarískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð á ME og birtum á heimasíðu félagsins, en þar er að auki tengill á nýjar NICE leiðbeiningar. 

 

MS félag Íslands 

Félagið hélt upp á alþjóðadag MS þann 26. maí 2022 með rafrænu bingói og fölskylduskemmtun ásamt vitundarvakningu á samfélagsmiðlum. Á 53ja ára afmæli félagsins 20. september 2021 gaf félagið út veglegan bækling um mataræði og næringu. Þá var boðið upp á þrekæfingar í lokuðum facebook hóp og sjósund í Nauthólsvík. 

 

Nýrnafélagið 

Löng barátta hefur verið háð fyrir því að nýrnasjúklingar sem þurfa að fara á milli sveitarfélaga til að fara í blóðskilun, fái hærri greiðslu en 75% af aksturskostnaði. Baráttan skilaði sér því Sjúkratryggingar Íslands breyttu reglunum og nú fæst 95% endurgreiðsla ef fara þarf lengri ferðir, það er ef viðkomandi býr ekki í því sveitarfélagi sem þjónustan fer fram í. Þetta á aðeins við um þá sem eru í lífsbjargandi meðferð! Félagið samþykkti ályktun á aðalfundi 2021 þar sem skorað var á Samband íslenskra sveitarfélaga að sjá um akstursþjónustu milli sveitarfélaga fyrir fatlað fólk og langveika sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur. Aðeins með því er hægt að stuðla að jafnræði óháð búsetu. 

 

Parkinsonsamtökin 

Taktur, miðstöð Parkinsonsamtakanna opnaði nýlega í Lífsgæðasetri St. Jó í Hafnarfirði. Þar er boðið upp á faglega endurhæfingu með sérhæfðri sjúkraþjálfun, fræðslu, ráðgjöf, stuðningi, námskeiðum og félagsstarfi. Þjónustan er fyrir fólk með parkinson og skylda sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Öll starfsemi miðar að því að efla andlega, líkamlega og félagslega færni og auka lífsgæði og lífsgleði.

 

Samtök sykursjúkra 

Samtökin stóðu á starfsárinu fyrir auglýsinga- og kynningarherferð, aðallega á samfélagsmiðlum, sem gekk vel og skilaði rúmlega 400 nýjum félögum. Gott samstarf hefur verið við önnur félagasamtök, sem og Sjúkratryggingar, Landspítala, landlækni og fleiri. Samtökin urðu 50 ára 2021 og var afmæli félagsins vel fagnað.

 

Samtök um endómetríósu 

Samtökin berjast fyrir niðurgreiðslum á nauðsynlegum aðgerðum. Bið eftir aðgerð nemur að meðaltali tíu mánuðum, en samkvæmt viðmiðum landlæknis kemur skýrt fram að sjúklingar skuli ekki bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð. Nýverið hóf sérfræðingur í endómetríósu störf á einkarekinni stofu þar sem biðtíminn er töluvert styttri, en SÍ niðurgreiða ekki aðgerðirnar. Margir reyna þó að borga úr eigin vasa, í von um betri lífsgæði. Samtökin héldu ráðstefnu í mars 2022 með erlendum sérfræðingum og stóðu fyrir vitundarvakningu um sjúkdóminn alla mánuði ársins. 

 

SÍBS 

SÍBS stóð fyrir gönguáskorunum og hélt vinsæl fjarnámskeið um hreyfingu. Unnið var að hagsmunagæslu og framleidd örmyndbönd um mataræði, hreyfingu, svefn og streitu. Vitundarvakningu var sinnt á netinu og kom SÍBS-blaðið þrívegis út í alls 30.000 eintökum. Eftir fjölda ára í Síðumúlanum, flutti SÍBS starfsemi sína í ný og glæsileg húsakynni að Borgartúni 28a. 

 

Sjálfsbjörg lsh.

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, hefur síðastliðið starfsár unnið þétt með „Römpum upp Reykjavík“ í að bæta aðgengi að byggingum í Reykjavík. Einnig var farið í herferð á samfélagsmiðlum um fordóma gegn hreyfihömluðum sem tókst vel.

 

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra 

Önnur meginstoðin í starfi félagsins er frístundastarf fyrir fötluð börn og ungmenni. Með nýjum samningum við félags- og barnamálaráðherra var starfsemi á árinu stóraukin. Reknar voru ævintýrabúðir í Háholti Skagafirði, sumarfrí fyrir fullorðið fatlað fólk á Hótel Heklu, fjölskyldufrí í Vík í Mýrdal og Húsavík og jafningjasetur.   

Rekstrarreikningur

Rekstrarreikningur

2021

2020

Rekstrartekjur

Framlag frá Íslenskri getspá 1 .111 .800 .413 899 .326 .768
Leigutekjur 14 .103 .501 13 .491 .866
Aðrar tekjur 13 .113 .773 8 .700 .000
Tekjur samtals 1.139.017.687 921.518.634

Rekstrargjöld

Styrkir og framlög 452 .059 .663 528 .983 .004
Laun og launatengd gjöld 251 .055 .677 197 .806 .834
Hækkun lífeyrisskuldbindinga 8 .348 .032 7 .129 .442
Annar rekstrarkostnaður 172 .446 .619 109 .272 .635
Afskriftir 8 .236 .636 7 .904 .082
Gjöld samtals 892.146.627 851.095.997
Rekstrarafkoma (-tap) fyrir skatta 246.871.060 70.422.637

Fjármunatekjur og (-gjöld)

Vaxtatekjur og verðbætur 9 .694 .715 7 .930 .637
Vaxtagjöld, gengistap og verðbætur (293 .128) (307 .255)
Rekstrarafkoma (tap) ársins 256.272.647 78.046.019

Efnahagsreikningur

2021

2020

Fastafjármunir

Fasteign 299 .729 .741 306 .790 .954
Áhöld, búnaður og innréttingar 3 .288 .770 2 .810 .524
Stofnframlag 2 .065 .000 1 .065 .000
Bundnar innistæður – Arfur ÓGB 87 .044 .960 83 .809 .654
Bundnar innistæður – Varasjóður ÖBÍ 133 .588 .283 128 .633 .954
Fastafjármunir samtals 525.716.754 523.110.086

Veltufjármunir

Kröfur á tengda aðila 0 2 .651 .929
Aðrar skammtímakröfur 209 .723 .315 96 .409 .830
Handbært fé 394 .679 .151 175 .575 .018
Veltufjármunir samtals 604.402.466 274.636.777
Eignir samtals 1.130.1 19.220 797.746.863

Eigið fé í árslok

Eigið fé 942.363.216 686.090.569
Skuldir 187 .756 .004 111 .656 .294
Eigið fé og skuldir 1.130.119.220 797.746.863